16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (5823)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Það er bert af þeim umr., sem hér fara fram, að það hefur farið betur, að till. þessari var vísað til n. til athugunar. Það er ekki vafi á því, að hv. þm. geta betur fellt sig við till. eftir þá viðbót, sem komin er fram brtt. um. Og ég er ekki viss um, að einmitt þeir menn, sem hér hafa ákveðnast haldið fram hagsmunum fiskiskipaeigenda, hafi gert sér nægilega ljóst, hve mikil fríðindi felast í þeirri viðbót, sem miðað er að með brtt., að sett verði inn í till. Því að það er ekki lítið atriði fyrir þá, að ríkisstj. skuli hafa heimild til að nota fé úr ríkissjóði til þess að safna saman fiski t. d. frá hinum fjarlægari stöðum og að þannig séu skapaðir möguleikar til þess, að fiskur verði keyptur frá þeim stöðum, sem fiskflutningaskipaeigendur gátu ekki keypt frá áður. Þess vegna legg ég megináherzlu á að fá þessa viðbót inn í till. Og ef lesinn er samningurinn, sem prentaður er á þskj. 1120, þá sést það í 14. gr., að það er gert ráð fyrir því, að smæstu skipin, sem leigð eru af Færeyingum, geti kannske ekki borið sig í flutningum til Englands, og þá er heimilt að nota þessi skip í flutninga við strendur Íslands, m. a. til þess kannske að safna saman fiski frá smærri stöðunum. Og það getur margborgað sig fyrir þjóðarbúið og alla aðila, fremur en að nota þessi skip til flutninga á fiski til Englands.

Vegna þeirra ummæla, sem komið hafa fram frá báðum hæstv. ráðh., sem talað hafa, þar sem þeir í raun og veru hafa staðfest þau ummæli, sem ég hafði eftir þeim í n., sé ég ekki ástæðu til að fara frekar inn á það atriði. Og ég sé líka, að hv. þm. Borgf. hefur alveg skilið þessi ummæli á sama hátt og ég. Ég skil hans afstöðu prýðilega vel og felli mig vel við það, að hann vill falla frá að flytja skrifl. brtt. sína, sem hann las hér upp, með tilliti til þeirra yfirlýsinga, sem fram hafa komið í málinu.

Um fyrirspurn hv. 2. þm. Eyf. um það, hvort ætti að skilja það svo, að jafn aðgangur eigi að vera að fiskkaupum fyrir íslenzk flutningaskip og hin færeysku leiguskip í hinni víðari merkingu, eins og hann orðaði það, vil ég segja það, að ég hef ekki skilið það þannig, að íslenzku fiskflutningaskipin ættu að hafa annan og meiri rétt en önnur skip til fiskkaupa. Og ég vil benda á, að hér getur Landssamband útvegsmanna fyrirskipað, að þessi skip fari ekki aðeins til Keflavíkur, Akraness og annarra slíkra hafna, heldur dreifi sér út um land til fiskkaupa, alveg eins og leiguskipin. Þau fá ekki þann rétt að sigla á beztu hafnirnar til fisktöku, en láta hinar lakari vera. Nei, þau verða að hafa sama rétt og færeysku skipin og sömu skyldur til að taka vondu hafnirnar einnig, ef nauðsyn þykir á hverjum tíma. Og með tilliti til yfirlýsinga hæstv. ríkisstj. geri ég ekki ráð fyrir, að í þessu efni verði beitt misrétti gagnvart íslenzku skipunum.

Annað sjónarmið kemur og til greina, sem hv. þm. Borgf. hefur skilið. Ef einhver aðili hefur leiguskip, sem nægja til þess að flytja út hans fisk, þá er ekki hægt að þvinga þann sama aðila til þess að láta fiskinn í önnur skip, sem vilja taka fisk.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. En till. hefur miklu meira þingfylgi að samþykktri brtt. á þskj. 1138 heldur en hún mundi hafa í því formi, sem hún var í við fyrri umr.