26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í D-deild Alþingistíðinda. (5858)

224. mál, virkjun Fljótaár

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það liggur nú fyrir í máli þessu nál. fjvn. í 3 hlutum. Tvö nál. leggja til, að þessi ábyrgð, sem farið er fram á, verði veitt, þó með þeim sömu takmörkunum og nú hefur orðið samkomulag um, að haft verði við allar rafveituábyrgðir, að þær nái til 85% af byggingarkostnaðinum. Og þess er líka getið, að bæjarstjórn Siglufjarðar hafi fallizt á þetta og telji sig geta við það unað.

Álit 1. og 2. minni hl. er mjög svipað, og það er aðeins eitt atriði, sem þar ber á milli, sem ég tel nú, eftir ræðu hæstv. samgmrh., sé orðið þýðingarlítið, þar sem hann lýsti því yfir, hvernig hann mundi framkvæma þetta, hvernig sem þessu ákvæði um ýtarlega rannsókn um fjárreiður við framkvæmd verksins yrði fyrir komið. Hann hefur sem sé lýst því yfir, að hann mundi gera það að skilyrði fyrir því, að hann mælti með því, að ríkisábyrgð yrði veitt fyrir viðbótarláni, að þessi rannsókn færi fram, þó að hann ætlist ekki til þess, að rannsóknin tefji framgang málsins. Og þá sé ég ekki neina ástæðu til þess að halda fast við það, að þetta sé beinlínis gert að skilyrði í till. sjálfri. Þegar þetta mál var til umr. áður, átti ég í nokkurri orðasennu við hv. 2. þm. S-M. um málið, og bar okkur ýmislegt á milli, en þó sérstaklega eitt atriði. Hann taldi nauðsynlegt, að fram færi ýtarleg rannsókn á öllum fjárreiðum við þessar framkvæmdir. Enn fremur taldi hann, að ég, sem sá þm., sem hef mest verið við þessi mál riðinn sem fulltrúi Siglufjarðar, og þar sem ég hef borið þetta mál fyrir þingið, hefði beinlínis leynt þingið sannindum, til þess að lauma ríkisábyrgðinni í gegn.

Ég fyrir mitt leyti féllst strax á það, að þessi rannsókn færi fram. Ég vildi sjálfs mín vegna, og það væri líka bezt fyrir bæjarstjórnina á Siglufirði, að fram færi ýtarleg rannsókn á þessu máli. Og það er sérstaklega eitt atriði, sem ég á erfitt með að skýra og vildi fá skýringu á. Það er þetta, að áætlunin, sem gerð er, þegar verkfræðingarnir leggja til að hækka ábyrgðina um 2 millj. kr., hvers vegna yfirsést þeim þá, að síðar muni koma 5 millj. kr. í viðbót? Það er í fyllsta máta óeðlilegt, þegar gert er ýtarlegt uppgjör á verkinu í fyrra haust, að þá skuli þeim geta missézt um 5 millj. kr., vegna þess að verðlag hefur frá þeim tíma ekki breytzt svo mikið, að það réttlæti þennan gífurlega mismun. Og það er sérstaklega þetta atriði, sem ég vil, að fram fari rannsókn á. Ég mótmæli því, eins og ég hef gert áður, að ég hafi haft nokkra minnstu hugmynd um, að 2 millj. kr. mundu ekki nægja, þegar ég fór fram á, að sú ábyrgð yrði veitt. Og vegna þess að ég var í þeirri góðu trú, að þetta væri endanleg upphæð, er mér það sérstakt áhugamál, að þessi rannsókn fari fram.

En það, sem okkur hv. 2. þm. S-M. bar á milli, var það, hvort þessi rannsókn ætti að fara fram og verkið að bíða á meðan eða hvort halda eigi áfram með verkið af fullum hraða og láta rannsóknina fara fram jafnhliða. Að ekki yrði bundið við það, að rannsóknin yrði framkvæmd á undan verkinu, vegna þess að hver einasti mánuður, sem líður, þýðir tuga og jafnvel hundruð þús. kr. kostnað fyrir Siglufjarðarkaupstað og að sama skapi meiri áhættu fyrir ríkissjóð. Því að eðlilega hefur Siglufjarðarkaupstaður þeim mun minni möguleika til að standa undir þessu láni, sem það dregst lengur, að rafveitan komist í gang. Nú hefur hæstv. samgmrh. tekið af skarið um það, að rannsókninni verði ekki hagað þannig, að framkvæmd verksins þurfi að tefjast við það. Ég á satt að segja erfitt með að skilja, af hverju hv. 2. þm. S-M. heldur svo fast við, að þetta skilyrði sé beinlínis tekið fram í till., þegar skýlaus yfirlýsing liggur fyrir um það, að þessi rannsókn fari fram og þar sem einnig liggur fyrir ósk um það frá minni hendi sem flm. málsins og frá bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar. Það er ekki laust við, að manni detti í hug, þó að ég vilji ekki fullyrða það, að þeir hv. þm., sem skipa 2. minni hl., ætlist til þess með till., að menn haldi, að bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar hafi legið á gögnum um málið og vilji þess vegna fyrirbyggja rannsókn. Ég vil fullyrða, að ekkert slíkt er til. Enda vill bæjarstjórnin alls ekki hindra þessa rannsókn, heldur hefur hún þvert á móti óskað þess, að rannsóknin fari fram sem allra ýtarlegust, til þess fyrst og fremst að sýkna hana af þeim áburði, sem ekki er laust við, að hún hafi stundum orðið fyrir, að hún sé völd að þessum gífurlega stofnkostnaðarauka, sem hún telur sig ekki vera. Og í öðru lagi er nauðsynlegt, að þessi rannsókn fari fram til eftirbreytni og lærdóms fyrir þau bæjar- og sveitarfélög, er síðar kynnu að leggja í slíka framkvæmd og þessa.

Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni um þessi mál, þá tel ég, að þetta slys með rafveitu Siglufjarðar bendi okkur á, að það þurfi að leggja miklu meiri vinnu í undirbúningsstörf, áður en lagt er út í að byggja rafveitur. Og það er ekki einasta nóg, að valdir séu til þess einhverjir og einhverjir. Ríkisvaldið sjálft þarf að hafa nægjanlegan hóp fagmanna í sinni þjónustu til þess að geta framkvæmt sjálft fyrir sig ýtarlega rannsókn, þannig að athugað sé hvert atriði, áður en hafizt er handa um framkvæmdir.

Ég býst við því, að ef þetta mál og þessi verk hefðu verið betur athuguð áður en út í framkvæmdir var lagt, þá hefði ef til vill mátt forðast ýmisleg útgjöld, sem nú hafa komið fram. Og því eru vítin til varnaðar þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem á eftir koma, að láta framkvæma ýtarlegri rannsókn heldur en Siglufjörður lét gera.

Bæjarstjórn Siglufjarðar á ekki ein sök á því, að ekki var í vetur unnið að undirbúningsstörfum þessarar virkjunar. Það vantaði það aðhald, sem þyrfti að vera og ég vænti, að nú verði upp tekið af hálfu ríkisvaldsins og að það sjálft gangist í, að þessi rannsókn fari fram. Eins og nú er ástatt hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, er það svo mannfátt að það á erfitt með að framkvæma þær miklu rannsóknir, sem farið er fram á í sambandi við þær virkjanir, sem leggja á í. Svipað viðhorf var um það leyti, sem lagt var í þessa virkjun, að Rafmagnseftirlitið hafði ekki nógu mikinn starfskraft til að geta framkvæmt þessa rannsókn svo fljótt sem vera bar, og ríkisstj. setti það ekki sem skilyrði fyrir, að hafizt væri handa um byggingu rafveitunnar á sínum tíma. Ég vona samt, að það verði gerðar ráðstafanir til þess, að Rafmagnseftirlitið verði þannig búið að verkfræðilegum starfskröftum, að það geti framkvæmt þessar rannsóknir, sem nú hafa sýnt sig, að eru óhjákvæmileg nauðsyn, ef við eigum ekki að lenda í vandræðum með raforkuframkvæmdir okkar. Það, aftur á móti, að koma, þegar verkið er meir en hálfnað og búið er að binda meir en 11 millj. kr., og segja: „Nú eigum við að framkvæma undirbúningsráðstafanir, sem við vanræktum áður en byrjað var á verkinu“, er megnasta fjarstæða. Það er miklu réttara fyrir menn, sem halda fram í alvöru, að slíkt eigi að gera, að það eigi að stöðva framkvæmdir sem þessar og láta 10 til 11 millj. standa rentulausar og mannvirki, sem heilt bæjarfélag á lífsafkomu sína undir, að koma með till. um, að mannvirkið verði tekið af bæjarfélaginu, og það er líka minni skaði fyrir þjóðina sem heild. Ég tel engan skaða að því fyrir ríkisvaldið enn sem komið er að gera kröfu til að yfirtaka þetta mannvirki, því að enn þá eru miklar líkur fyrir því, að það geti staðið undir sér, vegna þess að það bæjarfélag, sem þarna á hlut að máli, er betur sett en nokkurt annað bæjarfélag á landinu til þess að standa undir dýrri rafveitu. Það byggist einungis á því, að það hefur toppálagningu á rafveitu sinni yfir sumartímann, sem annars er dauður tími fyrir rafveitur á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Það gerir hinn mikli verksmiðjurekstur, sem er á Siglufirði, og það er líka fyrirsjáanlegt, að á næstu árum mun íbúum Siglufjarðar fjölga mjög mikið og verksmiðjureksturinn aukast stórum, svo að miklar líkur eru til þess, að aldrei komi að því, að þær ábyrgðir, sem hér er verið að taka á ríkissjóð, falli til greiðslu á hann. Ég vil því með skírskotun til yfirlýsingar hæstv. samgmrh. fastlega mælast til þess við hv. 2. minni hl. í fjvn., að hann fallist á að breyta þannig orðalagi þessarar till. sinnar, að þessi 1. og 2. minni hl. geti orðið sammála, því að þeir eru það í öllum veigamiklum atriðum, og það er komið á daginn, að það skiptir engu máli um framkvæmdirnar, hvort till. verður samþykkt, en það er óneitanlega dálítill sársauki í sambandi við það hjá Siglfirðingum, að þetta sé beinlínis sett sem skilyrði, því að hætt er við, að það sé lagt út á þann veg, að þeir séu vændir um, að þeir hafi eitthvað að hylja í þessu máli, sem ekki er tilfellið. Þeir eru mjög fúsir til þess, að ýtarleg rannsókn fari fram á orsök hinnar gífurlegu hækkunar, sem orðið hefur á stofnkostnaðinum.