13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (5841)

224. mál, virkjun Fljótaár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég tók eftir því, að hæstv. forseti óskaði eftir því, að þetta mál yrði afgreitt sem fyrst til n., og geri þá ráð fyrir, að það sé af því, að hv. fjvn. óski eftir að geta fengið málið til meðferðar, til þess að geta algerlega gengið frá því fyrir þingslit.

Ég get stytt ræðu mína vegna þeirra athugasemda, sem komu frá hv. 2. þm. S-M., en samt vil ég fara örlítið út í kostnaðaráætlunina til leiðbeiningar fyrir hv. fjvnm., en ekki sízt fyrir þann hv. nm., sem er flm. þessarar þáltill. Það er gert ráð fyrir því hér undir B-lið, að lántakan sé til 25 ára með 4% ársvöxtum. Ég skal ekki gera aths. við þetta út af fyrir sig, en þar er einnig gert ráð fyrir, að lánið endurgreiðist á næstu 25 árum, og þurfi aðeins 6,4% til þess að greiða bæði vexti og afborganir. Sé þetta rétt, þarf að afla á hverju ári í næstu 25 ár 768 þús. kr., eins og segir í grg. Síðan er aðeins reiknað með 1% í viðhaldskostnað, en það er að mínum dómi algerlega fráleitt, og þarf að hækka þennan lið stórkostlega, a. m. k. tvöfalda hann eða meir. Gert er ráð fyrir, að gæzla og annar rekstrarkostnaður fyrstu árin nemi 1,6 % eða 192 þús. kr., og þætti mér ekki ólíklegt, að þessi liður sé allt of lágt reiknaður. Eru þá gjöldin samt. 1080 þús. kr., sem greiða þarf á hverju ári í 25 ár. Þá vil ég snúa mér dálítið að tekjuliðunum. Nú er áætlað í tekjuliðunum, að hægt sé að fá 156 þús. kr. á ári fyrir að selja rafmagn til ljósa, og er hver kwst. reiknuð á 1,20. Ef reiknað er með því, að kwst. frá vatnsfallinu kosti 1,20 til ljósa í næstu 25 ár, veit ég ekki, hvort leggjandi eru hundruð millj. kr. í það að lýsa upp landið. Þó að hægt sé að reikna með því nú, að kwst. seljist á kr. 1,20, þá er engin trygging fyrir því, að afkoma landsmanna verði þannig næstu 25 ár, að hægt sé að reikna með þessu framvegis. Til suðu er rafmagnið reiknað á 30 aura hver kwst. Engin trygging er fyrir því, að hægt verði að selja rafmagn til suðu á 30 aura kwst. í næstu 25 ár. Sama er að segja um rafmagn til véla; það er reiknað á 70 aura hver kwst. Fyrir stríð var rafmagn til véla selt á 30 aura kwst. í Reykjavík og þótti dýrt. Til íshúsa er rafmagnið reiknað á 25 aura hver kwst. og einnig til síldarverksmiðjanna, og er gert ráð fyrir, að sú upphæð nemi 250 þús. kr. á ári. Það hefði verið æskilegt, að hv. flm. hefði látið fylgja samanburð á því, hver olíukostnaðurinn er við að reka þessar verksmiðjur, sem hann ætlast til að borgi á ári í 25 ár 250 þús. kr., og þrátt fyrir þetta nema tekjurnar allar ekki nema 855 þús. og 500 kr., og vantar þá 200 þús. kr. til þess að geta staðið undir þeim kostnaði, sem óhjákvæmilegur er, og sízt of hátt reiknaður, eins og nú standa sakir, en tekjuliðirnir hins vegar reiknaðir allt of hátt. Hv. frsm. minntist á, að það væru stórauknar tekjur fyrir þessa rafvirkjun, ef lýsisherzlustöð yrði reist á Siglufirði. Ég get upplýst, að lýsisherzlustöð verður aldrei starfrækt, ef kaupa á rafmagnið á 7 aura kwst., hvað þá, ef það er dýrara. Það lá algerlega skýrt fyrir, þegar þetta mál var til umr. í Ed. fyrir nokkru, að þá var það einmitt þetta, sem gerði það að verkum, að ekki er hægt að starfrækja lýsisherzlustöð hér á landi, nema hægt sé að fá rafmagn svo að segja fyrir ekki neitt.

Flm. minntist á, að það yrði ekki snúið aftur af þessari braut, úr því sem komið væri. — Það þarf að athuga strax þá stefnu, ef einhverjum aðila tekst — með illu eða góðu — að koma fram máli, sem ekkert vit er í. Það þarf að spyrna fótum við slíkum málum, en ekki halda vitleysunni áfram, vegna allra staða á landinu, sem eiga sömu kröfu á opinberu fé eins og þessi staður þykist eiga. Ég er því alveg undrandi yfir, að nokkur hv. þm. skuli leyfa sér að bera fram slík rök, að ekki sé hægt að hætta við þessar framkvæmdir, af því að einu sinni hafi verið byrjað á þeim, þegar annars vegar er komið út í algera ófæru með þau. Það, sem þarf að gera í þessu tilfelli, er, eins og hv. 2. þm. S-M. minntist á, að setja fullkomna rannsókn á, hvort nokkurt fjárhagslegt vit er í þessum málum og að láta ríkissjóð hafa bein afskipti af þessu, áður en frekara er gert í þeim, til þess að sjá, hvort ætlun flm. hafi frá upphafi verið að fleka Alþ. þannig, að fara fyrst fram á lágar upphæðir, en síðan alltaf hærri og hærri. — Ég hef heyrt talað um það hér, að það þurfi sérstök útgjöld fyrir lántökukostnað o. fl., og væri æskilegt að fá að vita, hvað sá kostnaður er mikill. Það upplýstist við umr. um Rauðku, að fulltrúar Siglufjarðarkaupstaðar hikuðu ekki við að greiða stórar upphæðir fyrir lántökur, og vildi ég nú fá upplýsingar um það frá flm. þessarar þáltill., hvort nú á að verja jafnháum upphæðum eða enn hærri í lántökukostnað eins og gert var í því máli. (ÞG: Sjá sundurliðun á fskj. II. á þskj. 662.) Ég sé, að þar stendur að vísu, að lántökukostnaður og vextir 1943 séu kr. 104018.00, en getur hv. þm. upplýst, hvernig þetta skiptist? (ÞG: Upp á eyri.) Vill hv. þm. skýra frá því nú þegar? (ÞG: Það get ég síðar.) 1. flm. talar um, að ríkið eigi þessar verksmiðjur á Siglufirði, en til þess að unnt sé að tryggja, að ríkisverksmiðjurnar noti þetta afl, sem 1. flm. talaði um, þarf að liggja trygging fyrir því, að ríkisverksmiðjurnar leggi kapp á að skipta um vélar eða hvort samkomulag er um það hjá forráðamönnum verksmiðjanna, að þeir vilji kaupa rafmagn með því verði, sem það verður næstu 25 ár, heldur en að nota dieselmótorvélar.

Ég vil því taka undir það, að fjvn. afgreiði ekki þetta mál, fyrr en miklu nákvæmari upplýsingar liggja fyrir en þessi skjöl, sem hér eru fram lögð. Þetta er ef til vill eitt af þeim málum, sem mesta þýðingu kann að hafa varðandi þá braut, sem gengið verður inn á í rafmagnsmálum þjóðarinnar, og er það því engan veginn rétt gagnvart öðrum aðilum að stíga hér spor, sem ef til vill gætu orðið til þess, að Alþ. yrði sammála um að kippa að sér hendinni um framkvæmdir rafmagnsmála í landinu. En eins og málið liggur hér fyrir á þskj., virðist allt benda til þess, að verið sé að fara með þessi mál út í beinar ófærur.