10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (5790)

Þormóðsslysið

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Í tilefni af fyrirspurn þeirri, sem hér hefur komið fram til mín viðvíkjandi skipaeftirlitinu, vil ég segja, að niðurstöður rannsóknar þeirrar, sem gerð var á Þormóðsslysinu samkvæmt ósk atvinnumálaráðuneytisins, voru sendar dómsmálaráðuneytinu, eins og venja er til, með ósk og beiðni um, að það vildi athuga, hvort ástæða væri til frekari aðgerða út af rannsókninni. Með því að dómsmálaráðuneytið taldi ekki ástæðu til þessara aðgerða eða málshöfðunar gegn mér eða embættismönnum skipaskoðunarinnar, þá virtist , ekki vera hægt að sanna þær sakir í þessu máli, að rétt væri að beita frekari aðgerðum gegn embættismönnum skipaeftirlitsins að svo stöddu. Hins vegar er það, að sjódómur og sérfræðingar eru nú að gera athuganir um eftirlit skipaskoðunarinnar samkvæmt þál. frá Alþ., er skipaði sérstaka nefnd, sem m.a. á að athuga, hvernig þetta eftirlit hefur verið framkvæmt undanfarið. Nefndin hefur væntanlega lokið þessari rannsókn sinni í sumar, og þykir mér því eðlilegt að bíða með frekari aðgerðir, þar til þeirri athugun er lokið. Hins vegar vil ég segja, að ef þessi athugun leiðir í ljós, að um verulega og almenna vanrækslu hjá embættismönnum skipaskoðunarinnar sé að ræða, þá verða gerðar ráðstafanir til að hindra, að slíkt endurtaki sig.