24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (5879)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Flm. Jón Pálmason):

Það, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur tekið fram um þetta mál, er að því leyti rétt, að það er hér orðið um talsvert dýra jörð að ræða, vegna þess að það eru á henni mjög miklar byggingar, sumar nýjar og dýrar, og eftir því sem við höfum fengið upplýsingar um, stendur jörðin nú bankanum í nálega 150 þús. kr. Varðandi það, hvort nokkur ástæða sé fyrir ríkið að blanda sér í þetta og kaupa þessa jörð, geta náttúrlega verið skiptar skoðanir, en landbúnaðarn. lítur svo á, að vegna þess að ríkið á landið í kring, — og er hér um svæði að ræða, sem vafalaust verður allverðmætt —, þá sé athugavert að láta þessa jörð komast í brask. Annars er gefin sök, að um leið og till. er vísað til hv. fjvn., þá er til þess ætlazt, að athugað sé, hvort samkomulag náist um verðlag og annað, enda er hér ekki um annað að ræða en heimild til hæstv. ríkisstj. um að kaupa jörðina, ef um semst með sæmilegum kostum.