04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

143. mál, fjárlög 1945

Jakob Möller:

Ég verð að taka undir það með hæstv. fjmrh., að áætlunin um tekjubálk þessa fjárlfrv. megi teljast að verulegu leyti á sandi byggð.

Tekjuskatturinn og hluti ríkisins af stríðsgróðaskatti er á þessa árs fjárl. áætlaður 26 millj. kr., en á frv. 25 eða aðeins 1 millj. kr. lægri. Álagður tekjuskattur í ár hefur að vísu orðið 41/4 millj. kr. hærri en áætlað var, en bæði er þá það að athuga, að eins og tekið er fram í aths. við þetta frv., má gera ráð fyrir, að sú upphæð lækki í meðförum yfirskattan. og ríkisskattan., og svo er hitt, að samkvæmt því, sem tekið er fram í aths., hefur stríðsgróðaskattur orðið álagður 21/2 millj. kr. lægri en áætlað var eða hluti ríkissjóðs 11/4 millj. lægri. Og um stríðsgróðaskattinn gildir að sjálfsögðu það sama eins og um tekjuskattinn, að gera má ráð fyrir lækkun á honum í meðförum yfirskattan. og ríkisskattan., svo að vafasamt er, að endanlega álagðir verði þessir skattar nokkru, sem nemi, hærri en nú er áætlað í frv. fyrir næsta ár. Og enn ber að athuga, að þó að ganga megi út frá, að afkoma atvinnuveganna í ár verði sæmileg, eins og komizt er að orði í aths., þá er sjálfsagt hæpið að gera ráð fyrir því, að hún verði eins góð og s.l. ár, og ef hátekjurnar lækka, sem nokkru nemur um skattinn af, þá er þess að gæta, að skatturinn lækkar þá einnig nokkuð ört. Og hvað verður svo um innheimtu skattsins á næsta ári, ef verulegur afturkippur kemur í atvinnureksturinn? Ég er hræddur um, að þá kunni enn að verða nokkur vanhöld á tekjum ríkissjóðs af þessum tekjustofni. Yfirleitt borga skattþegnarnir skattana ekki af þeim tekjum, sem þeir eru lagðir á, heldur eftir á af tekjum næsta árs, og ef þær tekjur eru rýrar, þá er hætt við, að mörgum skattþegninum veitist örðugt að greiða háa skatta frá fyrra ári. Ég verð því að álíta, að tekju- og stríðsgróðaskatturinn séu fremur óvarlega áætlaðir í frumvarpinu.

Um áætlun annarra tekjuliða — og þá einkum innflutningstolla og tekjur af rekstri ríkisstofnana — má segja, að mjög sé rennt blint í sjóinn. Ef Norðurálfuófriðnum lýkur á þessu ári, þá má að sjálfsögðu búast við lækkun á flutningsgjöldum og þar af leiðandi lækkun á verðlagi á verðtollavörum, eins og í aths. við frv. segir, og því varlegra að gera ráð fyrir lækkun á tekjum ríkissjóðs af þeim tekjustofni. Hins vegar varð eftir síðasta stríð stórkostleg hækkun á öllu verðlagi erlendis og það allt að því í tvö ár. Og eins er það, að ef kaupgeta okkar minnkaði ekki, þá mætti gera ráð fyrir auknum innflutningi sem svaraði verðlækkun, ef um slíkt yrði að ræða. Hins vegar kynni svo að fara, að kaupgeta okkar minnkaði mjög verulega, og ef verðlag erlendis stæði í stað eða hækkaði, þá yrði afleiðingin vafalaust minni innflutningur og minni verðtollur. Og sama hættan vofir þá yfir tekjunum af rekstri ríkisstofnana.

Það er m.ö.o. svo komið, að óvissan um tekjuöflun ríkissjóðs er nú orðin svo mikil, að full ástæða er til að fara sem allra varlegast í áætlunum um þær. Samkvæmt gildandi fjárl. eru rekstrartekjurnar áætlaðar 88,3 millj. kr. á yfirstandandi ári. En samkvæmt frv. eiga rekstrartekjur næsta árs að verða 86,8 millj. kr. eða aðeins 11/2 millj. kr. lægri. Skattar og tollar eru áætlaðir 5,8 millj. kr. lægri. En tekjur af ríkisstofnunum eru svo áætlaðar 4 millj. kr. hærri og aðrar tekjur 0,3 millj. kr. Þó að tekjur yfirstandandi árs fari sjálfsagt talsvert fram úr áætlun, ef tekjuáætlunin samkv. gildandi fjárl. reynist þannig að hafa verið allmiklu lægri en reynslan sýnir, að hún hefði mátt vera, þá er hæpið að treysta því, að svo reynist einnig um áætlunina fyrir næsta ár.

En þó að svo væri, að gera mætti ráð fyrir nokkru meiri tekjum en áætlað er í frv., þá má hins vegar ekki síður gera ráð fyrir því, að gjöldin fari einnig fram úr áætlun. Um yfirstandandi ár verður það vafalaust svo, og sama mun verða reynslan á næsta ári. M.a. verður meðalverðlagsvísitalan vafalaust mun hærri á yfirstandandi ári en reiknað var með í fjárl. ársins. Og allar líkur eru til þess, að munurinn verði enn meiri á næsta ári, en eins og kunnugt er, þá er verðlagsuppbót af launum í þessu frv. miðuð við vísitölu 250 eins og í fjárl. yfirstandandi árs og undanfarinna ára. Meðalverðlagsvísitala ársins 1943 varð rúmlega 250. Í ár hefur vísitalan farið hækkandi jafnt og þétt og er nú komin upp í 272 stig, en meðalvísitalan verður vafalaust yfir 270 stig.

Hæstv. fjmrh. hefur orðið fyrir nokkru aðkasti fyrir að, að í fjárlfrv. er reiknað með vísitölu 250. Ég get ekki tekið undir það aðkast. Hæstv. ríkisstj. hefur viljað vinna að því að halda dýrtíðinni í skefjum, og hún hefur á þessu þingi lagt fram frv. um dýrtíðarráðstafanir, sem miðuðu að því, og ég get ekki fallizt á, að það sé vítavert, þó að hún hafi gert ráð fyrir því, að undir þær till. yrði tekið á annan veg en gert var. Aðeins skal þó játað, að betur hefði farið á því að geta þess í aths. við frv., samkv. hvaða vísitölu verðlagsuppbótin væri reiknuð. En svo er þá líka hitt staðreynd, að vísitalan er nú komin upp í 272 stig, og litlar líkur eru til þess, að hún lækki fyrst um sinn, og fyrir þá sök eru gjöldin samkv. frv. vafalaust 2–3 millj. kr. of lágt áætluð, ef gert er ráð fyrir, að vísitalan lækki ekki á árinu, frá því sem nú er, og hún er auðvitað mörgum millj. kr. of lágt áætluð, ef ekki verða gerðar ráóstafanir til þess að koma í veg fyrir hækkun hennar. En til þess verður ekki aðeins að halda áfram þeim greiðslum úr ríkissjóði, sem til þessa hafa verið inntar af hendi til þess að halda niðri verði á landbúnaðarafurðum innan lands og til þess að bæta upp. verð á útfluttum landbúnaðarafurðum. En fyrir slíkum útgjöldum er ekkert áætlað í frv., og verður þó að sjálfsögðu að gera það, ef ekki verða fundin önnur ráð til þess að hamla á móti dýrtíðinni.

Þó að allt sé í mikilli óvissu um tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári, þá er nokkuð öðru máli að gegna með útgjöldin. Við vitum, að rekstrarútgjöld ríkissjóðs lækka ekki frá því, sem þau eru áætluð í frv., rekstrarkostnaðurinn er að mestu leyti bundinn. Og lögbundin útgjöld ríkissjóðs hafa farið síhækkandi ár frá ári, ekki aðeins vegna aukinnar dýrtíðar, heldur einnig vegna þess, að á ríkissjóð er alltaf verið að leggja nýjar og nýjar kvaðir, sem hafa í för með sér stórkostleg útgjöld. Og eins og nú er komið, er yfirleitt varla um það að ræða að lækka útgjaldabálkinn nema með því að skera niður verklegar framkv.

Gjaldabálkur fjárl. hefur farið síhækkandi undanfarin ár. Samkv. gildandi fjárl. eru rekstrarútgjöldin 89765 þús. kr., en þar með eru taldar 10 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, sem felldar eru niður í þessu frv. Samkv. frv. eru rekstrarútgjöld ársins 1945 áætluð 81.675.277 kr. eða nálega 2 millj. kr. hærri en samkv. fjárl. yfirstandandi árs að slepptum dýrtíðarráðstöfunum.

Fyrir stríð voru rekstrarútgjöld ríkissjóðs 16–17 millj. kr. samkv. fjárl., og 16.705.791 kr. voru þau árið 1938. Ef gert væri ráð fyrir því, að útgjöld ríkissjóðs hefðu ekki þurft að hækka meira en svaraði hækkun verðlagsvísitölunnar og reiknað með vísitölunni 250, ætti að áætla þau nú 41.764.477 kr., en samkv. frv. verða þau um 40 millj. kr., hærri, og er það nálega 100% hækkun umfram verðlagsvísitölu. Nú var árið 1938 kreppuár og mjög þröngt um fjárhag ríkissjóðs, svo að ætla mætti, að þessi tvö ár séu varla sambærileg. Það er þá líka fróðlegt að bera saman, hvað fæst fyrir þessar feikna-fjárhæðir, sem nú eru greiddar úr ríkissjóði, samanborið við það, sem fékkst fyrir fé ríkissjóðs 1938. Eins og menn sjá, þá eru útgjöldin sem næst því að svara til fimmfaldra útgjalda ársins 1938. Og það mun líka láta nærri, að verklegar framkvæmdir séu sem því svarar dýrari nú. Og nú skulum við athuga einstakar fjárveitingar til verklegra framkvæmda samkv. þessu frv. og bera þær saman við fjárveitingar ársins 1938.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir að verja til nýlagninga og viðhalds

Árið 1945 Árið 1938

Þjóðvega .......... 9150 þús. kr. 1193 þús. kr.

Brúargerða ........ 1500 — — 70 — —

Sýsluvega ...........445 — — 92 — –

Malbikana ......... 50 — — 20 — —

Samgangna á sjó 3380 — — 654 — —

Hafnargerða ....... 2000 — — 301 — —

Nýbýla ........... ...360 — — 155 — —

Samkv. jarðræktarl. 995 — — 640 — —

Bygginga í sveitum 550 — — 325 — —

sandgræðslul) ...... 275 — — 30 — —

Skógræktarl) ………. 330 — — 28,5 — —

Samtals 19635 3608,5

Þegar það er nú athugað, sem ég sagði áðan, að verklegar framkvæmdir muni nú kosta um það bil fimmfalt á við það, sem þær kostuðu 1938, þá verður niðurstaðan, að þessar 19.635 þús. kr., sem gert er ráð fyrir samkv. frv., að veittar verði til. framangreindra verklegra framkvæmda á árinu 1945, svara aðeins til þess, að á árinu 1938 hefðu verið veittar til þeirra 3.927 þús. kr., en þá voru veittar 3.608.5 þús. kr. til slíkra framkvæmda eða tæplega 10% minna. Og það var kreppuár. Það fer því að fara mesti ljóminn af tugmilljónafjárveitingunum og framkvæmdum þessara síðustu ára.

Ég vek athygli á því, að miðað við verðgildi árið 1938 er ráðgert að veita aðeins 1.950 þús. kr. til nýlagninga og viðhalds þjóðvega á árinu 1945, og er það að vísu sem næst 50% hærri fjárveiting en 1938, en að krónutölu er fjárveitingin 1945 71/2-föld. Til sýsluvega er á árinu 1945 ráðgert að veita sem svarar verðgildi 89 þús. kr. árið 1938, en þá voru veittar 92 þús. kr., til hafnargerða 1.945 sem svarar 400 þús. 1938, en þá voru veittar 301 þús. kr. og fjárveitingin 1945 að krónutölu hátt upp í það sjöföld. Til nýbýla er áætlað 45 þús. kr., sem svarar 72 þús. 1938, en þá voru veittar 155 þús. kr. Greiðslur samkvæmt jarðræktarl. eru áætlaðar árið 1945 sem svarar 199 þús. kr. 1938, en þá voru veittar 640 þús. kr., — til bygginga í sveitum 1945 sem svarar 110 þús. kr. 1938, en þá voru veittar 325 þús. kr. Já, og strandferðirnar. Til þeirra eru áætlaðar 3.380 þús. kr. og þykir gífurlegt, en skyldi það vera raunverulega miklu hærra en 676 þús. 1938, en það ár voru veittar 654 þús. eða aðeins 22 þús. kr. minna, og er ekki nokkuð vafasamt, að ferðirnar nú séu jafnvel þeim mun betri, hvað þá, að not þeirra séu ríflega fimmföld á við það, sem var 1938?

Ég veit það, að þó að þessar 19.635 þús. kr. af áætluðum fjárveitingum til verklegra framkvæmda á árinu 1945 hefðu þótt óskapleg upphæð 1938, enda nær 3 millj. kr. hærri en öll rekstrarútgjöld fjárl. þá, þá vex mönnum hún ekkert í augum nú og síður en svo. Mönnum þykir blátt áfram skömm til koma, og ég held, að það hafi mátt heyra það á ræðum hv. ræðumanna, sem hafa talað hér á undan mér, og það er nærri því að vonum, þegar þess er gætt, að það er raunverulega aðeins 10% meira en tilsvarandi fjárveitingar á kreppuárinu 1.938.

Við erum m.ö.o. þrátt fyrir allt peningaflóðið í landinu og í ríkissjóðinn í rauninni að horfast í augu við krepputíma í verklegum framkvæmdum. Og þetta er sköpunarverk okkar sjálfra, — ekki þingsins sérstaklega, það verður að taka skýrt fram. Það er sköpunarverk fólksins í landinu, sem alltaf hefur viljað fá meira og meira af lífsins gæðum fyrir sama framlag af sinni hálfu. Það hefur fengið hærra kaup, hærra verð fyrir afraksturinn af atvinnurekstri sínum, en þessi hækkun hefur í heild verið aðeins á pappírnum. Tekjurnar hafa orðið hærri að krónutölu, en þeim mun rýrari að notagildi. Þessi ár hefðu getað orðið ágæt ár, ef fólkið hefði ekki verið haldið þeirri blindni að hugsa sér, að það geti slegið fimm krónupeninga úr sama efni, sem einn krónupeningur var sleginn úr áður. En maður rekur sig nú á það, einnig í sambandi við afgr. fjárl. á Alþingi, að þetta er ekki hægt, verðgildi peningsins vex ekkert við það, að hann er flattur út. Og þó er verið að streitast við að fletja út peninginn með áframhaldandi kauphækkunarkröfum.

Í þessu sambandi verð ég að minna hv. 3. landsk. þm. á það, að „Ingólfsstyttan“ stendur ekki ein að því, í hvert óefni er komið. Það eru fleiri, sem eiga styttur sínar á þeirri leið en form. kjötverðlagsn., hvað sem nú um þá styttu má segja. Og víst voru það aðrir, sem lögðu gjörva hönd á byggingu undirstöðunnar undir þá styttu. Og úr því að ég vík máli mínu að hv. 3. landsk., þá verð ég að bæta því við, að þó að hann gerði grein fyrir ýmsum atriðum, sem á góma hefur borið í sambandi við umr. um stjórnarmyndun, hefur mér ekki skilizt, að Alþfl. sé fáanlegur til að taka þátt í myndun ríkisstj., — já, nærri því, hvað sem í boði er.

Nú eru uppi háværar raddir um það hér í þinginu, að óhjákvæmilegt sé að hækka framlag til verklegra framkvæmda frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hef heyrt talað um svona 8 millj. kr. Samkv. því ættu rekstrarútgjöldin að hækka upp í allt að 90 millj. kr. Svo bætist þar við a.m.k. 20 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana og ef til vill meira. Og hvaða ráð sjá menn til þess að afla tekna, sem þessu svarar, — allt að 30 millj. kr.? Verðum við ekki að fara að gera okkur það ljóst, að við erum að spenna bogann svo hátt, að hann hlýtur að bresta þá og þegar? Jafnvel þó að einhver ráð væru til þess að reyta saman tekjur handa ríkissjóði til þess að standast þessa útgjaldaaukningu, þá er alveg auðsætt, að við stöndum bara þeim mun verr að vígi á eftir. Það er engin leið til þess að afla þessara tekna nema með því móti, að við spillum aðstöðu okkar í framtíðinni að miklum mun.

Ég býst ekki við því, að nokkrum manni komi til hugar að hækka tolla í því skyni. Og hvað þá um beina skatta? Tekjuskattstiginn er kominn upp í 90% af hæstu tekjum. Þó er að vísu þess að gæta, að framleiðslufyrirtækjum er leyft að draga frá nokkurn hluta tekna sinna, áður en skattur er lagður á, með því skilyrði að binda það fé í því skyni, að því verði varið til að afla nýrra framleiðslutækja í stað útslitinna tækja, sem mjög er haft á orði, að vart geti talizt nothæf lengur. Það er ofarlega í huga sumra stjórnmálamanna að svipta fyrirtækin þessum fríðindum, en þess er þá ekki gætt, að með því er verið að veikja fjárhagsaðstöðu þjóðarbúsins í framtíðinni. Í rauninni er það alveg sambærilegt við það að nota höfuðstól sinn til daglegrar eyðslu — eða, eins og það er orðað í daglegu tali, að éta út eignir sínar. Það hefur líka verið talað um þessar 580 millj., sem bankarnir eru taldir eiga í inneignum erlendis, en í rauninni er geymslufé, sem þeir verða að svara til, þegar sparisjóðsinnstæður eru krafðar af þeim. Þá má að sjálfsögðu einnig tala um að leggja skatt á sparisjóðsinnstæðurnar! En hverjum dettur það í hug í alvöru, að farið verði að taka hluta af sparifé manna til þess að verja því til daglegra útgjalda ríkissjóðs? — En í rauninni er þetta tvennt alveg sambærilegt, að taka fé, sem ætlað er til að byggja upp frambúðar-fjárhagsaðstöðu þjóðarinnar, hvort sem það er sparifé einstaklinga eða varasjóðir eða varasjóðstekjur fyrirtækja, sem ætlaðar eru til endurnýjunar á framleiðslutækjum.

Við höfum nú dansað kringum ímyndaðan gullkálf um alllangt skeið. Við höfum stigið þann dans svo gálauslega, að okkur hefur láðst að gæta þess, að sá dans hefur smátt og smátt færzt út

á hyldýpisbarm fjárhagsöngþveitis. Og gullkálfurinn hefur samtímis verið að breytast. Gullljóminn er að fölna. Gyllingin, sem okkur hefur orðið svo starsýnt á, er alltaf að þynnast og mást af. Við verðum að stöðva þennan dans, áður en við hröpum ofan í hyldýpið.