26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (5892)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. er sagður vera maður mjög liðlegur á að gera allan þann greiða, sem hægt er að hugsa sér fyrir umbjóðendur sína, og gangi þar langt fram úr okkur öllum. Ég vil benda honum á það, að hann ætti að kynna sér erfðafestulögin og segja landsetum ríkissjóðs, hvernig þau eru, og benda þeim á að vera ekki að stríða við að fá ríkissjóð til að byggja, ábúðarlögin nái ekki lengur til jarða, sem byggja má á erfðafestu. Hann ætti bara að hjálpa mönnum til að fá sér efni og til að fá sér erfðaábúð og byggja, svo að ekki þurfi að gefa svipaðar lýsingar og gefnar hafa verið um það, hvernig jarðir í Barðastrandarsýslu séu hýstar. Ef Barðstrendingar eru svo aumir, að þeir geta ekki hýst upp jarðir sínar eins og aðrir, þá á hann að hjálpa þeim, sem búa á opinberu jörðunum, til að fá erfðaábúð og síðan byggja upp á þeim.

Þetta vildi ég benda þér á, þingmaður Barðstrendinga, til þess að hjálpa þér sjálfum að hjálpa bændum til að verða fyrirmyndarbændur í sínu héraði.