13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í D-deild Alþingistíðinda. (5839)

224. mál, virkjun Fljótaár

Flm. (Þóroddur Guðmundsson):

Ég ætla ekki að þreyta menn á langri framsöguræðu um þetta mál. Eins og hv. þm. muna, var samþ. 10. marz s. l. 2 millj. kr. viðbótartrygging til að standa straum af virkjun Fljótaár fyrir Siglufjarðarkaupstað. Það kemur því sjálfsagt flatt upp á menn, sem ekki hafa fylgzt með þessum framkvæmdum, að strax skuli aftur vera farið fram á svona mikla viðbótarábyrgð. En það er margt, sem valdið hefur auknum kostnaði við verkið. Í fyrsta lagi hefur vinna við verkið orðið þó nokkuð meiri en gert var ráð fyrir. Liggja til þess m. a. óviðráðanlegar orsakir. Það var t. d. reiknað með því, að árbotninn væri samfelld hörð klöpp og þyrfti því ekki að sprengja nema lítinn skurð, út í bakkana báðum megin. En við framkvæmd verksins kom í ljós, að hér var aðeins um harða skel að ræða. Og þegar búið var að brjóta hana upp, var þar undir laus möl og moldarjarðvegur. Skurðinn varð því að hafa dýpri en áætlað var. Þetta var mjög erfitt að sjá fyrir, þótt segja mætti, að einhver ætti sök á því, að áætlunin var ekki miðuð við þetta. Í öðru lagi er yfir mjög erfiðan fjallveg að fara með leiðsluna. Og er leitt á stálstaurum, sem festir eru með steypu niður í berg. En víða á þessari leið upp Hraunadal í Siglufjarðarskarði reyndist klöppin mjög ótrygg, og þurfti að leggja mikla vinnu í sprengingar til þess að treysta undirstöðu stauranna. Og óx mjög kostnaður við það. Í þriðja lagi er um hækkun á efni að ræða. Sérstaklega hafði orðið mikil hækkun á farmgjöldum frá því, að áætlunin var gerð. Þá má einnig benda á það, að gengið hefur mjög illa að fá hæfa fagmenn, og hefur það tafið fyrir verkinu. Þá var reynt að notast við menn, sem einhverja þekkingu höfðu á þessari vinnu, en voru ekki fagmenn, en sumir voru þessari vinnu óvanir og höfðu litla sem enga þekkingu á verkinu. Með þessu móti gekk verkið seinna en vænta mátti og varð dýrara, þar sem skortur var á mönnum og vinna varð svo og svo mikla eftir- og næturvinnu. Þá er ein orsökin ótalin enn. Það hefur gert þó nokkuð mikinn kostnað, hve miklar tafir urðu á að fá efni til virkjunarinnar. T. d. seinkaði afgreiðslu á timbri mikið, svo að það hækkaði mjög í verði við að bíða. Mest af timbrinu var afgreitt 15. ágúst, og tilbúið til útflutnings var það í nóv. 1942, en það kom fyrst til Haganesvíkur í júlí og ágúst 1943. Í millitíðinni stórhækkuðu farmgjöldin, en það, sem mestu máli skipti, var, að þetta tafði verkið. Það varð langt á eftir áætlun og orsakaði mjög mikla eftir- og næturvinnu. Þetta var engu öðru að kenna en því, að fyrrv. ríkisstj. virtist engan áhuga hafa á því, að þetta efni kæmi. Alveg sama máli gegndi raunar um afgreiðslu á járni, sem pöntun var gerð á 8. jan. 1943 til viðskiptaráðs. Það kom ekki fyrr en í júní og ágúst 1944. Þetta leiddi af sér stórkostlega erfiðleika og aukinn kostnað. Og það er að kenna hæstv. fyrrv. ríkisstj., að efnið kom of seint.

Nú munu margir spyrja: Hvers vegna var ekki hægt að sjá fyrir fram eitthvað af þessum aukna kostnaði? Ég vil leyfa mér að benda á, að í febrúar í fyrra, þegar aðeins var farið fram á tveggja millj. kr, viðbótarábyrgð, þá var ekki gert ráð fyrir að byggja nema fyrir aðra vélasamstæðuna í byrjun. En nú er ætlunin að bæta hinni við þegar í stað. Það er því engan veginn rétt, að hér sé um að ræða kostnað, sem fari 5 millj. kr. fram úr því, sem áætlað var í fyrra, þar sem þá var aðeins gert ráð fyrir annarri samstæðunni. Samkv. áætlun Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra er aukakostnaðurinn fyrir þessa vélasamstæðu áætlaður 1 millj. kr., þar í falinn kostnaðarauki við spennustöðvar. Það er engan veginn sambærilegt, sem farið var fram á í fyrra, og það, sem farið er fram á nú.

Nú spyrja menn, hvort 4500 hestafla stöð, sem fer allt að því upp í 13 millj. kr., geti staðið undir slíkum kostnaði. Um það vil ég vísa til grg. Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra. Það er tvímælalaust, ef einhverjar framfarir verða að ráði í útgerð og vinnslu sjávarafurða, að miklar framkvæmdir verða á Siglufirði. Nú er búið að samþ. að auka þar síldarverksmiðjurnar um 20 þús. mál á sólarhring með 5–6 þús. mála viðbót við bæjarverksmiðjuna og 15 þús. mála viðbót við ríkisverksmiðjurnar. Ef þessi aukning kemst á, þarf til hennar geysilegt viðbótarrafmagn. Og verði lýsisherzlustöð reist á staðnum, tunnuverksmiðja, niðursuðuverksmiðja o. fl., sem hvergi virðist vera meiri hráefni og verkefni fyrir en á Siglufirði, þá verður þörf fyrir raforku stöðvarinnar. Þetta eykur mjög möguleikana á því, að stöðin geti borið sig. Þarna er búið að leggja í fjarska mikið fé, en þegar búið er að segja a, er ekki annað hægt en að segja b. Auðvitað er þessi stórkostlega kostnaðaraukning örðug viðfangs. En betra er fyrir 4700 hestafla stöð en 2350 hestafla stöð að standast hana. Það er skynsamlegra að byggja alla stöðina fyrir 13 millj. heldur en 2350 hestafla stöðina fyrir 12 millj., bæta við einni millj. til að tvöfalda rafmagnið.

Hér er ekki aðeins verið að hjálpa þessu bæjarfélagi sérstaklega. Það hafa komið þau ár, að atvinnuvegirnir hafa lifað á síldarútveginum, og enn lítur einna bezt út fyrir hann af atvinnuvegum landsmanna í framtíðinni. Hagur síldveiðanna er hagur margra annarra en þeirra, sem eiga heima á Siglufirði. Það eru því ekki aðeins Siglfirðingar, sem þessi stöð kemur að notum, heldur einnig þeir, sem stunda þar atvinnu á sumrin, hvort heldur það eru sjómenn eða útgerðarmenn, og jafnvel ríkið sjálft á þar stóran hlut að máli. Það á þar stærstu fyrirtækin á Íslandi, og búið er að samþ. stórfellda stækkun á þessum fyrirtækjum.

Allir vita, að þótt ríkisverksmiðjurnar kunni að hafa góðar og öruggar aflvélar, þá er það ekki mikið öryggi að eiga allt sitt undir einni aflvél, alltaf geta vélarnar bilað. Það er því mikið rekstraröryggi fyrir síldarverksmiðjurnar, að þessi rafstöð komist upp og þær gætu keypt hreyfiafl að svo eða svo miklu leyti af henni, en haft dieselvélar sínar sem varaafl. Ég skal taka eitt dæmi. Eftir 1946 verður, að ætlað er, komin síldarverksmiðja með 30 þús. mála afköstum á sólarhring. Ef þessi verksmiðja verður útbúin dieselvélum og svo t. d. í byrjun vertíðar biluðu vélarnar sem svarar ? af afköstum verksmiðjunnar, mundi þetta með 60 daga vertíð verða 600 þús. mála tap, eða með núverandi verði á síldarmáli hvorki meira né minna en um 11 millj. kr. Enginn getur sagt um, hvað komið getur fyrir, en alltaf er mikið gefandi fyrir öryggi, og verksmiðjur, sem nota rafmagn sem hreyfiafl, geta haft dieselvélarnar til vara og girt þannig fyrir, að svona geysileg áföll geti komið fyrir. Fyrir utan það tap, sem sjómenn og útgerðarmenn bíða við slíkt áfall, er líka rétt að taka það beina og óbeina tap, sem þetta fyrirtæki ríkisins yrði fyrir, og það yrði ekki minna en 2 til 3 millj. kr., sem ríkisverksmiðjan tapaði sjálf.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að þó að þessi virkjun verði nokkuð dýr, þá munu þó vera virkjanir hér á landi, sem engin veruleg svartsýni er um, þar sem hver kilowattstund er talsvert dýrari en kwst. kemur til með að kosta í þessu tilfelli. Að vísu eru það minni stöðvar, en verða tiltölulega dýrari. Hér er aðeins um að ræða að fá ábyrgð ríkisins, og þó að það sé ekki hægt að sanna það bókstaflega nú strax, að þetta fyrirtæki komi til með að bera sig, þá benda allar líkur til þess, ekki aðeins að dómi okkar Siglfirðinga, heldur að dómi allra hæfustu manna og sérfróðra manna á þessum sviðum. Það eru margir hv. þm., sem ekki hefur blöskrað það að ganga í ábyrgð fyrir nokkuð háum lánum til rafveitna og ekki hikað við að ganga svo langt að leggja fram stórfé úr ríkissjóði til þess að kaupa efni og kosta virkjunina fyrir einstök sveitarfélög og landshluta.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að stinga upp á því, að þessu máli verði vísað til síðari umr. og fjvn.