12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (5808)

Fjarvistir þingmanna

Eysteinn Jónsson:

Ég er ekki í hóp þeirra þm., sem oft eru fjarverandi frá þingstörfum og atkvgr., og tek því ekki til mín það, sem talað var til þeirra, sem ekki sinntu þingfundum. En þó að menn telji sig þurfa einhverjum tíma að eyða utan þingfunda til að bera saman ráð sín nú, þá eru það hreinustu látalæti hjá hv. 10. landsk., að slíkt sé ástæðulaust. Því að hvað sem menn álíta um árangurinn, þá er það, sem gerzt hefur nýlega, þannig vaxið. að þm. er skylt að bera saman ráð sín. Og það gerist ekki með því að sitja á fundum í deildum. Það ætti að vísu að vera hægt að halda áfram deildarfundum á meðan, ef allir þm. gerðu skyldu sína. En það er leiðinlegt fyrir þm., sem kvaddir eru til að starfa að þessum málum, að heyra haldnar yfir sér skammaræður, þegar þeir eru að sinna skyldustörfum, sem lögð eru á þá af þingbræðrum þeirra. Þegar ég kom inn, var verið að halda einn slíkan fyrirlestur yfir þeim, sem eru fjarverandi, og ekki síður þeim, sem til þessa starfs eru kvaddir, en öðrum. Til þess nú að þessir þm. fái ekki óorð á sig, held ég sé bezt að slíta fundi, en koma þó áður til n. málum, sem litlar umr. verða um.