16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (5797)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég vil benda hæstv. forseta á, út af ummælum hans hér áðan, að ég hef ekki talað nema tvisvar í þessu máli.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 6. landsk., sem ég, vildi víkja að. — Hv. þm. kvað það óþarft að blanda inn í þetta mál leigu um rúm í brezkum skipum. Þetta er að nokkru rétt, en þó er þetta hluti sama máls, og þegar rætt er um leiguna á færeysku skipunum, þá er eðlilegt, að um leið komi fram, hversu háttað er um leigu á rúmi í þessum skipum.

Hv. þm. talaði eins og hann hefði ekki heyrt, hvað ég sagði, og kvað mig hafa fjargviðrazt um hættu, sem stafaði af þessum samningum. Það gerði ég að vísu ekki, en ég gat um, hvernig búið væri að útvegsmönnum í heild. Hann taldi og, að ég væri á móti því að leigja færeysku skipin. Þetta er ekki rétt. En ég taldi það óskynsamlegt að leigja í einu lagi svo mörg óhagstæð skip. Mér hefur og skilizt, að Færeyingar geti ráðið, hvaða skip eru leigð. (LJós: Þetta er alrangt.) Mér hefur þó skilizt þetta svo og ætla, að það sé rétt. Vitanlega var þetta neyðarúrræði fyrir okkur, og þýðir ekkert að ganga framhjá því. Við vitum allir, að þegar þessir samningar áttu sér stað, var skortur á skipum, og það var ekki nema mannlegt, þótt Færeyingar notuðu sér það. Um einstök atriði samningsins er erfitt að dæma, og það er rangt, að einstakir þm. hafi átt þess kost að fylgjast með samningunum.

Aðstaðan var auðvitað erfið, en við verðum að meta allar gerðir í samanburði við þau úrræði, sem fyrir hendi eru.

Hv. 6. landsk. sagði, að það væri minn vilji, að ríkisstj. sæti uppi með öll skipin og þau yrðu ekki framleigð. Þetta er ekki rétt. En það sýnir bezt, hverjar horfurnar eru, ef þessi háttv. þm. telur það fjandsamlegt að vilja, að ríkisstj. hafi skipin.

Þá ræddi þessi hv. þm. um verðjöfnunargjaldið og hækkunina á fiskinum og sagði, að ég væri á móti því. Þetta er rangt. Hitt sagði ég, að þetta gæti komið illa niður sums staðar, en þótt svo sé, þá er það enginn dómur á, að þessi ráðstöfun geti ekki verið góð fyrir heildina. Þetta ætti hv. þm. að skilja. Ég orðaði það svo, að það ætti að vera „mórölsk“ skylda að bæta þeim stöðum það upp, sem verða fyrir halla af þessum ráðstöfunum.

Þetta virtist hv. þm. ekki skilja og sagði, að ég ætlaðist til, að alltaf væri sinnt kalli frá smástöðunum og ég vildi að þeir gætu alltaf fengið skip, þegar þeir vildu.

Ummæli hans um það, hvort ég héldi að útvegsmenn á Austurlandi væru óánægðir með verðhækkunina, tel ég vart svara verð. Ég hef aldrei látið það álit í ljós, að þeir væru á móti verðhækkun. Þá kvað hann óþarft að láta þetta mál fara í n. En það eru nú ekki allir jafnkunnugir þessum málum og hann, sem virðist hér innsti koppur í búri hjá hæstv. ríkisstj. Viðvíkjandi því, að ekki megi draga þetta mál, vegna þess að framleigja þurfi skipin, þá trúir því auðvitað enginn. En ef það væri rétt, hvað mætti þá segja um hæstv. ríkisstj., sem hefur legið á þessu máli dögum saman?

Nei, það þýðir ekki að bjóða háttv. þm. upp á svona slúður, og það er einkennilegt, að þm. skuli ekki gefinn kostur á að athuga þetta.

Ég hef bent á leið, sem sjálfsagt virðist að fara, ef allt væri með felldu, og væri farin, ef ekki væri ætlunin að sýna hér ofbeldi, þar sem engar frambærilegar ástæður finnast fyrir því að hafa þessa meðferð á málinu.

Ég þakka svo hæstv. forseta þolinmæðina.