04.09.1944
Sameinað þing: 38. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (5930)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Þann 25. maí 1942 var kosin mþn. til að athuga um breyt. á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, sem gera þurfti til þess, að þeirri skipulagsbreyt. yrði komið í framkvæmd, að Ísland yrði lýðveldi. Þetta var gert í sambandi við breyt., sem þá var á ferðinni og var sérstaklega viðvíkjandi kjördæmaskipun landsins. Síðar á sama ári, eftir að stjórnarskrárbreyt. þessari, sem gerð var sérstaklega á kjördæmaskipuninni, hafði verið siglt í höfn, og einnig gerðar stjórnarskrárbreyt., sem gerðu að verkum, að hægt væri án nýrra kosninga að breyta stjórnarskránni á þá lund, að lýðveldi kæmi í stað konungsstjórnar, var endurskipulögð sú n., sem áður hafði verið kosin til þess að athuga stjórnarskrána, og bætt við hana þremur mönnum, þannig að hver þeirra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa á á Alþingi, átti þar tvo menn. Þá fékk þessi n. aukið verkefni, það, að þegar lokið væri þeirri stjórnarskrárbreyt., sem óhjákvæmilega stóð í sambandi við stofnun lýðveldis á Íslandi, skyldi n. þessi taka til athugunar gagngerðar breyt. á stjórnarskrá landsins.

Þessi n. hefur nú lokið fyrri þætti starfs síns, eins og hv. þingheimi er kunnugt, þar sem nú þegar hefur náð fullu gildi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Er þá eftir sá þáttur að athuga og endurskoða stjórnarskrána í heild.

Ég ætla, að það sé engum vafa bundið, að á því sé mikil þörf og nauðsyn að endurskoða stjórnarskrá Íslands, þó að á henni hafi verið gerðar allmiklar breyt. frá því, að hún var sett fyrir 70 árum. Stjórnarskráin frá 1874 var ekki sett með líkum hætti og stjórnarskrár fullvalda ríkja eru settar. Hún var ekki afgr. eftir frumkvæði Alþ. eða þjóðarinnar sjálfrar, heldur var hún gefin Íslendingum, eins og það var orðað, af konungi Dana, en samkvæmt grundvallarl. Dana frá 1871 taldist Ísland óaðskiljanlegur hluti Danaveldis, þó að Íslendingar vildu ekki við það fyrirmæli kannast eða teldu sig við það bundna. En þó að stjórnarskráin 1874 sé til komin með þeim hætti, að frjáls og fullvalda þjóð getur ekki við unað eða við búið, ef aðstaða fæst til að gera þar breyt. á, og þó að á þessum 70 árum, sem liðin eru, síðan konungur gaf Íslendingum stjórnarskrána frá 1874, hafi verið gerðar á henni nokkrar breyt., þá eru þær allar þess eðlis, að þær eru smávægilegar í sjálfu sér, þegar miðað er við heildarstjórnarskrána, þó að margar þeirra séu þýðingarmiklar fyrir íslenzkt þjóðlíf. Gerðar voru nauðsynlegar breyt., þegar ráðh. fluttist inn í landið 1904. Það var gerð breyt., þegar konum var veitt jafnrétti við karla 1915. Það var gerð breyt., eftir að sambandslagasáttmálinn frá 1918 öðlaðist gildi. Það var gerð stjórnarskrárbreyt. 1933–34 í sambandi við breyt. á kjördæmaskipuninni, og það var gerð stjórnarskrárbreyt. árið 1942, enn til breyt. á kjördæmaskipun landsins, og þá einnig á sama ári til þess að heimila þá miklu breyt. á stjórnarskrá Íslands án nýrra kosninga, að Ísland var gert að lýðveldi.

Allar þessar breyt. eiga það sameiginlegt, að hver þeirra var gerð út af fyrir sig og snerti eitt atriði tiltölulega takmarkað eins og kjördæmaskipun landsins, sem var knúin fram í sambandi við þá atburði, sem gerzt höfðu áður en stjórnarskipunarl. komu til framkvæmda. Á þessum 70 árum, sem liðin eru, frá því að okkur var gefin stjórnarskráin 1874, hefur því ekki farið fram nein allsherjar ýtarleg endurskoðun á stjórnarskránni, og mætti því ætla, að nú væri tími til þess kominn, eftir að það skipulag er á orðið, að Ísland er orðið lýðveldi, en stjórnarskrá okkar á í mörgum höfuðatriðum rætur sínar að rekja til erlends konungsvalds, sem gaf okkur stjórnarskrána á sínum tíma. Ég held því, að þær stjórnarskrárbreyt., sem gerðar hafa verið á þessum 70 árum, þó að þær standi í sambandi við merkilega atburði í íslenzku stjórnmálalífi, hafi ekki raskað því, að hin gamla beinagrind frá 1874, sú beinagrind, sem átti rætur sínar að rekja til grundvallarl. dönsku sem fyrirmyndar að svo miklu leyti sem við átti, en þau áttu rætur sínar að rekja til stjórnarskráa annarra landa á meginlandi Evrópu, er nú æðimikið úrelt orðin. Ég held því, að ekki geti verið vafamál, að þær bætur, sem settar hafa verið á þetta gamla fat, sem er stjórnarskráin frá 1874, þurfi að athugast og sníða verði um stakkinn allan á ný.

Eins og ég drap á áðan, hafa sum ríki sínar stjórnarskrár um aldaraðir lítið breyttar í höfuðatriðunum. En þá eiga þær stjórnarskrár rætur sínar að rekja til ákvarðana fullvalda þjóða, sem sjálfar hafa sett sér stjórnarskrá, er þær stofnuðu sjálfstæð ríki eða voru að endurskipuleggja stjórnarfar sitt fullvalda á allan hátt. T. d. má benda á stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem er í höfuðatriðunum jafngömul Bandaríkjunum. Sá er munurinn á henni og stjórnarskrá okkar frá 1874, að þeirra stjórnarskrá er sett af þjóðþingi þeirra með miklum undirbúningi og nákvæmri athugun sérfróðra manna, sem voru að mynda sitt merkilega nýja ríki í vesturálfu heims.

Við getum því slegið föstu, enda var því slegið föstu með samþykkt Alþingis 8. sept. 1942, að þörf sé á að láta fara fram gagngerða endurskoðun á stjórnarskránni.

Kem ég þá að því atriði, hvernig þessi endurskoðun verði bezt og hentuglegast framkvæmd, á þann hátt að hún gæti verið í sem beztu samræmi við þjóðarviljann og hag og óskir íslenzku þjóðarinnar sem sjálfstæðs lýðveldis og einnig að hún gæti komizt í framkvæmd svo fljótt sem möguleikar frekast leyfa. Nú höfum við þar til átta manna n., skipaða tveimur þm. úr hverjum þingflokkanna. Vil ég sem einn af þessum áttmenningum sízt draga í efa, að n. sé vel skipuð svo langt sem hún nær. Þar er um að ræða menn, sem hafa mörg skilyrði til að koma fram með merkilegar breyt. og athuganir í sambandi við hina nýju stjórnarskrá. En það er víst, að ef á að ná því takmarki, sem ég held, að þjóðin vænti og óski eftir, að þessari endurskoðun verði hraðað sem allra mest, í öðru lagi, að ef þar eiga að koma til greina sem flest sjónarmið, og í þriðja lagi, að ef þar eiga að koma einnig til greina þær nýju stefnur og straumar, sem kunna að vera að brjóta um sig í heiminum, þar á meðal í okkar litla útskeri, þá er nauðsyn að athuga, hvort þessum tilgangi muni verða náð með starfi þessarar átta manna n., sem nú hefur málið með höndum.

Hvað snertir fyrsta atriðið, hraðann í endurskoðuninni, þá höfum við áttmenningarnir allir miklum störfum að gegna. Störf okkar verða vegna þingsetu og þeirra annarra skyldustarfa, sem hver okkar um sig hefur með höndum, á þann veg, að störfin í n. verða mjög mikið aukastörf. Hraðinn í endurskoðuninni verður því tæplega nógur með starfi þeirra 8 manna n., sem um þetta fjallar, jafnvel þótt n. muni leggja sig alla fram, eftir því sem aðstæður nm. leyfa.

Annað atriðið er það, hvort sem flest sjónarmið gætu komið til greina í átta manna n., sem nú hefur málið með höndum. Að vísu er það, að áttmenningarnir eru valdir af þeim fulltrúum þjóðarinnar, sem sæti eiga á Alþ., en það er áreiðanlegt, að þessir menn, sem sitja á Alþ., hafa ekki fyrst og fremst verið valdir með tilliti til þess, hvaða skoðun þeir hefðu á, hvernig ætti að búa þjóðinni ný stjórnskipunarl.

Í sambandi við skilnaðarmálið sjálft og þjóðaratkvæðagreiðslu stjórnarskrárinnar var rætt um það víða um land, að þjóðin vildi gjarnan verða með í ráðum um setningu hinna nýju stjórnskipunarl., en það gæti hún miklu síður, ef aðeins væri lagt fyrir hana frv., sem samþ. hefði verið á Alþ. Út frá því kom hugmynd, sem áreiðanlega hefur átt sér allmikið fylgi fyrr og síðar í öllum stjórnmálaflokkum, að saman yrði kallaður þjóðfundur til að setja þjóðinni ný stjórnskipunarl. Þessar óánægjuraddir í sambandi við lýðveldisstjórnarskrána sýndu, að þjóðin vildi beint eða óbeint meira höndum um fjalla þau stjórnskipunarl., sem setja átti síðar og átta manna nefndin hefur unnið að nú um nokkurt skeið.

Þegar þessa tvenns er gætt, nauðsynjarinnar á að framkvæma þetta sem fyrst og í öðru lagi nauðsynjarinnar á því, að sem flest sjónarmið á vilja þjóðarinnar geti komið til álita, þá held ég, að því verði ekki fullkomlega fullnægt með hinu ágæta starfi átta manna n., heldur þurfi þar við að bæta, ef vel á að fara.

Þess vegna höfum við fulltrúar Alþfl. á Alþ. flutt þáltill. þá, sem fyrir liggur á þskj. 254. Við gerum ekki ráð fyrir, að átta manna n. hætti þar með því starfi, sem hún á að vinna samkvæmt ákvörðunum Alþ., heldur verði bætt við vissum fjölda manna með hliðsjón af því, sem rætt er um í till. og nánar er gerð grein fyrir í grg. Í niðurlagi l. málsgr. till. stendur, að menn þessir skuli valdir með hliðsjón af þekkingu þeirra á stjórnskipunarfræði og þekkingu þeirra á l., þörfum og óskum sem flestra í landinu. Ég vil benda á, að orðið „lögum“ er prentvilla, þar á að standa „högum“, eins og sést, þegar grg. er lesin með athygli. Út frá þessari hugsun álítum við nauðsynlegt að bæta við allálitlegum hópi manna til samstarfs við átta manna n.

Þá kom til álita, hvernig ætti að velja þessa menn. Var þar komið að atriði, sem er mjög vandasamt, því að það hlýtur að vera mikill vandi að velja þessa menn svo, að settum tilgangi verði náð. Eftir ýtarlegar athuganir var hnigið að því ráði að leggja til, að þessir 10 menn væru tilnefndir af hæstarétti, og er nokkru nánari grein gerð fyrir því í grg. Þar er m. a. bent á, að þegar velja á óvilhalla og hæfa menn, þá er samkvæmt almennum reglum landslaga ekki hvað sízt snúið sér til dómstólanna, og þegar mest á ríður í dómsúrskurðum, mati eða álitsgerð, þá er hæstiréttur fenginn til að tilnefna mennina. Hæstiréttur ætti því að vera allra aðila bezt fær um að velja óvilhalla menn og fullnægja tilgangi okkar.

Eins og vikið er að í grg., datt okkur í hug, að ástæða gæti verið til, að heildarsamtök ýmis í landinu ættu fulltrúa í n. En við athugun á því máli sáum við fram á, að samtök þessi voru svo mörg og svo örðugt að gera upp á milli þeirra eða ákveða um fulltrúafjöldann, er þau skyldu velja, að málið yrði mjög vandmeðfarið, og hurfum við frá þessu. En að sjálfsögðu erum við tilbúnir að ræða um þetta við aðra þm. og flokka, ef leið fyndist til að skipa þessu á æskilegri hátt en í þáltill.

Rétt áður en þingið var nú kallað til funda að nýju, fór forseti Sþ. (GSv) fram á það við 8 manna nefndina, að hún tæki til starfa með eins miklum hraða og unnt væri. En í 8 manna n. varð það ofan á, að um störf hennar væri enga áætlun hægt að gera, fyrr en séð væri, hvernig Alþingi tæki þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir. Þess vegna væri æskilegt, að allshn. Sþ., sem ég vænti að fái till. til meðferðar að lokinni umr., afgreiddi hana mjög fljótlega. Þingið mun standa alllengi, þar sem það þarf að afgreiða fjárl. og ýmis vandasöm mál. Þess er varla að vænta, að þm., sem í 8 manna n. eru, geti samfara þingstörfum og mörgu, sem þeir eru bundnir utan hjá, lagt mikla vinnu í þetta verk um þingtímann. Þess vegna er brýn þörf á auknum starfskröftum í n., og höfuðtilgangur okkar er að koma með því stjórnarskránni eins fljótt og vel áleiðis og unnt er, — stuðla að því, að við fáum hana sem fullkomnasta. Ég vænti þess, að till. verði tekið með réttsýni og skilningi. Ég legg til, að henni verði vísað til allshn. Sþ. að lokinni umr.