06.09.1944
Sameinað þing: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (5934)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. og sérstaklega því, sem fram hefur komið um athugun á till. í n. Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til að fara út í þær hugleiðingar hv. 6. þm. Reykv., sem hann lét almennt falla um það, að hann teldi hæstarétt ólíklegustu stofnunina til að tilnefna hæfa menn til að starfa í slíkri n. eins og stjskrn. Og mér kom það dálítið einkennilega fyrir sjónir, að slíkt skyldi frá honum koma sem gömlum varadómara í hæstarétti, sem mjög gott skyn ber á þessi efni. Og ég ætla, að þegar á að tilnefna hæfa og óvilhalla menn, þá höfum við vart aðra stofnun í þjóðfélaginu, sem eigi betur að treysta í því efni heldur en einmitt hæstarétt. En eins og hv. þm. réttilega tók fram, þá er vikið að því í grg. okkar flm., að við værum reiðubúnir að athuga aðrar till., sem fram kynnu að koma um skipun n., og sé ég því ekki ástæðu til að ræða það frekar á þessu stigi.

En út af því, sem fram hefur komið um athugun á till. í n., verð ég að segja, að mér finnst varla geta komið til mála að vísa þessari till. til skilnaðarn. Að sjálfsögðu ekki til stjskrn., því að þær eru tvær og deildanefndir, en hér er um að ræða mál Sþ. Skilnaðarn. var að vísu skipuð sömu mönnum og deildan. um stjskr.málið, sem að gömlum sið unnu saman við athugun málsins. En þó að skilnaðarn. sé n. í Sþ., er hún skipuð í þeim eina tilgangi, eins og nafnið bendir beinlínis til, að athuga fram komnar till. um skilnað Íslands og Danmerkur. Og ég sé ekki, að þetta mál eigi þar heima undir nokkrum kringumstæðum, þó að sú n. sé prýðilega vel skipuð. Vil ég fyrir mitt leyti halda mig við þá till., sem ég gat um í framsöguræðu minni, að till. verði vísað til allshn. Sþ. Ég ætla, að hún sé þannig skipuð, að henni sé fullkomlega treystandi til að fjalla um þetta mál. En mér finnst alveg óformlegt og óeðlilegt að vísa málinu til. n., sem kosin var í annað sérstakt mál og hefur nú þegar lokið þessum takmörkuðu störfum. Mér virðist ekki nema tvennt til: Ef menn treysta ekki allshn. Sþ., þá að kjósa nýja n. Ég álít þess ekki þörf. En ég get ekki fallizt á að vísa málinu til skilnaðarn., svo ankannalegt sem mér finnst það og óeðlilegt að formi og efni til.