06.09.1944
Sameinað þing: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í D-deild Alþingistíðinda. (5935)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Bjarni Benediktsson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort frá formsins sjónarmiði sé á nokkurn hátt varhugavert að vísa þessu máli til skilnaðarn. Ef svo yrði talið, dettur mér ekki í hug að halda fast við þá till. En ég hef litið svo til, að það sé í alla staði heimilt. Ég mun að sjálfsögðu lúta úrskurði hæstv. forseta og beinlínis afturkalla mína till., ef hann teldi nokkuð varhugavert við þetta frá formsins sjónarmiði. Hins vegar sýnist mér þetta mál í beinu framhaldi af þeim störfum, sem þeir sömu menn, sem skilnaðarn. skipuðu, höfðu með höndum á fyrri hluta þessa þings. Og ég vil vekja athygli á því, að einmitt þeir, sem skilnaðarn. skipa, höfðu stjskr. til rækilegrar meðferðar, íhuguðu ýmsa kafla hennar og þá ekki sízt þá, sem sérstaklega eru nú líklegir til að koma til nýrrar endurskoðunar. Þess vegna má telja, að þeir menn séu manna líklegastir til að gera sér skynsamlega grein fyrir, með hverjum hætti endurskoðun stjskr. yrði bezt fyrir komið. Annars getur þetta ekki verið neinum manni kappsmál. En ég stend þó við mína till., nema hæstv. forseti telji hana ekki formlega.

Varðandi aths. hv. flm. um það, að hann undraðist mjög, að ég skyldi telja hæstarétt einna sízta stofnun í landinu til að taka slíka ákvörðun sem í till. er ráðgert, þá er það að vísu rétt, að ef ætlunin væri sú ein að tilnefna óhlutdræga menn og hæfa í þetta starf, þá mætti vel fá hæstarétti þetta. En ég hélt nú um svo — já, æfðan stjórnmálamann, eða er það ekki það, sem það er kallað? — (EystJ: Leikinn!) já, leikinn stjórnmálamann eins og hv. flm. till., að þá vissi hann, að af pólitískum atriðum er ekkert pólitískara til heldur en það, hvernig stjskr. ríkisins eigi að verða fyrir komið. Þetta gildir þá einnig um þá endurskoðun á stjskr., sem fyrir höndum stendur. Og þess vegna er hæstiréttur beinlínis dreginn inn í hinar pólitískustu deilur, sem unnt er, með því að fela honum það vald, sem í till. er ráðgert. Ég hef álitið, að að því bæri að keppa að halda hæstarétti — eins og tekizt hefur á síðari árum — sem mest utan við stjórnmáladeilurnar, í staðinn fyrir að draga hann inn í miðdepil þeirra, þar sem ætla má, að þær verði harðastar, og þar sem mest er undir komið, hverjar ákvarðanir teknar verða. Því megum við ekki blekkja okkur á, að ekkert atriði hefur meiri þýðingu fyrir stjórnmál landsins og verður umdeilanlegra heldur en einmitt það, hvernig stjórnarskipuninni er sjálfri fyrir komið.