28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (5906)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að vera margorður um þetta mál, þó að ég sé einn af flm. till., því að það eru í raun og veru margir til andsvara þeirri staðhæfingu hv. þm. Barð., að það væri lagabrot að framkvæma þáltill. þessa, sem við höfum flutt hér á þskj. 1180.

Þetta mál á þau upptök, að á heimildargr. fjárl. fyrir 1944 er heimilað að verja úr framkvæmdasjóði ríkisins fimm millj. kr. til byggingar fiskibáta. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að flestallir hv. þm. gerðu ráð fyrir því og gengu út frá því sem sjálfsögðum hlut og meintu ekkert annað með þessari heimild en að þetta fé yrði styrktarfé. Og það kom upp löngu síðar, að til eru hér menn á hæstv. Alþ., sem vildu ekki, að þetta fé væri veitt sem styrkur. Það voru aðallega menn með svona bankasjónarmið, sem ekki geta hugsað sér, að neitt fé gangi til umbóta og framkvæmda í þjóðfélaginu, nema fyrir það komi vaxtagreiðslur. Það voru þessi sjónarmið, sem komu upp síðar hér á hæstv. Alþ. Af þessu leiddi, að í l. um nýbyggingar fiskiskipa var til samkomulags tekið upp það ákvæði, að á eftir orðinu „styrkur“, ég held í hverri einustu gr. l., kemur: „eða lán“. En styrkur er þar alls staðar fremst í röð. Og styrkur er það, sem hæstv. Alþ. ætlaðist til, að veittur yrði með þessu fé. Þess vegna er þetta brot, ekki aðeins á anda l., heldur og á bókstaf þeirra að fara að útiloka styrkinn. Og það er hárrétt, sem hv. þm. Borgf. sagði áðan, að það er bezt fyrir n. að bæta ekki miklu við sínar syndir, ef ekki á að víkja henni frá. Því að hún hefur sýnt, að hún er á engan hátt fær um að rækja það starf, sem henni var falið að framkvæma. Hv. þm. Barð. bauðst til að vera ekki í n., en ganga úr henni, af því að skoðanir hans væru ekki í samræmi við skoðanir flokks hans og ekki heldur skoðanir Alþ. En það varð ekkert úr því að skipta um mann í n., og var sumra álit, að hann væri í n. til þess að framkvæma vilja flokksins og Alþ. En það hefur honum ekki sýnzt, þegar frá leið, að mundi vera. Þess vegna hefur hann, með öðrum hv. nm., brotið þann skýlausa vilja Alþ., sem hér var um að ræða, og skýlaus orð l. um þetta. — Í annan stað vill þessi hv. þm., og mér skilst n. öll, halda því fram, að það væri lagabrot að veita einu sinni lán til fiskibáta, sem eru dekklausir, til svo kallaðra trillubáta. En í l. er ekkert orð um þetta. Það er ekkert orð í l. um stærð þessara skipa, heldur aðeins svo til tekið, að fé það, sem veitt er úr framkvæmdasjóði ríkisins til smíði fiskiskipa, skuli fara svo og svo með. En allir menn vita, að hér á landi eru smíðuð fiskiskip af ýmsum stærðum. Og það eru hafnarskilyrðin, sem ásamt fiskimiðunum ákveða að mestu, hvaða stærð skipa er heppilegast að nota á hverjum stað. Þessi hafnlausa strönd, sem hér er á löngum svæðum, útheimtir það, að fiskimenn verða víða að setja skip sín á land eftir hvern róður, nema um hásumarið, og af þeim ástæðum eru menn neyddir til þess að byggja smá fiskiskip, til þess að geta hagnýtt fiskimiðin, sem þeir búa við. Og það hefur aldrei verið tilgangur hæstv. Alþ. að útiloka þessa fiskimenn frá því að fá styrk til bátabygginga, því að það væri hið sama og að segja, að sá maður, sem minnst hefði til hnífs og skeiðar, skuli ekki vera styrktur til þess að draga fram lífið, heldur þeir, sem betri skilyrði hafa til að bjarga sér. Enda hefur hv. þm. Barð. ekki reynt að vitna með einu orði í l. til sönnunar því, að það væri lagabrot að styrkja menn til byggingar smáskipa.

Hv. þm. hefur ekki heldur getað vitnað í eitt einasta orð í l., sem hnígi í þá átt, að það sé lagabrot. Þeir, sem fá styrkinn eða lánið, eiga að gefa efnahagsskýrslu. Ætlast hv. þm. til þess, að nokkur maður trúi því, að maður, sem á opinn vélbát, sé alveg óhæfur til þess að gefa efnahagsskýrslu? Svona rök eru ekki þinghæf.

Ég veit það vel, að þetta fé mun vera of lítið til þess að fullnægja öllum beiðnum, en þá ætlast l. til þess, að þeir njóti hjálparinnar, sem mest eru hjálparþurfi, þau skip, sem hæf eru til fiskveiða, eins og hv. 6. landsk. tók fram. En hvaða skip eru það þá, sem eru óhentug til fiskveiða við landið? Ekki er hægt að segja, að opnu vélbátarnir séu óhentugir þar, sem engu öðru skipi verður við komið. Ég get sagt hv. þm., ef hann veit það ekki, hvaða skip eru óhentug til fiskveiða við Ísland. Það eru skip, sem aldrei er hægt að nota meira en 2–3 mánuði á ári, og það eru þessi skip, sem n. er að styrkja. Skip, sem eru af þessari meiri Svíþjóðar stærð, 80 tonn, verða aldrei notuð til fiskveiða nema yfir síldveiðitímann, nema af mönnum, sem ætla að sigla í strand fjárhagslega. Það er ekki hægt að nota þau til línuveiða, og þau eru ekki hæf til utanlandssiglinga. Þau eru aðeins hæf til síldveiða. Og það er komið inn í höfuðið á flestum, nema þessari n., að þessi skipastærð er óhentug.

Nú hefur því verið yfir lýst, að búið sé að skipta þessu fé að mestu leyti upp. Það vill svo vel til, að ef styrktir eru opnir vélbátar, þá getur það komið að gagni jafnvel tugum báta, sem ekki mundi nægja nema einum stórum báti. Og þess vegna er hægt að liðsinna 10–20 mönnum fyrir styrk, sem aðeins mundi nægja einum þessara stóru báta. En það er rétt að taka það fram, að þó að það beri að lyfta undir það, að menn noti sem stórvirkust tæki, þar sem því verður við komið, þá er svo háttað víða við landið, að fjarðarfiskimið eru auðveldust til sóknar á ódýran hátt á þessum smábátum, en fiskurinn verður ekki tekinn af þeim, svo að kostnaði svari, með stórum skipum. Svo að þessi útgerð er ekki úrelt að öllu leyti, — því fer fjarri.

N. ber fjárþröng við, en á það hefur verið bent, að hægt sé að endurnýja fjárveitingu í sama skyni, ef fé er fyrir hendi. Í upphafi l. frá 10. marz 1994 segir: „Fé það, sem veitt er úr Framkvæmdasjóði ríkisins til smíða fiskiskipa“ o. s. frv. Þetta fé verður áfram starfandi í sama skyni. Og ég geri ráð fyrir því, að þessi n. eða eftirn. hennar, ef þessi n. skyldi hrökklast frá, hafi þetta fé til umráða, og þess vegna er þetta ekki frambærileg ástæða.