26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (5886)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þessari till. fylgja ein 4 fylgiskjöl. Hið fyrsta er frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og mér er nú ekki ljóst, hvers vegna það álit er hér, en fróðlegt væri að vita, hvort fjvn. hefur leitað álits hinna nýju ráðh. um þetta. Eitt fylgiskjalið er frá Búnaðarfélagi Íslands, eða öllu heldur frá Steingr. Steinþórssyni, og hið síðasta fylgiskjal er frá Jens Hólmgeirssyni. Tvö þessara fylgiskjala, frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Jens Hólmgeirssyni, leggja megináherzlu á, að þessi jörð lendi ekki í braski, en ég vil spyrja hv. fjvn., hvort henni er það ekki kunnugt, að jörðin hefur þegar lent í braski — og það stórfelldu braski —, var seld á 26 þús. kr., en á nú að kosta meira en 157 þús. kr., svo að það væri athugandi, hvort ekki væri rétt að bíða með að kaupa hana, þangað til hún kemst úr þessu gróðabralli. Annars held ég, að það sé röng stefna, að ríkið kaupi jarðir og hirði ekki meira um þær en raun er á.

Ég þekki höfuðból, sem ríkið keypti, og þar eru þannig byggingar, að engin af hliðum hússins heldur vindi eða vatni, og fólkið má flýja enda á milli í húsinu eftir því, hvaðan vindur blæs. Ég hef farið víða um sveitir, og ég er alveg viss um, að enginn jarðeigandi níðir svo niður jarðir sínar sem ríkið. Og því finnst mér, að ríkið ætti fyrst að byggja á þeim jörðum, sem það á, áður en það kaupir fleiri, eða jafnvel að selja eitthvað af þeim jörðum, sem það á. Og greiði ég því atkv. gegn þessari till.