16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (5778)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Pétur Ottesen:

Ég finn ástæðu hjá mér til að segja nokkur orð út af þeim ummælum, sem hæstv. atvmrh. viðhafði hér um það, sem fram hefur komið í þessu máli. Mér virtust þau ummæli einnig eiga við um það, sem ég hef lagt til þessara mála.

Í þeirri ræðu, sem ég hélt hér áðan, beindi ég engum skeytum til hæstv. ráðh. eða ríkisstj. Ég sagði nokkur orð um formsatriði málsins og meðferð þess hér, og ég vék að tveim atriðum, sem fram komu í ræðu annarra þm. Það var síður en svo, að ég léti falla nokkra ádeilu í garð hæstv. ráðh. eða viðhefði nokkur þau ummæli, sem gæfu honum tilefni til að beina skeytum til mín. Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að þau ummæli, sem ég hafði viðhaft hér, væru óviðurkvæmileg í sambandi við þetta mál, auk þess sem fram kæmi í þeim óvild til Færeyinga. Ég rek þessi ummæli aftur heim til föðurhúsanna.

Þetta, sem ráðh. talaði um, að væri óviðurkvæmilegt, var það, að ég hafði tekið undir það, sem hér hafði komið fram, að það væri ekki nema eðlilegt, að sá samningur, sem gerður hafði verið um leigu á brezku skipunum til fiskflutninga, væri einnig lagður fram fyrir Alþ. til samþ. Enn fremur tók ég undir það, að samningurinn, sem gerður hafði verið við Eimskipafélagið, yrði einnig lagður fram til samþ. En ég undirstrika það, að enginn eðlismunur er á samningunum um færeysku og ensku skipin. Þar er í báðum tilfellunum um að ræða samning við erlendan aðila og samningarnir því í alla staði hliðstæðir. Ef ástæða er til, að Alþ. samþ. annan þeirra, er einnig ástæða til, að það samþ. hinn. Mér finnst það einnig ekki rétt, að þessu máli sé skotið inn í önnur mál, heldur hefði átt að bera fram sjálfstæða þál. um þetta og taka upp í hana samning þann, sem hér um ræðir. Og það er fjarri því, að í þessu felist á nokkurn hátt óviðurkvæmileg ummæli eða óvild til nokkurs. Það er gersamlega ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. að halda slíku fram. Og það er lágmarkskrafa, sem hægt er að gera til þeirra manna, sem finna köllun hjá sér til að setjast í ráðherrastól, að þeir séu sér þess meðvitandi, að þeir eiga að koma sómasamlega fram, ekki sízt á sjálfu Alþ.

Það hefur ein gagnrýni komið fram við þessar umr. varðandi gerðir ríkissti., og hún kom frá manni, sem er stuðningsmaður stj. Og það var svo fullkomin gagnrýni hjá þessum hv. stuðningsmanni stj., að hann sagði, að hann gæti ekki greitt atkvæði með þessum samningi. Og til stuðnings þeirri skoðun sinni dró hann fram nokkur atriði í samningnum, sem væru þess eðlis, að hann gæti ekki greitt honum atkvæði. Þetta er nú eina gagnrýnin, sem hreyft hefur verið í sambandi við þennan samning. Og hún kom frá stuðningsmanni ríkisstj. Hann lagði til, að málinu væri vísað til n. í því augnamiði, að athugasemdir væru gerðar við þál. og orðalagi hennar yrði breytt. Gagnvart þessari gagnrýni og aðfinnslum frá hv. 2. þm. S-M. hafði ráðh. ekki annað fram að færa en það, að í raun og veru væri þessi samningur hjálparstarfsemi gagnvart Færeyingum. Lagði ráðh. mikla áherzlu á það, að við værum tengdir þeim vináttuböndum og okkur lægi rík skylda á herðum að rækja þá vináttu eftir því, sem við bezt gætum. Með þessum hætti svaraði hann gagnrýni, sem fram kom hjá hv. þm. Barð. Það væri mjög ánægjulegt, ef þessi samningur gæti orðið báðum aðilum til gagns. En að líta á hann sem hjálparstarfsemi til handa Færeyingum, það er allt annað mál. Það kom í ljós, að hv. þm. Barð., stuðningsmaður stj., lítur allt öðrum augum á þennan samning heldur en hæstv. atvmrh. virðist gera. Þm. Barð. lítur á samninginn frá hagsmunalegu sjónarmiði þess aðila, sem hann telur sig vera fulltrúa fyrir, eins og hinn aðilinn mun hafa skoðað hann frá sjónarmiði þess aðila, sem þeir voru að semja fyrir. En það er hinn eðlilegi gangur samninga milli manna og ríkja.

Ég sé svo ekki þörf að orðlengja þetta frekar. Ég vildi sem sagt alls ekki liggja undir óverðskulduðu ámæli hæstv. ráðh. um að hafa viðhaft óviðurkvæmileg orð í sambandi við ummæli mín um þessa till. og að í þeim hafi falizt óvild í garð Færeyinga frá minni hálfu. Álít ég, að ég hafi nú vísað þeim ósannindum á bug.