26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í D-deild Alþingistíðinda. (5861)

224. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um það, að flm. þessarar till. hefðu verið að rekja raunir sínar, vil ég segja það, að ég veit ekki til, að þeir hafi neinar raunir að rekja. Ef einhverjir hafa raunir að rekja, þá eru það þeir, sem verða að renna með sínar till. og sínar ásakanir eins og þessi hv. þm. hefur gert og hans samherjar, þeir virðast vera orðnir skipbrotsmenn á þessu máli gagnvart Siglufirði nú eins og áður. Þessi áætlun háttv. þm. um það, að raforkunni mætti veita til Siglufjarðar fyrir 13,3 millj. kr., er ekkert annað en áætlun. Það hefur verið sýnt fram á það, að kaupstaðir eins og Siglufjörður geta orðið rafmagnslausir tímum saman, ef ætti að eiga það undir línu, sem lægi í gegnum fjölda kauptúna og kaupstaða, hvort þeir fengju rafmagn eða ekki. Það er löng leið og slysagjörn, sem yrði að leiða rafmagnið um, og það er hætt við því, að Siglufjörður yrði þá að hafa varastöð, og það er ósannað mál, hvort þessar 13,3 millj. fengju þá staðizt.