12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (5807)

Fjarvistir þingmanna

Gísli Sveinsson:

Það er að vísu ekki nýtt fyrirbrigði, eins og hæstv. forseti lét getið, að þingmenn mæti illa og standi nokkuð misjafnlega að skyldu sinni í Sþ. og deildum. En með eftirgangsmunum hefur þó oftast nær tekizt að hóa þeim saman til þess a.m.k. að inna þá einföldu skyldu af hendi að vera við atkvgr. Ef nokkur tök væru á að bæta úr þessu, sem er í rauninni eins konar siðferðisbrot, þá væri það gerlegt. Því að í rauninni er það svo, að ekki er hægt að refsa þm. beinlínis fyrir þetta. Það er þeirra háttvísi og siðsemi, sem segir þeim, að þeir eigi að rækja skyldu sína, ef þeir eru ekki forfallaðir, og mun það í höfuðatriðum, að þess sé gætt, en út af ber. En ég stóð aðeins upp til þess að láta í ljós skoðun mína á þessu atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. lét nú um mælt. Í rauninni virtist mér þar talað algerlega út í hött. Í fyrsta lagi er það svo, að þessir þm., ekki aðeins í Nd., heldur Ed., sem hafa nú fjallað um þau mál, sem hann mun eiga við, samkomulagstilraunir, og þá helzt til stjórnarmyndunar á málefnagrundvelli, þeir eru svo fáir, að ekki gæti orkað því, að fundi þyrfti að slíta vegna fjarveru þeirra og ekki mætti aðstanda þingstörf. Í annan stað er þess að geta viðvíkjandi þessum mönnum og þeirra fyrirrennurum, að það eru brátt fjögur missiri, sem segja má, að þessir menn hafi meir og minna setið að störfum og orðið það ágengt, sem raun hefur nú borið vitni. Það var nú vitanlegt, að þannig hefur staðið á, að þetta vandamál þurfti að leysa, og þessi tilkynning þurfti varla að orka því, að menn skyldu dag og nótt að ófyrirsynju vinna frekar en orðið er, þó að það að vísu geti verið mest aðkallandi nú að láta eitthvað verða að niðurstöðu. Það mun nú ekki a.m.k. hafa enn verið svo mergjað eða merkilegt, sem hv. þm. hafa komizt að niðurstöðu um í samningum um þetta mál, að þeir mættu ekki láta aðvara sig um atkvgr. Ég hef heyrt upp á síðkastið, að þessi hv. þm. sé svo áhugasamur, og skal honum það ekki láð. En þingið verður að starfa og þm. verða allir sem einn að gera sina skyldu.