26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (5891)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Það hefur borið margt á góma í þessari umr. Ég stóð nú ekki upp til að ræða beint um stefnur, heldur til að bera af mér sakir.

Það hefur verið haft á orði af mörgum ræðumönnum hér í kvöld, að opinberar jarðir séu níddar og illa setnar og þeir, sem á þeim sitja, séu trassar um það, sem þeim er falið. Ég er einn í þeirra hópi. Ég sit á ríkisjörð með beztu ábúðarskilyrðum, sem til eru, og ég fyrir mitt leyti neita því algerlega, að þeir, sem sitja á opinberum jörðum, séu meiri trassar en nokkrir hinna. Og þegar hv. þm. Barð. og hv. þm. Borgf. eru að tala um, að þessar jarðir séu níddar, er eins og það séu engar jarðir illa setnar, sem eru í einkaeign. Þar, sem ég þekki til, held ég, að þeir, sem sitja opinberar jarðir, þoli allan samanburð við þá, sem sitja á einkajörðum. Þegar hv. þm. Barð. er að lýsa átakanlega, hvernig setið er á opinberum jörðum í mörgum tilfellum, er eins og það sé ekki til sams konar húsakostur á jörðum, sem eru í einkaeign. Ég þekki þó slíkar jarðir, sem ættu við enn þá ljótari lýsingar en hv. þm. Barð. hefur gefið í kvöld á opinberum jörðum, og skal þó játað, að hið opinbera rækir mjög slælega þá skyldu, sem því er lögð á herðar að byggja upp á opinberum jörðum.

Og þegar verið er að ræða um stefnur í þessum efnum, til þess að bæta úr, svo að jarðirnar séu vel setnar, þá er það augljóst mál, að í þeim efnum hlýtur það að vera bezt fyrir bóndann, að hann fái jörðina í erfðaábúð, eins og öllum er heimilt nema þeim, sem sitja á embættisjörðum, og fá þannig fullan umráðarétt yfir jörðinni, án þess að leggja fram fé til þess. Þá er slíkum mönnum hagur að hýsa jörðina, þar sem þeir þurfa ekki að leggja fram fé til að kaupa jörðina fyrst, en geta varið því til að hýsa hana.

Ég vísa því eindregið á bug þeim aðdróttunum, sem nokkrir hv. þm. hafa verið með í garð landseta hins opinbera.