10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (5784)

Þormóðsslysið

Finnur Jónsson:

Ég vildi gera hér fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. og ber hana hér fram nú, þar eð hæstv. forseti hefur tjáð mér, að aðeins yrði þingfrestunarfundur á morgun. Þessi fyrirspurn mín er í framhaldi af þeirri, er við hv. 2. þm. S.-M. bárum hér nýlega fram viðvíkjandi rannsókn á Þormóðsslysinu. Sú fyrirspurn hefur þegar borið þann árangur, að dómsmálaráðuneytið er nú búið að birta þann kafla úr skýrslu sjódómsins, er ekki hafði verið birtur fyrr en þess var krafizt. Þessi síðari hluti rannsóknarinnar virðist leiða í ljós, að alvarleg mistök hafi átt sér stað af hendi skipaeftirlitsins varðandi þetta slys. Virðast dómendurnir álíta, að ýmislegt hafi verið athugavert við útbúnað skipsins, t.d. hafi það ekki uppfyllt lögboðnar kröfur um styrkleika. Enn fremur að yfirbygging skipsins hafi verið þyngd um of í hlutfalli við máttarviði skipsins. Þá er það og, að skipinu var bannað að flytja farþega, en gerði það samt.

Þar sem búið er nú að birta alla skýrslu sjódómsins og hún er orðin almenningseign, þá vil ég nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh., sem skipaeftirlitið heyrir undir, hvort ríkisstj. sjái ekki ástæðu til að fá úr því skorið fyrir dómi, hvort þær vanrækslur, er sjódómurinn virðist slá föstum, varði við lög eða ekki, fá sýknun eða sakfellingu í málinu. Ég treysti hæstv. forsrh. til þess sem húsbónda á heimili ríkisstj. að gera allt, sem hægt er, þar sem Alþ. hefur ekki tækifæri til að segja álit sitt á aðförum hæstv. dómsmrh., sem því miður er ekki hér viðstaddur. Það virðist þurfa að taka það til athugunar, hvort ekki ber að gefa skýringu á þeim aðförum að halda niðurstöðum sjódómsins fleiri mánuði í ráðuneytinu og birta siðan aðeins þann kaflann úr skýrslu hans er ósaknæmastur var fyrir skipaeftirlitið.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. skilji og meti ástæður mínar fyrir því að spyrja hann, þar eð hæstv. dómsmrh. er hér ekki staddur.