05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Ég hefði í sjálfu sér helzt kosið að verja þeim tiltölulega stutta ræðutíma, sem mér er ætlaður, til þess að tala um fjármál ríkisins og þá sérstaklega afgreiðslu fjárl. í þetta sinn. Virðist mér, að þetta væri ekki heldur óeðlilegt, þar sem dagskrármálið er fjárlfrv. Hins vegar var á það bent af ýmsum ræðumönnum í gær, að eldhúsumr. beindust að litlu leyti að fjárl., heldur yrðu þar önnur mál ofar á baugi. Sú gagnrýni, sem fram kom í gær á hendur núv. landsstj., beindist og að mjög litlu leyti að fjárlagaafgreiðslunni, enda þótt nokkuð væri að henni vikið. Ég mun neyddur til að nota ræðutíma minn að miklu leyti til þess að drepa á ýmis atriði, er fram komu í ræðu hv. þm. Str. (HermJ) og beindust að öðrum málefnum en fjárl.

Hv. þm. hóf mál sitt með sagnfræðilegum tilvitnunum. Hann gat þess, að stj., sem mynduð hefði verið 21. okt. s.l., væri í raun réttri ekki annað en arftaki þeirrar stj., sem setið hefði að völdum hér á landi mikinn hluta ársins 1942, eða eins og hann orðaði það, þeirrar óstjórnar, sem þá hefði farið með völd. Hann lýsti því með alldökkum litum, hverjar óhappabrautir sú stj. hefði troðið. Lét hann þess getið, að það hefði verið verk hennar að sleppa dýrtíðinni lausri, og ætti hún meðal annars með því sök á þeim örðugleikum, sem þjóðin væri nú komin í. Taldi hann, að stj. og stjórnarflokkarnir hefðu ekkert lært af þessari reynslu og mundi nú haldið áfram á sömu óhappabrautinni, sem þá hefði verið lagt út á.

Það væri nú vitanlega mál út af fyrir sig að ræða það, hver ógæfa landi og þjóð hefði stafað af aðgerðum stj., er sat að völdum 1942. Það var bent á það í gær, að aðalstarf þeirrar stj. hefði verið að undirbúa stofnun lýðveldis á Íslandi og tryggja þegnunum stjórnarfarslegt jafnrétti. Lítur út fyrir, að hv. þm. Str. finnist ekki mikið til um, hvernig til hefur tekizt um lausn þessara tveggja mikilvægu mála. En þessa hlið málsins ætla ég að leiða algerlega hjá mér, enda á það minnzt af öðrum.

Þegar hv. þm. Str. fór vinsamlegast að benda ríkisstj. á að læra af reynslunni, þá hefði hann vissulega getað farið ofurlítið lengra aftur í tímann en til ársins 1942. Hv. þm. er eldri en tvævetur, og hann man því vafalaust líka lengra aftur í tímann. Hann man það væntanlega, að árið 1934 settist ný stj. á laggirnar á Íslandi, er ekki var skipuð neinum glæframönnum, eins og hv. þm. gaf í skyn um núv. stj., heldur valinkunnum mönnum, sem án efa vildu leysa þau vandamál, sem þeim voru falin, eftir beztu getu. Og forystumaður þessarar stj. og sá, sem mesta ábyrgðina bar á stjórnarathöfnum næstu árin, var einmitt hv. þm. Strandamanna.

Þegar þessi stj. tók við völdum, var nýafstaðin heimskreppa. Í flestum löndum hafði skapazt atvinnuleysi meira og tilfinnanlegra en ef til vill nokkru sinni áður, og höfðu viðskipti dregizt stórkostlega saman. En þegar hér var komið, var viðreisn byrjuð í flestum öðrum löndum, og þau voru að sleppa út úr þeim ógöngum, er heimskreppan hafði komið þeim í.

Ísland hafði eins og önnur lönd átt við ýmiss konar örðugleika að stríða vegna heimskreppunnar á árunum næstu á undan. Atvinnuskortur hafði gert vart við sig í landinu, lágt verð var á útflutningsvörum og sölutregða á ýmsum þeirra, og gjaldeyrisskortur hafði aukizt ár frá ári. Hér var því vissulega við alls konar erfiðleika að etja, sem útheimtu sterk átök, enda skorti þau ekki. Stj. reyndi eftir beztu getu að bæta úr þeim örðugleikum, sem að þjóðfélaginu steðjuðu. Úr atvinnuleysinu var reynt að bæta með fjárframlögum úr ríkissjóði og þá jafnframt krafizt fjárframlaga úr bæjar- og sveitarsjóðum. Atvinnuleysingjarnir voru sendir með skóflu og haka til þess að berja gaddinn og fengu sitt kaup fyrir. Úr erfiðleikum útflutningsins var reynt að bæta með því að láta ríkið hafa sem mest afskipti af atvinnurekstrinum og með því að svipta útflytjendur íslenzkra afurða öllum rétti yfir erlendum gjaldeyri. Óhagstæðum verzlunarjöfnuði var reynt að bæta úr með því að banna innflutning á bókstaflega öllu öðru en brýnustu lífsnauðsynjum, þ. á m., eins og bent var á í gær, að hindra innflutning á skipum.

En þrátt fyrir öll þessi sterku átök stj. í vandamálum þjóðfélagsins vildi lækningin ekki koma. Atvinna dróst stöðugt saman, og gjaldeyrisástandið versnaði ár frá ári. Endaði það með nokkurs konar ríkisgjaldþroti árið 1938, þegar ríkið varð að lýsa yfir því, að það gæti ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar. Þá gafst stj. upp við að leysa þetta verkefni og leitaði á náðir annarra, og þá fyrst voru gerðar ráðstafanir, sem miðuðu að því, að atvinnurekstur landsmanna gæti borið sig og útflutningurinn á þann hátt örvazt. Allan þann tíma voru atvinnuvegir landsmanna bæði til lands og sjávar reknir með halla, og allan þann tíma komu kröfur um lækkað kaup og lækkaðan tilkostnað, en þeim kröfum fékkst aldrei fullnægt; m.a. vegna þess, að verkamenn, sem gátu ekki fengið vinnu meira en 2–3 daga í viku, treystust ekki til að lækka dagkaup sitt.

Ég er nú ekki viss um, að það sé rétt hjá þm. Str., að núv. stj. hafi ekkert lært af reynslunni. Ég held einmitt, að hún hafi gert það, og það eru vítin frá árunum 1934-1939, sem stj. ætlar að reyna að varast. Hún ætlar að reyna að forðast að senda verkamennina hér út í holtin með skóflu og haka, heldur ætlar hún að reyna að senda þá til arðbærrar framleiðslu með fullkomnum atvinnutækjum. Hún ætlar ekki að banna innflutning skipa, véla og annarra nauðsynlegra áhalda. Til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisskort ætlar hún þvert á móti að reyna að fá þessi tæki flutt inn til þess að auka framleiðslu landsmanna og afla þeim á þann hátt nægilegs gjaldeyris, til þess að þeir geti lifað menningarlífi í landi sínu. Hún ætlar ekki að halda uppi atvinnu í landinu með því að níðast á atvinnurekendunum, heldur ætlar hún að styðja þá og heita þeim fulltingi til sérhverra góðra mála.

Hvort stj. tekst þetta, getur hvorki þm. Str. né ég sagt neitt um, en velferð þjóðarinnar er undir því komin, hvort þessu takmarki verði náð, og núv. stj. má vissulega vera þakklát þm. Str. fyrir að hafa sýnt henni vítin, sem ber að varast.

Ég get ekki komizt hjá því að drepa nokkuð á dýrtíðarsöng þm. Str., enda þótt á hann væri nokkuð minnzt af öðrum ræðumönnum í gær og sýnt fram á, að hann fór með algerlega rangt mál, þegar hann sakaði stj. frá 1942 um að hafa gefið dýrtíðinni lausan tauminn. En allur þessi dýrtíðargrátur og allar þessar ásakanir til einstakra manna eða einstakra flokka um, að þeir eigi sökina á dýrtíðinni, er ekkert annað en orðagjálfur, sem hver tekur upp eftir öðrum án þess að hafa gert sér nokkra grein fyrir höfuðatriðum málsins.

Það er að vísu alveg rétt, að dýrtíðin hefur sínar dökku hliðar, og hún á án efa eftir að skapa þjóð vorri ýmiss konar örðugleika, sem vandi verður fram úr að ráða. Þeir örðugleikar eru að mjög litlu leyti komnir fram, en þeir koma án nokkurs efa, jafnskjótt og verðlækkun kemur á útflutningsvörur landsmanna.

En hinu má ekki heldur gleyma, að dýrtíðin hefur haft sínar björtu hliðar. Dýrtíðin hefur sem sé verið notuð beinlínis sem miðill til þess að dreifa stríðsgróðanum meðal landsmanna, og hefur hún á þann hátt orðið áhrifamikil til þess að jafna á milli tekna þjóðfélagsstéttanna.

Heldur t.d. þm. Str., að búið væri að borga upp kreppulánin, ef kjötverðið hefði aldrei farið upp úr kr. 1.40 og mjólkin aldrei upp úr kr. 0.50? Eða heldur hann, að sparisjóðsinnstæða sumra sparisjóðanna hefði næstum því tífaldazt á 4 árum, ef sama verðlag hefði verið á landbúnaðarafurðum og var árið 1939? Eða heldur hann, að verkamenn í kaupstöðum og sjávarplássum hefðu bætt kjör sín, svo sem raun er á, ef þeir hefðu aldrei fengið hærra kaup en kr. 1.45 um klst.? Svo mætti lengi telja.

Þm. Str., sem hefur talið sig sérstakan fulltrúa hinna vinnandi stétta, hlýtur að fagna því, að þessi breyt. hefur á orðið, og hann verður því að þessu leyti að láta dýrtíðina njóta sannmælis. En einmitt af þessum sömu ástæðum eru það líka alger rangmæli, þegar verið er að saka einstöku menn eða félög um vöxt eða viðhald dýrtíðarinnar.

Dýrtíðin hefur fengið að vaxa og fengið að haldast, af því að stærstu stéttir þjóðfélagsins hafa viljað halda henni. Verkamenn hafa viljað það, bændur hafa viljað það, og verzlunarstéttin hefur yfirleitt viljað það, og þegar þessa er gætt, þarf engan að undra, þótt lítið hafi orðið úr framkvæmdum um stöðvun dýrtíðarinnar.

Ég skal þá næst víkja nokkuð að því, sem hv. þm. Str. sagði um afgreiðslu fjárlfrv. og fjármál landsins að öðru leyti. Get ég vel tekið undir ýmislegt af því, sem hann sagði um þessi efni. Það er t.d. alveg rétt hjá honum, að meðferð fjármálanna er aldrei vandameiri en þegar dýrtíð og verðbólga steðja að, og það er einnig rétt, að fjárhagur ríkissjóðs er að komast í öngþveiti. Rekstrargjöld ríkisins hafa á síðustu árum vaxið mjög ört og í allt öðrum hlutföllum en dýrtíðarvísitalan. Þetta er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt.

Ég hef gert samanburð á fjárl. ársins 1940 og fjárlfrv. fyrir 1945, eins og vænta má, að það verði, ef brtt. hv. fjvn. verða samþ. Kemur í ljós við þann samanburð, að allir útgjaldaliðirnir, sem nokkru máli skipta, hafa minnst þrefaldazt, margir hafa fimmfaldazt og nokkrir tífaldazt. En það er að sjálfsögðu fjarstæða að saka núv. ríkisstj. um þá hækkun, sem orðið hefur á útgjöldum ríkisins á umliðnum árum. Þarf engin rök fyrir því að færa. Ég tel í raun réttri ekki heldur réttmætt að ásaka fyrrv. stj. um það, sem aflaga hefur farið í þessum efnum. Það er engum efa undirorpið, að hún lét sér annt um að halda fjárhag ríkisins í góðu horfi. En hún fékk bara við ekkert ráðið. Meinsemdin lá í stjórnarfarinu, sem ríkti hér á þessum árum. Gersamlegur skortur á samvinnu milli þings og stj. hlaut að leiða til ófarnaðar í þessum efnum. Afgreiðsla fjárl. mátti heita undir hendingu komin og þá ekki von, að vel færi.

Afgreiðsla fjárl. hefur sætt nokkurri gagnrýni, bæði að því er snertir hækkun á tekjuáætlun og hækkun útgjalda. Um tekjuáætlun er það að segja, að ríkisstj. hefur staðið að nokkurri hækkun á henni. Hefur þar einkum þótt orka tvímælis um hækkun á áætluðum tekjuafgangi áfengisverzlunar. Að því er ætla má, verður hagnaður áfengisverzlunar á þessu ári um 27 millj. kr. Á næsta ári er hagnaður áætlaður 20 millj. eða tæpl. 25% lægri en á yfirstandandi ári. Mér er það fullljóst, að fyrir fram er mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hvers vænta megi í þessum efnum. En sýnilegt er, að áfengisnotkun mætti minnka til mikilla muna, til þess að áætlunin fengi eigi staðizt. Aðrir tekjuliðir hafa ekki svo að ég viti til sætt verulegri gagnrýni.

Þá hefur stj. verið sökuð um að hafa staðið að útgjaldahækkun á fjárlfrv. Vitanlega er það alveg rétt, að margar hækkunartill. eru fram bornar, ýmist að ósk stj. eða með samþykki hennar. Sumar af þessum hækkunum eru á áætlunarliðum, svo sem vantalin verðlagsuppbót, hækkun á landhelgisgæzlu o.fl. Hér er um hreinar lagfæringar að ræða, og geta þær með engu móti talizt stj. til ávirðinga. Aðrar hækkanir, sem stj. stendur að, eru framlög til skóla og sjúkrahúsa. Að miklu leyti er þar um að ræða framlög til bygginga, sem þegar er byrjað á og verður því að fullgera, ef eigi á að sóa fjármunum í stórum stíl. Ég hygg, að erfitt muni að benda á hækkanir, sem stj. hafi staðið að, aðrar en þær, sem óhjákvæmilegar mega teljast. Hitt er annað mál, að stj. hefði getað beitt sér fyrir meiri niðurskurði. Fjárveiting til vega hefur verið látin afskiptalaus af mér, en það skal játað, að eins og þeim málum horfir við, er vafamál, hvort réttmætt er að leggja svo mikið fé fram til vegagerðar sem nú er gert ráð fyrir í till. fjvn. Segi ég þetta ekki af því, að mér sé ekki ljós þörfin fyrir bættar samgöngur, heldur af því, að ekki er víst, að nóg verði til af nauðsynlegum tækjum til að koma vegavinnuframkvæmdum í sæmilegt horf. Það getur beinlínis orðið til að tefja vegagerðina að leggja til hennar mikið fé, meðan tækin vantar. Þetta verður allt að athuga nánar fyrir 3. umr. og þá um leið að taka til athugunar, hvort stj. ætti að fá heimild til að draga úr eyðslu, eins og stundum hefur verið gert áður, ef tekjurnar bregðast eða aðrar ástæður réttlæta það.

Hv. þm. Str. gerði mikið úr, hvað tekjuhallinn væri mikill. Hann sagði 40 millj. Það er ekki rétt. Eins og fjvn. gengur frá frv. eru tekjurnar 99 millj., rekstrarútgjöld 96:6 millj., útborganir 106.5 millj., en innborganir 100.9 millj. Hitt er rétt, að það er eftir að bæta ýmsum liðum inn á fjárl., sem ekki er hægt að komast hjá.

Það var ekki laust við, að það hlakkaði dálítið í hv. þm., þegar hann minntist á skattalöggjöfina. Það lái ég honum í sjálfu sér ekki. Ég hef meira en margir aðrir og kannske meira en flestir aðrir gagnrýnt þá stefnu, sem ríkt hefur hér á landi í skattamálunum, og það er því í sjálfu sér ekki undarlegt, þótt pólitískur andstæðingur unni mér þess nú að glíma við verkefnið sjálfur og skemmti sér við að bera saman orð og efndir. Það er vitanlega ekkert gleðiefni fyrir mig að láta það verða nokkurn veginn mitt fyrsta verk sem fjmrh. að bera fram till. um hækkaða skatta.

Hv. þm. spurði mig, hvernig ég ætlaði að afla nauðsynlegra tekna. Hann mun fá svar við því, áður en langt um líður, en nú þegar get ég sagt honum, að ég ætla ekki að hafa þá, aðferð, sem hann hefur haft í skattatill. sínum. Ég ætla ekki, að koma með brugðinn brand að skattgreiðendum og segja við þá: Nú skal ykkur refsað fyrir það, að þið hafið ekki eytt öllu, sem þið hafið aflað, — en það hefur hv. þm. gert og það þótt ekki væri hægt að benda á neina brýna þörf ríkissjóðs fyrir tekjur.

Hins vegar er ég ekki mjög hræddur við að koma til skattgreiðendanna og segja við þá: Viljið þið láta af hendi bróðurpart af tekjum ykkar eitt ár eða kannske tvö, vegna þess að verið er að gera tilraun til þess að efla atvinnulíf í landinu, vegna þess að verið er að reyna að fá fleiri breið bök, sem skattarnir í framtíðinni verði lagðir á?

Ég get sagt hv. þm. það, að ég er ekki mjög hræddur um, að allur þorri skattgreiðenda skilji ekki þessa aðstöðu. Þeir vita það, að eins og málum er komið, er ekki unnt að komast hjá þungum skattaálögum. Þeir vita það, að skattal. eru ekki borin fram af illvilja til athafnamanna, heldur til þess að gera þeim kleift að halda í framtíðinni uppi heilbrigðu atvinnulífi, og hv. þm. má vita það, að mönnum er ljúfara að láta fjármuni sína af höndum, þegar þeim er varið í alþjóðarþarfir, heldur en þegar þeir ganga til bitlinga og í ýmiss konar vafasöm fyrirtæki. Þótt mér sé ekki ljúft að þurfa að bera fram till. um nýjar skattaálögur, þá er ég ekki alveg viss um, að hv. þm. hafi þá gleði af þeim málum, sem hann gerir sér vonir um.

Ég hef nú drepið á flest þau mál, sem voru höfuðuppistaðan í ræðu hv. þm. Str. í gær. Hann vék að vísu aðeins að atvinnumálum landsins, og brá nú svo undarlega við, að hann virtist aðallega bera hagsmuni sjómanna fyrir brjósti. Óttaðist hann mjög, að þeir yrðu fyrir borð bornir. Að þessum áhyggjum þm. hefur verið vikið af öðrum ræðumönnum, og skal ég því leiða þær hjá mér.

En til þess að landbúnaðurinn fengi þó sitt, nefndi þm. eitt mál, er segja má, að varði hann sérstaklega. Var það hin fyrirhugaða áburðarverksmiðja. Taldi þm. það mál óvenjulega vel undirbúið, hefði meira að segja verið athugað af erl. sérfræðingi og mundi vera hið mesta hagsmunamál fyrir sveitir og sjávarþorp. — Ég verð nú að segja eins og er, að ég gruna hv. þm. um, að hann hafi aldrei séð þau gögn, sem fylgja þessu verksmiðjumáli.

Ég hef gert mér talsvert far um að kynna mér þetta mál, en verð að játa, að ég er nokkurn veginn jafnnær eftir þá athugun. Ég hef séð, að ætlazt er til, að framleitt verði í þessari verksmiðju sprengiefni, sem talið er, að nota megi sem áburð. Hér á landi hefur þessi áburður aldrei verið reyndur og að því er mér er sagt, hvergi á, Norðurlöndum. Að því er virðist, eru talsverð vandkvæði á geymslu hans, og ef eitthvað ber út af um hana, þá hleypur áburðurinn í hellu og verður gersamlega ónothæfur. Um kostnaðarhliðina er það að segja, að ráð virðist vera gert fyrir því, að svo framarlega sem ríkið leggur fram allan stofnkostnað óendurkræfan, muni unnt að selja áburðinn líku verði og útlendan áburð með því verði, sem nú er á honum. Að þessu öllu athuguðu má hver lá stj. það, sem vill, þótt hún vilji láta athuga þetta mál eitthvað nánar, áður en farið er að gera ráðstafanir til að reisa verksmiðjuna. En annað eða meira hefur eigi verið farið fram á. Það skyldi aldrei vera, að hv. þm. Str. sé meira áhugamál um sprengiefnið en áburðinn.

Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um, að mörg verkefnin, sem fram undan liggja, skipta meira máli fyrir ísl. landbúnað en þessi margumtalaða áburðarverksmiðja. Og höfuðvandamálið þar er, á hvern hátt landbúnaðurinn getur tekið tæknina í þjónustu sína. Mér er það alveg ljóst, að landbúnaðurinn, eins og hann er nú víðast rekinn, þolir ekki það kaupgjald, sem nú er í landinu. En hann verður að vera samkeppnisfær í þeim efnum.

Ég ætla hér engan dóm á það að leggja, hvort byggðina eigi að færa saman. Um hitt hef ég aldrei efazt, að landbúnaðurinn verður að blómgast og þróast, ef vel á að vegna. Að mínu viti hefur hið nýstofnaða nýbyggingarráð vandasamt hlutverk að vinna á þessu sviði, og er mikið undir því komið, að vel takist til.

Út af orðum, sem féllu hér í gærkvöld, vildi ég að lokum segja þetta: Ég hygg það á fullkomnum misskilningi byggt, að sveitirnar yfirleitt hafi tekið fjandsamlega þeirri tilraun til nýsköpunar, sem stj. hefur lofað að beita sér fyrir. Þess er fyrst að gæta, að ýmsir ágætir fulltrúar sveitakjördæma standa af heilum huga að stjórnarsamvinnunni. En auk þess þykist ég hafa orðið þess var af samtölum við menn og bréfum, sem ég hef fengið, að mjög margir bændum fagna þessari tilraun og vilja veita henni fullan stuðning. Er það vissulega meira vert en svo, að rétt væri að ýta þeim stuðningi frá sér.

Þá kom mér það og undarlega fyrir, þegar ég heyrði þá ágætu flokksbræður mína hér á þingi, sem eigi hafa lofað stj. stuðningi, talda til andstæðinga hennar. Þeir hafa að vísu lýst yfir því, að þeir hefðu eigi trú á þeirri tilraun, sem hér hefur verið gerð til stjórnarsamvinnu. En það er sitthvað eða vera í stjórnarandstöðu. Og mikils málefnaágreinings hef ég eigi orðið var. Ég tel því, að réttast væri að bíða með að draga þá í nokkurn dilk og sjá, hverju fram vindur.