02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í D-deild Alþingistíðinda. (5911)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég álít, að hér sé um að ræða principmál, og það sé rétt, að Alþ. geri sér ljóst, að hverju það ætlar að stefna í þessu efni og hvaða stærð á fiskiflotanum er heppilegust og hagkvæmust þjóðarheildinni. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að tryggja það, að hver maður fái vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur og þau tæki, sem aflað verður, verði afkastameiri en þau, sem áður voru notuð. Það á að tryggja sjómönnunum betri kjör en þeir höfðu fyrir styrjöldina. Skilyrðin fyrir þessu eru þau, að afköstin verði meiri en þau voru, og það hlýtur að verða hið fyrsta, sem Alþ. gerir, að stefna að auknum afköstum. Og nú er spursmálið: Hvað vill Alþ. gera til þess, að afköst hvers fiskimanns verði meiri — og það miklu meiri — en þau hafa verið? Út frá því sjónarmiði á að athuga þetta mál.

Árið 1900 eru 10 þús. manns starfandi á fiskiflotanum, og meðalafli á mann á ári er um 3½ tonn. Nú munu vera um 6 þús. manns á fiskiflotanum, en meðalafli á mann af síld og þorski mun vera 70–80 tonn.

Þetta liggur í hinni stórfelldu vélabyltingu, sem átt hefur sér stað í þessum atvinnuvegi. Þetta ætti öllum hv. þm. að vera vitanlegt.

Nú er spurningin: Ættum við nú að nema staðar, eða eigum við að halda áfram að bæta flotann? Eigum við að fá stærri og betri skip, eða eigum við að minnka flotann, — jafnvel gera ráð fyrir því að byggja opna smábáta?

Ég er ekkert undrandi á því, að form. þingfl. Framsfl. er hér flm.till., sem miðar aftur á bak í þessum efnum. Það er eðlileg pólitík framsóknarmanna í sjávarútvegsmálum. Þeir hafa alltaf viljað hindra þróun sjávarútvegsins og einatt hamrað á því að hækka kaup þeirra, sem að honum vinna.

En það er á móti anda þeirra laga, sem um þetta voru sett, að veita milljónir króna til byggingar trillubáta, og það er á móti stefnu ríkisstjórnarinnar. En það er í samræmi við þann fjandskap, sem Framsfl. hefur alltaf sýnt sjávarútveginum. Það er augljóst, að sjómenn yfirleitt eru þessa ekki fýsandi, þeir vilja auðvitað róa á þeim bátum, sem gefa mest af sér, og vilji þeir eignast hlut í bát, þá vilja þeir að sjálfsögðu þann bátinn, sem beztur er.

Hvernig ætli hafi staðið á því, að árið 1900 réru 7000 manns á árabátum? Það var af því, að þá höfðu menn hvorki efni né þekkingu til að eignast og starfrækja stærri báta. Og hvers vegna fóru menn að nota trillubátana? Þeir voru kreppufyrirbrigði, sem stafaði af því, að menn höfðu ekki efni á að afla sér stærri báta.

Nú vill hv. 2. þm. S.-M. slá því föstu, að þessu kreppufyrirbrigði skuli haldið við, og vill neyða þá nefnd, sem hefur kynnt sér þessi mál, til að breyta um stefnu og halda við því fyrirkomulagi, sem skapaðist af fátækt, neyð og kreppu, en fyrirbyggja það, að sjómenn geti eignazt stærri og betri báta. Ég hef undanfarið átt tal við þá menn, sem vilja byggja báta, og það er ekki einn einasti, sem vill trillubáta, og þeir, sem hafa hugsað sér að láta byggja 25 tonna báta, eru yfirleitt horfnir að því að hafa þá stærri, og þetta eru menn frá stöðum, sem voru að veslast upp úr eymd í stjórnartíð framsóknarmanna. Þeir vita, að stóru bátarnir gefa meira í aðra hönd og það er hægt að nota þá til allra tegunda fiskveiða. Og þeir láta sér ekki detta í hug opna vélbáta. En á sama tíma kemur fram hér á Alþ. till., sem miðar að því að stefna allri þróun í þessum málum aftur á bak og knýja þær opinberu n., sem hafa kynnt sér, hvað er heppilegast, og eiga að sjá um útvegun tækjanna, til að verja svo og svo miklu fé til kaupa á opnum vélbátum, þótt þær ástæður, sem neyddu menn til að byggja þessa báta, séu ekki lengur fyrir hendi.

Frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar er það skylda að láta byggja stóra báta. Nú kunna einhverjir að segja: Er ekki svo mikið fé til, að það munar ekki miklu, þótt þeir, sem vilja litlu bátana, fái þá? Það er ekki svo mikið fé til, að það megi skipta því þannig. Áhuginn er svo mikill fyrir að fá stóra báta, að það fé, sem til er, hrekkur ekki. Og þeir styrkir, sem hafa verið veittir, hrökkva skammt til að láta byggja 200–250 tonna skip, að ég ekki nefni togaraflotann.

Ég er ekki nærri búinn, en er fús til að fresta því, sem eftir er, þangað til síðar. (Frh.).