10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (5798)

Þormóðsslysið

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal vera stuttorður að þessu sinni. Það voru einungis tilmæli mín, að þau skip, sem fengu svipaða viðgerð og Þormóður, væru athuguð. Mig minnir það vera ,,Magnús“ frá Norðfirði og „Gunnvör“ að norðan. Ég æski ekki, að þessi skip verði stöðvuð, en ég tel rétt, að ef það sannast, að svo mikil hætta hafi verið með Þormóð, þá verði þessi skip skoðuð.

Ég ætla svo ekki að tala frekar um þetta nú, en ég vil taka það fram, að ég hef ekkert sagt um þetta mál, hvorki utan þings né innan, sem ég þarf að bera kinnroða fyrir, en hvort hv. þm. Ísaf. hefur sagt eitthvað, sem hann þarf að skammast sín fyrir, er annað mál. Nú vildi ég mælast til þess, að umræðum yrði frestað í kvöld, en að okkur væri gefinn kostur á að fá dómsmálaráðherra til andsvara í þessu máli hér í Sþ. áður en þingi lýkur.

Ef það er satt, sem hér hefur verið fram borið, að slíkar lögleysur og óhæfa hafi átt sér stað í þessu máli, þá er sannarlega þörf á, að það sé frekar rætt.

Ég tel, að ófært sé fyrir alla aðila þessa máls að una við þær niðurstöður, sem nú eru fengnar í málinu, án frekari aðgerða.