27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (5764)

Þormóðsslysið

Brynjólfur Bjarnason:

Það var út af ummælum hv. 6. þm. Reykv., sem ég vildi segja fáein orð. Mér þykir það furðulegt, þegar tugir manna fara í sjóinn og talið er mögulegt, að það sé af orsökum, sem við getum ráðið við. Þá er það hið fyrsta, sem menn láta sér detta í hug, að þá eigi að sækja að lögum, sem gagnrýna skipaeftirlitið. Það er almælt, að slík breyting hafi verið gerð á togurunum og öðrum skipum, að þau séu ósjófær, ef nokkuð ber út af, og þegar slíkt er orðið almæli, þá er það allalvarlegt mál. Og það eru fleiri en Halldór Kiljan Laxness, sem tala um skipulögð morð. Mikill hluti sjómannastéttarinnar talar um hið sama í þessu sambandi. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að við fáum aldrei fullkomið skipaeftirlit, fyrr en sjómennirnir sjálfir taka það í sínar hendur og það verður framkvæmt af fulltrúum, sem þeir treysta. Og það er þetta, sem ég tel, að nú eigi að gera, að bæta eftirlitið og gera þegar þær breytingar á skipunum, sem þörf krefur, en ekki hitt, að lögsækja menn fyrir að gera kröfur um aukið öryggi. Enn fremur vildi ég óska, að ríkisstjórnin upplýsti, hvað hún hefur í hyggju að gera í þessu máli, en hitt tel ég óverjandi, hvað hún hefur dregið að birta niðurstöðu: frá rannsókn Þormóðsslyssins, ef af þeim mætti nokkuð ráða um það, hvaða áhrif breytingar á skipunum hafa haft og geta haft.