28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (5923)

293. mál, hækkun framlags til nokkurra skóla

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Með þeirri till., sem ég flyt á þskj. 1230 ásamt hv. 8. þm. Reykv. og hv. þm. N-Ísf., er lagt til, að greidd verði úr ríkissjóði sú hækkun, sem verður á launum skólastjóra og kennara við húmæðra- og héraðsskóla við gildistöku l. um laun starfsmanna ríkisins. Enn fremur, að ríkissjóður greiði hluta þeirrar hækkunar, sem verður á launum við gagnfræðaskóla, þegar launal. ganga í gildi.

Það er sýnt, að þessir skólar geta ekki starfað áfram nema þeir fái á þennan hátt aukið framlag úr ríkissjóði. Það er þannig með héraðs- og húsmæðraskóla, að þeir hafa ákveðinn styrk úr ríkissjóði, sem er miðaður við nemendafjölda. Annan styrk hafa þeir ekki, nema lítilfjörleg skólagjöld, sem eru lögákveðin. Hins vegar mun mikil hækkun verða á launum starfsmannanna, þegar hin nýju launal. ganga í gildi, og það er ekki hægt fyrir þessa skóla að standa undir þeirri hækkun, nema þeir fái til þess stuðning.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. Ég vonast til þess, að öllum þm. sé ljóst, hvað hér er á ferðinni, og mælist til þess við hæstv. forseta, að hann strax að lokinni þessari umr. vísi málinu til síðari umr. og fjvn., í trausti þess, að n. afgr. það svo fljótt, að síðari umr. geti farið fram, áður en þinginu lýkur.