26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (5856)

224. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. 3. minni hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Ég þarf nú ekki að hafa mörg orð um þetta mál, því að málið er nú orðið mjög rætt á hæstv. Alþ. og var mjög rætt við fyrri umr. Það er búið að liggja alllengi fyrir fjvn., sem er, eins og sjá má af þskj., þríklofin um málið. Við, sem stöndum að nál. á þskj. 1123, lítum svo á, að þegar athugaðar eru allar kringumstæður, þá sé óverjandi fyrir Alþ. samþ. þessa heimild til ríkisábyrgðar, fyrr en fram hefur farið nákvæm og ýtarleg rannsókn á því, hvernig í því getur legið, að sú gífurlega hækkun á kostnaði við framkvæmd þessa verks hefur átt sér stað fram úr þeirri áætlun, sem gerð hafði verið um þetta efni í nóv. 1943. Frá þeim tíma og þangað til í nóv. 1944 hækkar kostnaðurinn við þetta, eftir því sem hann var á hverjum tíma talinn að mundu vera, svo mikið, að þarna hljóta að hafa orðið stórfelld mistök á. Og þetta viljum við í 3. minni hl. fjvn. fá upplýst, áður en hæstv. Alþ. samþ., að ríkið gangi í þessa viðbótarábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað. Það voru færð skýr rök að því hér á dögunum, að þessarar rannsóknar væri full þörf. Og enn fremur viljum við í 3. minni hl. fjvn. miða ábyrgðarheimildina við 3½ millj. kr. Við vitum, að búið er á hæstv. Alþ. nú að samþ. fjölmargar ábyrgðarheimildir, sem ríkið megi ganga í. Og Siglufjarðarkaupstaður hefur ekki farið varhluta af þeim ábyrgðum, því að hann er nú búinn að fá ábyrgð fyrir 8 millj. kr. til rafveitu, og auk þess að mig minnir 5 millj. kr. ábyrgð vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Og við í 3. minni hl. fjvn. lítum svo á, að ef ábyrgð ríkissjóðs á í framtíðinni að vera nokkurs virði, þá verði að gæta hófs í því, hve langt sé gengið í slíkum efnum. Og ég lít svo á, að ef hver kaupstaður á landinu ætti að fá eitthvað hlutfallslega svipað því, sem Siglufjarðarkaupstaður er búinn að fá í þessu efni, þá mundi ábyrgð ríkissjóðs vera orðin harla lítils virði. En hitt er alls ekki tilfellið, að við í 3. minni hl. fjvn. höfum í hyggju, eins og hv. frsm. 1. minni hl. n. lét orð falla um, að klekkja á hæstv. ríkisstj. með þessu, sem kemur fram í nál. okkar. Með þessu var alls ekki verið að krukka í ríkisstj. Við vildum bara reyna að sjá hag ríkissjóðs borgið og að hann tæki ekki á sig ábyrgðir, sem væru mjög vafasamar og erfitt væri að standa undir.

Þó að Siglufjörður þurfi að fá viðbótarlán, þá er þar dugmikið og efnað fólk og bærinn hefur mikla framleiðslu og útgerð. Þess vegna ætti honum ekki að verða ofvaxið að fá 1½ millj. kr. að láni án ábyrgðar ríkissjóðs.

Viðvíkjandi því, að nokkur hafi verið að krukka í ríkisstj., þá er það fjarstæða, við erum bara að reyna að jafna þessi ákvæði þannig, að einn bær gangi ekki svo og svo langt í því að taka ábyrgðarheimildir og aðrir staðir og bæir verði að víkja. Ég tel, að það verði að vera takmörk sett fyrir því, hvað ríkissjóður megi gangast inn á miklar og háar ábyrgðir. Ég held líka, að það sé full nauðsyn á því, bæði vegna Siglufjarðar og annarra staða, sem ætla nú á næstu árum að hefja slíkar framkvæmdir, að fá upplýst, í hverju mistökin hafa legið. Ég held, að það sé mjög gott fyrir alla aðila að læra af því, svo að þeir lendi ekki í sama feninu og Siglufjörður.

Við leggjum eindregið til, að rannsókn fari fram, áður en ábyrgðarheimildin verður veitt, og af því að rafmagnseftirlitið taldi sér ekki fært að gera heildarrannsókn á þeim tíma, sem það hafði til umráða á þessum vetri, þá verður rannsóknin að fara fram nú, þegar fer að vora, og þess vegna viljum við, að frestað verði að veita þessa ábyrgðarheimild þangað til skýrsla er komin um það, hvernig þessi mál standa þar nyrðra.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, nema tilefni gefist til þess.