16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (5821)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Pétur Ottesen:

Mér þótti það harla einkennileg ástæða, sem mér virtist hæstv. forsrh. gefa í skyn í sambandi við þá till., sem lýst var hér, en ekki borin fram, að svo gæti farið, að hagsmunir íslenzkra fiskflutningaskipa og erlendra gætu rekizt á við hagsmuni fiskeigenda. Annaðhvort eru skip tekin á leigu til fiskflutninga eða fiskur keyptur í þau. Séu skipin tekin á leigu, njóta fiskeigendur hagnaðar, ef hann verður, af útflutningnum. En ríkisstj. hefur ákveðið verð á fiski, sem keyptur er í skip. Og mér er sagt, að miðað við þá stærð, sem algengust er hér, muni flutningurinn ekki gera meira en borga sig. A. m. k. getur ekki orðið þar um mikinn hagnað að ræða fyrir skipaeigendur. Ég skil þá ekki, í hverju það liggur, að þarna rekist á hagsmunir þeirra og fiskeigenda.

Nú skilst mér, eftir þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið um færeysku skipin, sem leigja á, og útbúnað þeirra og viðhald þeirra skipa, að þá sé síður en svo, að gera megi ráð fyrir, að meiri trygging sé í því að flytja út fisk á færeysku skipunum heldur en á íslenzkum skipum. Ég hygg, að það sé heldur það gagnstæða. Þegar litið er á heildarhagsmuni þjóðarinnar, sem ber að gera í þessu máli, þá sjá allir, hvaða hagfræði það væri að ætla að bægja íslenzku skipunum frá þessum fiskflutningum og láta erlend leiguskip hafa þar meiri rétt. Slíkt næði ekki nokkurri átt, því að hvað ættu Íslendingar þá að gera við sín skip? Þau eru af þeirri stærð, að það mætti gera þau út. En það eru ekki til veiðarfæri til þess að fullnægja þeim skipaflota, sem í dag er gerður út á veiðar — þannig að engin veiðarfæri eru til handa þeim skipum, sem þannig ættu að hverfa úr fiskflutningunum fyrir það, að erlend skip væru tekin til þeirra hluta. Það yrði þá bara að binda þau skip. — Hvernig því, sem á þetta er litið, er það mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að nota til þess ýtrasta þau skip, sem í landinu eru til, til þess að flytja fisk á erlendan markað. Þetta vildi ég taka fram, af því að mér virtist hæstv. forsrh. gefa í skyn áðan, að þarna gætu e. t. v. rekizt hagsmunir á.

Að öðru leyti skal ég ekki lengja umr. um þetta mál. Ég hef áður skírskotað til ummæla hv. frsm. allshn., þegar hann gaf upplýsingar fyrir hönd hæstv. ríkisstj. um framkvæmd þessara mála. Til viðbótar því vil ég svo skírskota til ummæla, sem hæstv. atvmrh. hefur haft sjálfur um þessa framkvæmd. Hann sagði hér áðan, að í sambandi við fiskflutningana skyldu íslenzku fiskflutningaskipin ekki verða látin vera aðgerðalaus. Og hann sagði enn fremur, að þau skip mundu verða notuð með þeirri afkastagetu, sem rúm þeirra leyfði. Það skrifaði ég orðrétt upp eftir hæstv. atvmrh. Mér finnst, að í þessu felist yfirlýsing hæstv. atvmrh. um það, að það eigi að nota til þess ýtrasta þann íslenzka skipaflota, sem hér er tiltækur, til þess að flytja fisk áerlendan markað, og setja hann ekki að neinu leyti skör lægra heldur en þau skip, sem tekin hafa verið á leigu og eiga að þjóna þessu sama hlutverki. Og enn fremur er það, að sá hæstv. ráðh. samþ. það með þögninni áðan, því að ég skírskotaði til hans í því efni í minni fyrri ræðu, að hér yrði ekki gert upp á milli þess, hvort fiskflutningaskip væru tekin á leigu eða þau væru rekin á eigin reikning.

Hv. þm. S.-M. minntist á þetta mál áðan og sagði, að það væri hart, ef inn á eitthvert félag, sem tekið hefði skip á leigu, væri þröngvað fiskkaupaskipi. Þetta kæmi ekki til mála, ef þörfum fisksölusamlaga er fullnægt með skipum, sem þau hafa á leigu. Þá fyrst, þegar þau hafa meiri fisk en svo, yrði fiskur til kaups í fiskkaupaskip á þeim stað. En þegar fiskur þannig væri til kaups á einhverjum stað, er sanngjarnt að fara fram á, að erlend skip verði ekki rétthærri til að kaupa hann heldur en íslenzk skip. Og ákvæði þessarar brtt., sem ég hafði boðað að flytja, á við þetta. Og með tilliti til þess, sem hæstv. atvmrh. sagði, að íslenzku skipin skyldu ekki verða látin vera aðgerðalaus, heldur mundi afkastageta þeirra, eftir því sem rúm þeirra leyfði, verða notuð, og með skírskotun til þess, að ekkert kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í andstöðu við þetta, get ég litið á þetta sem yfirlýsingu ekki aðeins hæstv. atvmrh. eins, heldur yfirlýsingu, sem gefin sé af hálfu hæstv. ríkisstj. allrar um framkvæmd þessara mála, — með skírskotun til þess get ég fallið frá því að bera fram þá brtt., sem ég hafði boðað áðan og lýst, gangandi þá út frá því, að með þessum hætti, sem hæstv. ráðh. hefur lýst, verði hagað framkvæmd fiskflutninganna.