16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í D-deild Alþingistíðinda. (5824)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Pétur Ottesen:

Þess var nú kannske að vænta, að stöðuglyndi hæstv. atvmrh. væri ekki meira en góðu hófi gegndi. En hitt þótti mér hálfeinkennilegt, að hann skyldi hér reyna að gera tilraun til þess að snúa út úr fyrir mér um það, hvað ég hefði sagt og hvað í þessari brtt. fólst. Hann hefur haldið því fram hér, að ég haldi hér fram eingöngu hagsmunum skipaeigenda og í því augnamiði að geta gert sjómönnum óleik með þeim hætti. Ég skilgreindi þetta atriði nokkuð hér, sem svo hæstv. atvmrh. vildi snúa út úr, og gerði ég það út frá ummælum, sem féllu hjá hæstv. forsrh., sem voru vitanlega á annan veg heldur en hjá hæstv. atvmrh., — sem vitanlega sýnir, hve mikill munur er á manngildi þessara tveggja manna og yfirleitt framkomu í opinberum málum. — Ég var búinn að segja það hér, að þessi brtt., sem ég lýsti hér og vildi, að kæmi til greina á einhvern hátt, byggðist eingöngu á því, að þarna færu saman hagsmunir skipaeigenda og hagsmunir sjómanna, þannig að með þessum hætti væri náð sem mestum hagnaði fyrir þjóðina í heild. Ég tók skýrt fram hér, að það væri ekki meiningin með þessari brtt., að þar sem menn hefðu myndað með sér félög og tekið skip á leigu, þá yrði þeim þröngvað á nokkurn hátt til þess að nota ekki þessi leiguskip sín, heldur væri brtt. miðuð beint með tilliti til þeirra staða, þar sem fiskur væri seldur beint í skip, þannig að það væri á einhvern hátt tryggt, að hagsmunir þeirra, sem íslenzk skip eiga, væru ekki fyrir borð bornir samanborið við erlend skip, þó þannig, að saman gætu farið hagsmunir skipaeigenda og fiskimanna. Þegar um er að ræða að nota íslenzka skipastólinn, þá er þetta mikið atriði út af fyrir sig, — þótt hæstv. atvmrh. máske komi ekki auga á það. — Ég er búinn að lýsa yfir, og held mig við það, að ég ætla ekki að bera þessa brtt. fram, og þrátt fyrir það, þótt hæstv. atvmrh. eiginlega gengi frá öllu, sem hann var búinn að lýsa yfir fyrir svo sem einum klukkutíma. Því að það er vitanlegt, að þegar um er að ræða mann eins og hann, sem ekki aðeins segir eitt í dag og annað á morgun, heldur kemst í mótsögn við það, sem hann sjálfur sagði, að einum klukkutíma liðnum, þá er sama um það, — ef hann hefur framkvæmd þessara mála með höndum, — hvort slíkt ákvæði er sett inn í þáltill. eða till. kemur efnislega fram með þeim hætti, sem hér hefur átt sér stað, því að þá metur hann vitanlega það ekki meira, sem skjalfest er, heldur en það, sem með ummælum hans hefur verið slegið föstu hér fyrr í kvöld, — maður, sem leikur þannig á riðli í þessu máli í því, sem hann segir og heldur fram. Þetta sýnir, að það er vitanlega ekkert á því að byggja. Þess vegna verður vitanlega framkvæmd þessara mála að byggjast á öðrum mönnum í ríkisstj. heldur en þessum hæstv. ráðh. Ég ber ekkert traust til hans um að framkvæma þessi mál þannig, að vel sé séð fyrir heildarhagsmunum þjóðarinnar, — eftir framkomu hæstv. atvmrh. nú.