26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (5863)

224. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. 1. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Frsm. 2. minni hl. sagði í fyrri ræðu sinni, að þar sem fram hefðu komið frá þrem sterkum aðilum óskir um það, að fram færi rannsókn, skildi hann ekki í því, að menn væru á móti því, að slíkt skilyrði yrði sett inn í till. Hæstv. atvmrh. hefur tekið af mér ómakið og bent á það, að rannsókn verði látin fara fram, þó að það sé ekki beint tekið fram í till. Það er enginn ágreiningur um það, að rannsókn eigi að fara fram; ágreiningurinn er aðeins um það, hvort það skuli tekið fram í till. Mér fannst hv. frsm. 2. minni hl. meina það, að það gætti vanþakklætis frá okkar hálfu varðandi það, hvernig við vildum orða till. Ég var ekki með neinar ásakanir, en það var mín skoðun, að þetta mundi skapa óþægindi fyrir Siglufjörð. Það er síður en svo, að hér sé um vanþakklæti að ræða. En ég vil skjóta því til hv. þm., hvort hann hefði litið eins á málið, ef hann hefði verið með ábyrgðarbeiðni til þingsins. Ég vil benda honum á það, að þó að þessi kostnaður hafi farið fram úr áætlun, þá gæti verið varlegast fyrir hann að reikna með því, að hann þurfi að koma til þingsins með beiðni um viðbótarábyrgðarheimild varðandi Andakílsárvirkjunina. Ég vil svo vonast eftir, að stuðningsmenn málsins geti fallizt á okkar till. óbreytta. Hv. frsm. 3. minni hl. hafði framsögu fyrir till. hv. þm. S-Þ.; hann taldi ógerlegt, að Alþingi gengi út í þessa ábyrgð fyrr en rannsókn hefði farið fram á því, hvernig á því stæði, að kostnaðurinn hefði farið svo mjög fram úr áætlun. Það er gleðilegt, ef háttv. þingm. ætlar að fara að verða varfærinn og gæta hófs um rafveituábyrgðir, en ég veit engan ábyrgðarlausari í þeim efnum heldur en þennan hv. þm. Þessi hv. þm. hefur ekki einungis flutt ábyrgðarheimildir inn á þingið, heldur hefur hann lagt til og fengið samþ., að lagt yrði fram fé úr ríkissjóði til þess að kaupa efni í rafveitulínu frá Soginu til fáeinna sveitabæja.