28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (5904)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Pétur Ottesen:

Ég verð að láta í ljós mjög mikla undrun mína yfir þessari ræðu hv. þm. Barð. Hann heldur fram, að þessi þáltill., sem flutt er hér, brjóti í bága við ákvæði þessara l. Það er merkilegt, ef það væri svo, að þessi hv. þm., sem hefur verið skipaður í n. til að framkvæma þessi l., hefði ekki lesið l., en slík ummæli sem þessi geta ekki byggzt á öðru en að honum hafi sézt yfir, hvað í l. standi, því að ég veit, að þessum hv. þm. er ekki svo áfátt, að ef hann les l., þá mundi hann ekki halda fram, að þessi þáltill. bryti í bága við ákvæði þeirra. Það þarf ekki að lesa nema 1. gr. til að ganga úr skugga um, að það, sem hann var að halda fram, er svo einkennileg fjarstæða, að maður verður undrandi að hlusta á. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fé það, sem veitt er úr framkvæmdasjóði ríkisins til smíði fiskiskipa, skal leggja í sjóð, er nefnist Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa.“

Þar eru engin takmörk sett niður á við um þessi skip, og hér er ekki um að ræða aðra trillubáta en þá, sem á að nota til fiskiveiða, sem sé fiskiskip. Sú var hugsunin með þessari löggjöf.

Þegar ákvörðunin var tekin um að greiða 5 milljónir til styrkja í þessu skyni, — og kann ég nokkuð um það að dæma, því að ég var einn af flm. þeirrar till., — að þetta ætti að ganga til þarfa landsmanna og greiða fyrir því, að þeir kæmu sér upp fiskiskipum. Nú vitum við, að aðstaðan hér á landi er ákaflega mismunandi um, hvaða stærð fiskiskipa á við. Nú er það svo í mörgum útgerðarstöðum, að þessi trillubátaútgerð er eina útgerðin, sem hægt er að koma við, síðan árabátarnir lögðust niður. Það gera hafnarskilyrðin, því að víða er ekki hægt að nota stærri skip en svo, að hægt sé að taka þau á land, jafnvel í hvert skipti sem þau koma að landi. Frá þessu sjónarmiði er þetta ákvæði sett eins og það er, svo að það nái til hinna smærri báta. Hitt er vitanlega sjálfsagt, að þessir bátar verða að uppfylla skilyrðin, þannig að það liggi fyrir ábyrgðarvottorð og vélin sé háð sömu skilyrðum og sett eru um stærri báta. Þess vegna verða þeir, sem sækja um styrk til að byggja trillubáta, að uppfylla skilyrðin að þessu leyti. Það eru einnig til teikningar yfir báta af þessari stærð, og þeir, sem vilja fá þennan stuðning, verða einnig að uppfylla skilyrðin að því leyti. Þess vegna er ekkert í þessari löggjöf, sem mælir á móti því, heldur allt, sem mælir með því, því að þetta á að styðja að aukningu skipaflota landsmanna án tillits til, hver stærðin er, heldur aðeins miðað við, hvaða skip henti á hverjum stað.

Við höfum fordæmi í þessu efni. Áður var fiskveiðasjóði ætlað að úthluta tveimur milljónum. Þá var jöfnum höndum veitt í trillubáta og stærri báta, og tilgangurinn með þessum ráðstöfunum, bæði að því er snerti þetta framlag úr fiskveiðasjóði og þessi l., var það sama, að veita stuðning til að auka fiskiskipaflotann af þeim stærðum, sem bezt hentaði á hverjum stað.

Ég þarf svo ekki að taka fleira fram í þessu efni. Það sjá allir, hvaða fjarstæða það er, sem hv. þm. heldur hér fram, að þessi þáltill. sé sprottin af því, að meiri hl. n. ætli að hliðra sér hjá að uppfylla bein ákvæði l., það er nauðsynlegt til þess, að l. nái tilgangi sínum, að það komi fram ákveðinn þingvilji og fyllsta vissa um ákvæði l., og er það að gefnu tilefni. Svo segir hann, að það sé sama, þó að þetta sé samþ., n. fari ekkert eftir því. Ef svo er, þá er ekkert annað að gera en að setja meiri hl. n. af, því að ef hann, sem er falið að framkvæma vilja Alþingis, ætlar að gera þar upp á milli manna, þá er hann ekki því starfi vaxinn að framkvæma þessi l. Hv. þm. þarf því engu hér að hóta, honum helzt það ekki uppi til lengdar að ganga í berhögg við skýlaus lagafyrirmæli og mismuna mönnum eftir því, við hvaða aðstöðu þeir búa. Hann þarf ekki að hugsa, að það sé svo aumt og vesalt framkvæmdarvald í þessu landi, að slíkt verði liðið til lengdar.

Já, hæstv. forseti gefur mér nú bendingar. Það var eitthvað fleira, sem ég þurfti að segja, en ég hef tekið fram aðalatriðin. Ég mun því taka bendingar hæstv. forseta til greina og ekki hafa þetta lengra.