26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (5885)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Þar sem ég er flm. að þessari till., vil ég gera grein fyrir skoðun minni á þessu máli.

Hv. 2. landsk. þm. sagði, að hann vildi, að ríkið léti þær jarðir, sem það nú á. Ég er algerlega á móti þessu. Ég vil meira að segja, að ríkið eigi allar jarðirnar.

En það gegnir talsvert öðru máli með þessa jörð en aðrar. Þessi jörð var keypt af Búnaðarbanka Íslands fyrir nokkrum árum, til þess að hún lenti ekki í braski, og ef ríkið ætlar sér að nytja þetta land, þá er verðið aukaatriði og gæti jafnvel orðið hærra síðar.

Þetta land liggur þannig, að það verður verðmikið, og ég er ekkert hræddur við samningana á milli ríkisstj. og bankans, en það væri hins vegar illt, ef þetta land færi í einstaklings eign, og gæti þá farið svo, að það yrði dýrara, ef ríkið vildi þá kaupa. Ég legg því eindregið með því, að þessi till. verði samþ.