16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (5827)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, vil ég aðeins undirstrika, að skilningur minn á till. hans samkvæmt orðanna hljóðan er á þann veg, að þar er einhliða tillit tekið til hagsmuna fiskiskipaeigenda, og það breytir engu, þótt hv. þm. lýsi yfir, að hann hafi skilið hana á annan veg. Ég býst við, að sá, sem ætlar að fylgja till. með honum, hv. 2. þm. Eyf., hafi haft þveröfuga skoðun á till. hans. Ég fagna að heyra um þetta viðhorf hans og tel, að þetta standi til bóta að því leyti, að hann geri sér ljóst, hve miklum erfiðleikum það er bundið að sameina þessa tvenna hagsmuni, sem hér er um að ræða, á þann hátt, að öll þau tækifæri notist, sem tiltækileg eru, til að halda þessum fiskflutningum uppi.