26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (5855)

224. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. 2. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — Þetta mál var alllengi til meðferðar í fjvn. Og átti fjvn., eins og vera bar um svo stórt mál, viðræður við þá ráðh., sem málið tekur sérstaklega til, sem eru bæði hæstv. fjmrh. og atvmrh. Auk þess skrifaði n. forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins um þetta mál og óskaði umsagnar hans um það, og er sú umsögn prentuð sem fylgiskjal með nál. 1. minni hl. n. Það varð að samkomulagi milli fjvn. og hæstv. samgmrh., að n. hefðist ekki að í málinu, fyrr en ríkisstj. hefði athugað málið og fyrir lægi álit frá forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins. En strax er þetta álit lá fyrir, sem prentað er á þskj. 1101, þá ræddi hv. fjvn. við hæstv. samgmrh. um þetta mál, og lagði hann fram á þeim fundi ákveðna till. í málinu, þá, sem prentuð er hér á þskj. 1119, sem er nál. frá 2. minni hl. n. Þetta er sú till., sem hæstv. samgmrh. gerði til n., og með því var þá lagður grundvöllur að afgreiðslu málsins af hálfu n. — Síðar kom svo í ljós, þegar endanlega var gengið frá þessu máli, að hæstv. samgmrh. gæti fyrir sitt leyti fallið frá því, að tekið yrði upp í till., eins og hann hafði áður lagt til, það skilyrði, að ábyrgðin væri bundin því, að fram komi ýtarlegar og fullnægjandi skýringar á því, hvers vegna kostnaður við verkið fer svo mjög fram úr því, sem áætlað hafði verið, og þá einkum, hvernig á þeirri hækkun stendur frá þeirri áætlun, sem gerð var í nóv. 1943 og á ný í nóv. 1944. Lýsti þessi hæstv. ráðh. því yfir við okkur, sem ritum undir þetta nál. frá 2. minni hl. fjvn., að hann hefði fallizt á það, að þetta stæði ekki í till., en mundi hins vegar lýsa yfir við meðferð málsins á Alþ., að hann ætlaði að gera kröfu til þess, að þessar skýringar lægju fyrir áður en hann legði til, að þessi ábyrgð yrði veitt. Þetta atriði málsins bar mjög á góma við fyrri umr. þess, og þá m. a. með þeim hætti, að 1. flm. þessarar till., núv. hæstv. atvmrh., lét orð falla um, að sjálfsagt væri, að slík athugun eða rannsókn færi fram á þeirri hækkun, sem orðið hefur á kostnaðinum við þetta frá þeirri áætlun, sem gerð hafði verið um kostnaðinn, þegar þetta mál lá síðast fyrir hæstv. Alþ., að það væri sjálfsagt að athuga þetta í sambandi við það, að nú væri veitt ný ábyrgð fyrir nýrri viðbótarhækkun. Undir þetta hefur svo forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins tekið, þar sem hann leggur til í niðurlagi umsagnar sinnar um þetta mál, að Alþ. eða ríkisstj. hlutist til um það, að fram komi ýtarlegar og fullnægjandi skýríngar á því, hvers vegna kostnaður af þessu verki, sem hér um ræðir, fer svo mjög fram úr því, sem áætlað hafði verið. Og er eiginlega orðalag hans á þessu, sem tekið er upp í till. þá, sem hæstv. samgmrh. lagði fram í fjvn. um þetta atriði.

Það eru þess vegna þrír aðilar í þessu máli, sem hafa lagt þetta til, fyrir utan það, að 2. minni hl. fjvn. leggur þetta til, að rannsókn fari fram á þessu, sem sé hæstv. atvmrh., hæstv. samgmrh. og forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins. Okkur, sem stöndum að þessu áliti frá 2. minni hl. fjvn., fannst þess vegna eðlilegt og í fullu samræmi við það, sem fram hafði komið í þessu máli, bæði hér á hæstv. Alþ. og í till. frá forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins, að slíkt ákvæði sem þetta væri tekið upp í till. En það leiðir af sjálfu sér, að ef sá hæstv. ráðh., sem hefur þetta mál sérstaklega til meðferðar í ríkisstj., gefur slíka yfirlýsingu um þetta eins og hann hefur gefið við okkur, sem stöndum að þessu nál., þá kemur það alveg út á eitt í sjálfu sér, þó að þetta sé ekki látið standa í þáltill. sjálfri. Því að sá hæstv. ráðh. hefur gefið þær yfirlýsingar í sambandi við afgr. málsins, að ábyrgðin verði veitt. En okkur virtist það vera meira í samræmi við gang þessa máls hér á hæstv. Alþ., að slíkt ákvæði sem þetta stæði í till. sjálfri.

Hv. frsm. 1. minni hl. í fjvn. lét nú hér þau orð falla, að ef ætti að taka þetta ákvæði bókstaflega, — og kemur þá náttúrlega út á eitt, hvort það stendur í till. eða það verður framkvæmt eins og hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að hans meining sé að gera —, þá mundi það gera Siglufjarðarbæ ókleift að komast út úr þessu og það yrði til þess að tefja fyrir nauðsynlegri afgreiðslu málsins. Þetta gátum við, sem stöndum að áliti 2. minni hl. n., ekki fallizt á þegar af þeirri ástæðu, að hæstv. atvmrh., upphaflegi flm. till., hefur einmitt látið orð falla um það, að það sé einn liður málsins, að þetta verði athugað og rannsókn fari fram á þessu áður en ábyrgðin verði veitt. Og hæstv. atvmrh. er einmitt þm. þess kjördæmis, sem á að njóta þessarar ábyrgðar, og honum er náttúrlega kunnugast um alla málavexti þar. Og hann hefði þess vegna alls ekki látið þau ummæli falla eða lagt slíkt til, ef það hefði í för með sér þær afleiðingar, sem hv. frsm. l. minni hl. n. hefur nú látið orð falla hér um, að það mundi hafa í för með sér gagnvart Siglufjarðarbæ. Og af hálfu þeirra hæstv. ráðh., sem mættu í fjvn. við afgreiðslu þessa máls í n. til viðræðna um málið, hæstv. fjmrh. og hæstv. samgmrh., kom fram fullkominn skilningur á þörfum Siglufjarðarkaupstaðar eins og komið er í þessu máli, og af þeirra hálfu bryddi ekki á neinu öðru en fullkomnum velvilja til þess að leysa úr þeim vanda, sem þarna hefur skapazt í sambandi við þetta mál. Og ég verð að segja það, að ég álít, að það sé ekki heldur vel launaður sá stuðningur, sem ég hef viljað sýna þessu máli og líka sá hv. þm., sem stendur að þessu nál. með mér, ef því er slöngvað framan í okkur, að við séum að bera hér fram till., sem geti orðið til þess að gera Siglufjarðarkaupstað ókleift að komast út úr þessu máli. Aðstaða okkar er og hefur verið allt önnur til þessa máls heldur en sú. Og ég sé ekki, þar sem eins er ástatt um þetta skilyrði og ég hef nú lýst og málið er í höndum þeirra manna, sem hafa fullan hug og vilja á því að greiða úr þessu öngþveiti, sem þarna hefur skapazt, að þá þurfi að leggja í þetta slíkan misskilning eins og hv. frsm. 1, minni hl. n. gerði. Í þessu felst frá okkar hálfu, sem stöndum að áliti 2. minni hl., enginn illvilji til þessa máls, heldur viljum við gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að greiða fyrir því, að úr þessu geti rætzt. Og við lítum svo á, að það, sem hér er um að ræða, eigi engan veginn að geta orðið þröskuldur á vegi í þeirri leið.

Í því bréfi, sem fjvn. skrifaði forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins, þegar hún leitaði álits hans um málið, var það tekið fram, að óskað væri, að forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins svaraði því, hvort þessi viðbótarupphæð, sem hér er farið fram á, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir, mundi nægja til þess að ljúka þessu verki. Og þetta var gert með sérstöku tilliti til þess, að á s. l. ári var einnig farið fram á ábyrgð fyrir viðbótarláni, sem þá átti að nægja til þess, eftir því sem þá var haldið fram, að ljúka þessu verki, þó að allt annað hafi orðið ofan á, sem liggur að sjálfsögðu að verulegu leyti í eðlilegum orsökum. — Annað, sem fjvn. óskaði þá eftir, að forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins gæfi nokkur svör við, var, hvaða verð þyrfti að vera á rafmagninu þarna á þessum stað, og þá t. d. í samanburði við verð á rafmagni í Reykjavík, og hvort það verð, sem þyrfti að taka fyrir rafmagnið þarna á Siglufirði, mundi ekki verða hærra en í Reykjavík, ef líkindi ættu að vera til þess, að það gæti staðið með eðlilegum hætti undir virkjunar kostnaðinum. — Þessum atriðum báðum leitaðist forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins við að svara í þeirri grg., sem hér með fylgir. En hins vegar getur hann þess, að að ýmsu leyti hafi hann skort tíma til þess að geta þrautprófað svo þetta mál, að þær upplýsingar geti talizt tæmandi í málinu. Verð ég að viðurkenna, að forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins hefur gildar ástæður fyrir því, er hann segir, að á svo stuttum tíma hafi hann ekki getað gert málinu slík skil sem hann hefði getað, ef til þess hefði verið nokkru lengri tími. En þetta álit hans liggur hér fyrir, og þarf þess vegna ekki að ræða það. Við fyrri umr. var líka að því vikið, mig minnir af hv. 2. þm. S-M., sem vék að því í sambandi við þá afgreiðslu, er sú till. fékk, sem á síðasta ári var vísað til fjvn. um ábyrgð fyrir 2 millj. kr. viðbótarláni til þessarar virkjunar. Og þau orð féllu hjá þessum hv. þingm., að ef til vill hefði fjárveitinganefnd þá alls ekki lagt þá rækt við þetta mál, sem henni bar að gera, þannig að hún hefði þá afgr. málið án þess kannske að leita sér nægilegra upplýsinga eða að afla nægilegra gagna til þess að byggja afgreiðslu sína á málinu á. Ég vil í tilefni af þessu, af því að mér gafst ekki tóm til þess við fyrri umr. málsins, upplýsa það, að eins og nú, sendi fjvn. þá þessa till., sem þá lá fyrir um ábyrgð fyrir viðbótarláni, forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins til umsagnar. Og hann sendi fjvn. bréf um þetta mál þá. Að vísu getur hann um það í þessu bréfi, eins og nú varð einnig raun á, að honum hafi ekki unnizt tími til þess að gera þá athugun á þessu máli, sem hann hefði talið æskilega, til þess að byggja till. á. En eigi að síður mælti hann þá mjög eindregið með samþykkt till. Og úr því að þetta mál hefur verið tekið upp hér, þykir mér ástæða til að láta koma inn í þingtíðindin svolítinn kafla úr þessu bréfi, sem sýnir, að fjvn. hafði þá nokkuð við að styðjast að því er snerti till. frá þessum trúnaðarmanni ríkisstj. og Alþ. við afgr. málsins þá. Og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp stuttan kafla úr þessu bréfi, sem að þessu lýtur. Hann talar hér fyrst um það í bréfinu, að hann hafi haft of nauman tíma. Auk þess rekur hann gang þessa máls og segir svo í framhaldi af því:

„Framkvæmd verksins hefur verið falin þekktu firma, sem áður hefur leyst af hendi hér á landi verk sömu tegundar, engu vandaminni en þetta verk, og mun eigi vera talið neitt tilefni hafa gefizt til að vantreysta eða tortryggja firmað.

Það er og vitað, að í Siglufjarðarkaupstað er brýn þörf þeirrar aukningar á raforku, sem virkjun þessi mun veita, og mun óhætt að fullyrða, að allt afl virkjunarinnar mun verða tekið í notkun mjög fljótlega eftir að virkjunin er fullgerð.

Af því, sem mér er kunnugt um þetta verk, fæ ég ekki séð, að annað komi til mála en að halda því áfram og fullgera það án tafa, nema óviðráðanlegar séu.“

Úr því að þetta mál hefur borið á góma, vildi ég taka þetta fram hér, að forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins lagði mjög eindregið með því við fjvn., að till. yrði afgreidd á þann veg, sem fjvn. lagði til um afgreiðslu málsins þá.

Ég skal svo ekki að sinni orðlengja frekar um þetta mál.