05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

143. mál, fjárlög 1945

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti, háttvirtu hlustendur. — Það hlýðir að gera nokkra grein fyrir, hver þau þjóðfélagsöfl eru, sem því ollu, að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð. Ef til vill finnst einhverjum orðið þjóðfélagsöfl vera framandi á vettvangi íslenzkra stjórnmála. Þjóðin er vön að heyra talað um flokka. þegar rök stjórnmálanna eru rakin, og töm er sú skoðun, að flokkar standi og falli með einstaklingum, — einum eða sárfáum leiðtogum, — fjöldans sé að elta þá í blindni. En margt hefur verið missagt í stjórnmálafræði þeirri, sem að þjóðinni hefur verið haldið hin síðari ár, en þjóð Ara telur sér ætíð skylt að hafa það, er sannara reynist, og í trausti þess mun ég nú ræða bert um þau þjóðfélagsöfl, sem eru undirstaða atvinnulífsins, framfaranna, lífsafkomunnar, menningarinnar og sjálfstæðisins. — Þessi öfl eru: vinnuafl og fjármagn.

Til þess að gera út bát til fiskveiða þarf fjármagn, peninga til að kaupa bátinn, veiðarfæri og aðrar útgerðarvörur. En ekki er það einhlítt. Vinnuaflið þarf að koma til sögu, áður en haldið er til fiskimiða og sjávaraflinn er orðinn að söluvöru. Hér er aðeins nefnt eitt dæmi, en sérhvert starf, sem innt er af hendi í þjóðfélaginu, krefst samstarfs vinnuafls annars vegar og fjármagns hins vegar. Hvorugt getur án hins verið.

Árangurinn af samstarfi vinnuafls og fjármagns er sköpun arðs, sköpun þeirra verðmæta, er þjóðirnar lifa af.

Í sérhverju auðvaldsþjóðfélagi er þessum verðmætum, — arðinum, — skipt milli tveggja aðila. Vinnuaflið fær nokkurn hluta, það eru laun hinna vinnandi stétta. Fjármagnið fær hinn hlutann, það eru laun og gróði þeirra atvinnurekenda, sem kaupa annarra vinnu.

Um þessa skiptingu eru háð hörð átök í sérhverju frjálsu auðvaldsþjóðfélagi. Þessi átök heita stéttabarátta, og það er hún, sem er hinn eini raunhæfi grundvöllur flokkaskiptingar og stjórnmálabaráttu. Ríkisvaldið er undir öllum kringumstæðum aðili að þessari baráttu. Það leggur sín lóð á metaskálarnar með vinnuaflinu eða með fjármagninu og þó raunar ætíð með fjármagninu, þegar öllu er á botninn hvolft, því að auðvaldsþjóðfélagið er byggt upp sem varnarkerfi fyrir handhafa fjármagnsins, — kapítalistana.

Ég veit, að þetta hljómar framandi í eyrum margra, því að fleiri en einn stjórnmálaflokkur — og þá fyrst og fremst svo kallaður Framsfl. hafa gert það að sínu meginverki að dylja þjóðina þess sannleika; að stéttabaráttan sé hinn raunhæfi grundvöllur stjórnmálabaráttunnar, og einmitt þessi flokkur og þá fyrst og fremst skapari hans og fyrrv. formaður, Jónas Jónsson, hefur talið það sitt meginverkefni að eyða flokki okkar sósíalista, sem afdráttarlaust telur sig flokk stéttabaráttunnar og hiklaust lýsir yfir því stefnumiði, að vinnuaflið fái fjármagnið í þjónustu sína, að hið vinnandi fólk eigi sjálft þau tæki og það fjármagn, sem það þarf til arðmyndunarinnar, það er, að skipulag auðvaldsins verði afnumið og hið stéttlausa skipulag sósíalismans sett þess í stað.

Allir vita, hver orðinn er árangur þessa gereyðingarhernaðar Framsfl. undir forystu Jónasar gegn sósíalistum og staðreyndum stéttabaráttunnar. Það, sem eyðzt hefur í þeim hernaði, er hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson. Það, sem vaxið hefur, er skilningur þjóðarinnar á sannindum sósíalismans og gildi stéttabaráttunnar, og nú er svo málum komið, að þessi eitt sinn alvaldi Jónas reikar um þingsalina sem vofa liðins tíma, og hinn eitt sinn alvaldi Framsfl. skipar nú sjálfur undir duglausri og tvístígandi stjórn brjóstbarna Jónasar, Hermanns og Eysteins, þann utangarðssess, sem hann ætlaði öðrum. — En þetta var útúrdúr, en hann sýnir ef til vill, að rétt hafi verið svarað þeim höggum, sem flokkur hrunsins og afturhaldsins, Framsfl., hefur greitt verkalýðsstéttinni og flokki hennar.

En áður en lengra er haldið þessum hugleiðingum, er rétt að gera grein fyrir, hverjir það eru af þegnum þjóðfélagsins, sem hafa aðstöðu vinnuaflsins í þjóðfélaginu. Það eru verkamenn og sjómenn allir. Það er skrifstofufólk, kennarar og aðrir menntamenn. Það eru framleiðendur við sjó og í sveit, sem reka atvinnu sína að mestu eða öllu með vinnuafli eigin fjölskyldu. — Hins vegar eru þeir, sem hafa afstöðu fjármagnsins. Það eru þeir, sem lifa á að kaupa annarra manna vinnu. Stéttarþjóðfélagi er þannig skipt í hina fjölmennu stétt vinnuaflsins og hina fámennu stétt fjármagnsins. Þess vegna er forsvarsmönnum yfirstéttarinnar svo brýnt að telja þjóðinni trú um, að hún eigi að berjast í mörgum, ólíkum flokkum, trú á marga mismunandi foringja, því að ef stétt vinnuaflsins aðeins vissi, hvað hún er fjölmenn og hvað það er sjálfsagt, að hún komi fram sem einn maður á vettvangi stjórnmálanna, þótt einn rói á sjó, annar erji land, þriðji byggi hús, fjórði skrifi bækur o.s.frv., þá væri engin stéttaskipting og ekkert auðvaldsþjóðfélag til.

Ef við nú lítum yfir þau fimm ár, sem hin ægilega heimsstyrjöld hefur verið háð, og reynum að gera okkur grein fyrir, hver afstaða íslenzka ríkisvaldsins hefur verið til stéttabaráttunnar, má glögglega greina tvenn þáttaskil, hin fyrri árið 1942 og hin síðari á þessu hausti, er núv. ríkisstj. hófst til valda. Hin pólitísku einkenni áranna 1939 til 1942 eru: gengislög — gerðardómslög. Með fyrri l. voru laun verkalýðsins lækkuð stórlega á einni nóttu, með hinum síðari var verkalýðurinn sviptur samningsrétti og tekinn af honum rétturinn til kauphækkana og kjarabóta. Ríkisvaldið var í hendi fjármagnsins, því var skefjalaust beitt gegn stétt vinnuaflsins. Það var þetta tímabil, sem hv. þm. Str. (HermJ) var að lofa í gærkvöld. Það er slík beiting eða öllu heldur misbeiting ríkisvaldsins, sem hann vill fá aftur og hefur ætíð síðan 1942 sett sem skilyrði fyrir þátttöku Framsfl. í ríkisstj.

En á þessu tímabili óx verkalýðshreyfingunni ásmegin, samtök vinnuaflsins efldust að samheldni og þroska. Tímarnir voru verkalýðnum hagstæðir að því leyti, að eftirspurn eftir vinnuafli var meiri en framboð, og árið 1942 féllu gerðardómsl. fyrir mætti verkalýðshreyfingarinnar. Ég legg áherzlu á, að það var verkalýðshreyfingin sjálf, sem braut gerðardómsl. á bak aftur.

Á meðan þessu fór fram, efldi alþýða manna þann stjórnmálaflokk, Sósfl., sem ætíð viðurkennir afdráttarlaust, að hann sé flokkur stéttabaráttunnar, og svo fóru leikar, að flokkurinn, sem ætti að þurrka út úr íslenzku stjórnmálalífi, varð raunverulega eini flokkurinn, sem efldist að fylgi, meira að segja margfaldaðist við kosningarnar 1942, og um haustið átti hann tíu þingmenn af fimmtíu og tveimur.

Þá gerðist það til tíðinda eða öllu heldur ótíðinda, að Alþ. gat ekki myndað stj. með eðlilegum hætti.

Hvað olli þessu?

Skýringin er ofur einföld. Framsfl. gat ekki hugsað sér að taka þátt í neinni stj., sem ekki tæki upp þráðinn frá 1939 til 1942. Hann vildi einhliða stj. fjármagnsins gegn vinnuaflinu. Hann er sama sinnis enn, sbr. ræðu Hermanns Jónassonar í gær. Sjálfstfl. hafði þá þegar lært það af reynslunni, að verkalýðssamtökin voru svo sterk, að vonlaust var að reyna að beita ríkisvaldinu einhliða gegn þeim. Hann var hins vegar þá ekki farinn að hugsa þá hugsun að stjórna landinu á grundvelli samkomulags vinnuafls og fjármagns, en aðeins þessir tveir möguleikar voru fyrir hendi, einhliða stjórn fjármagnsins eða samkomulag þessara tveggja afla. Það hlaut því að skapast millibilsástand í íslenzku stjórnarfari, millibilsástand„ sem raunverulega átti rætur sínar að rekja til þess, að styrkur verkalýðshreyfingarinnar var meiri utan þings en innan. Með styrkleika sínum utan þings gat hún hindrað, að stj. væri mynduð gegn henni, en hana skorti styrkleika á þingi til að geta ráðið stjórnarfarinu.

Það kom brátt í ljós, að þetta millibilsástand var lítt þolandi og raunar þjóðhættulegt. Þessi staðreynd leiddi til síendurtekinna og margumræddra tilrauna til myndunar þingstjórnar. Niðurstaðan af öllum þessum tilraunum var í stuttu máli þessi. Annaðhvort verður mynduð stj. samkv. óskum og kröfum Framsóknar, stj., sem tekur upp þráðinn frá 1939 til 1942, eða að nást verður samkomulag milli fulltrúa vinnuafls og fjármagns á þeim grundvelli, að báðir aðilar fái nokkuð, en hvorugur allt. Með myndun núv. ríkisstj. var síðari kosturinn tekinn. Fulltrúar vinnuaflsins og fjármagnsins sömdu vopnahlé, og í því sambandi má ekki gleymast, að það voru ekki aðeins stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, sem sömdu, það voru meira að segja ekki fyrst og fremst þeir, — nei, það voru Alþýðusamband Íslands sem fulltrúi vinnuaflsins og Vinnuveitendafélag Íslands sem fulltrúi fjármagnsins, sem raunverulega sömdu vopnahléð, enda hefði það verið barnaskapur, sem ekki er samboðinn nútímastjórnmálamönnum, að

reyna að stjórna þjóðfélaginu án samkomulags þessara aðila.

Meðal annars af þessum ástæðum er myndun núv. ríkisstj. einn merkasti viðburðurinn í íslenzkri stjórnmálasögu, því að það er í fyrsta skipti, sem stj. er mynduð á Íslandi á grundvelli hreinnar stéttaskiptingar, það er í fyrsta skipti, sem þjóðfélagsstéttirnar tvær eru viðurkenndar sem aðilar að stjórnarmyndun, og þar sem þessar stéttir eru þjóðin öll, ætti með samningi þessum að vera fengin trygging fyrir þjóðareiningu. Og vonandi næst sú þjóðareining, þó að þeir föðurbanar Jónassynir, sem kalla sig framsóknarmenn, reyni að villa um þjóðina og telja einni atvinnustétt, bændum, trú um, að þeir séu ekki þátttakendur í stéttabaráttunni, baráttunni milli fjármagns og vinnuafls, og þeir geti verið utan við það samkomulag, sem fulltrúar þessara þjóðfélagsafla hafa gert.

En hvað er það þá, sem samtök verkamanna og vinnuveitenda telja svo nauðsynlegt að sameinast um, að réttmætt sé að semja vopnahlé? Það er stefna núv. hæstv. ríkisstj. Í j3eirri stefnu felast þrjú meginatriði:

1) að tryggja sjálfstæði og öryggi landsins út á við;

2) að tryggja þjóðinni þann sess, sem henni ber, í því viðskiptakerfi, sem búizt er við, að þjóðir Evrópu og ef til vill heimurinn allur komi á eftir stríðið;

3) að nota þá miklu fjármuni, sem þjóðin á nú, til þess að koma atvinnuvegunum í nútímahorf með það fyrir augum, að allir Íslendingar, sem vinnufærir eru, geti unnið sem arðbærust störf og hinir, sem geta ekki unnið, hlotið sómasamlegan lífeyri úr almannasjóði.

Ég þarf ekki að lýsa því, — það er alþjóð svo kunnugt, — að lífsafkoma þjóðarinnar og þar með menning hennar og sjálfstæði er undir því komið, að þetta þrennt takist, og hver sá Íslendingur, sem vill ekki, að það takist og vill ekki leggja sig fram til að það takist, á ekki skilið að heita Íslendingur. — Það eru erfiðleikar á vegi allra þessara framkvæmda. Reyni þjóðin sameinuð að hrinda þeim úr vegi, verður hún ekki sökuð, þótt verr takist en vera ætti, en gangi hún ósamtaka og sundruð að verki, er hún ámælisverð. Það er af þessum sökum, að samtök vinnuafls og fjármagns hafa samið vopnahlé. Það er af þessum sökum, að fulltrúar þessara afla á vettvangi stjórnmálanna hafa ákveðið að láta deilur niður falla um sinn um skiptingu arðsins og annað það, sem á milli ber.

Ýmsir spyrja, hvort slík stjórnarsamvinna geti verið af heilum hug gerð.

Ég efa ekki, að allir þeir, sem beittu sér fyrir myndun þessarar ríkisstj., hafi gert það af fullum heilindum. Engum duldist og enginn gerði tilraun til að dylja, að það voru andstæðingar, sem voru að semja. Enginn gerði tilraun til að dylja, að hver flokkur um sig, sem stendur að stj., hyggst að auka áhrif sín með þjóðinni, meðan stjórna~samvinnan stendur, en ekki á kostnað þess samkomulags, sem gert hefur verið. Engum þessara aðila dylst og enginn þeirra reynir að dylja, að fyrr eða síðar kemur að því, að stéttabaráttan hefst á ný og ríkisvaldið sveigist annaðhvort til þjónustu við vinnuaflið eða fjármagnið. Í þessu felast engin óheilindi, heldur ærlegt samstarf andstæðinga um framkvæmd ákveðinna málefna. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir þeim þjóðfélagsöflum, sem stjórnarsamstarfið hvílir á, og skal nú víkja nokkrum orðum að háttvirtum andstæðingum og ræðu hv. þm. Str. (HermJ).

Það er rétt, sem fram kom hjá hv, þm., að á Alþýðusambandsþingi voru háðar deilur. Það er hins vegar rangt, að með sósíalistum og sjálfstæðismönnum hafi verið samstarf á því þingi, en hitt er fullvíst, að Framsfl. undir forystu Hermanns Jónassonar gerði allt, sem í hans valdi stóð, til að auka illdeilur á þingi alþýðunnar. Það starf var rækilega undirbúið við kosningar til þingsins í öllum sveitum og kauptúnum landsins. Hæstv. samgmrh. (EmJ) gerði þessar deilur að umræðuefni. Kvaðst hann harma þær og að Alþfl. hefði boðið og viljað samkomulag. Ég efa ekki, að hæstv. ráðh. hafi viljað samkomulag, en hitt var víst, að sósíalistar vildu og buðu samkomulag, og skal ég svo ekki ræða nánar, hvað valdið hafi því, að samkomulag náðist ekki, en leggja áherzlu á, að við sósíalistar viljum vinna að því með hæstv. samgmrh., að þessi deila dragi engan þann dilk á eftir sér, sem torvelda þurfi stjórnarsamvinnuna, og mun hvorugur hirða, þótt Hermanni Jónassyni verði með því valdið nokkrum vonbrigðum.

Ég þarf ekki að eyða tíma mínum í að hrekja fjarstæður og firrur hv. þm. Str. Það hafa aðrir stuðningsmenn stj. gert, en ég ætla að fara nokkrum orðum um, hvernig flokkur hans, Framsfl., skilar landbúnaðinum, eftir að hann hefur stjórnað landinu og þá fyrst og fremst landbúnaðinum samfellt í nær sautján ár.

Á síðustu árum, mestu veltuárum, sem yfir Ísland hafa komið, hefur einn atvinnuvegur Íslendinga ekki borið sig. Það er landbúnaðurinn. Á þessum árum hafa verið greiddar í alls konar styrki og ,uppbætur til þessa atvinnuvegar um eða yfir 100 millj. kr. úr þeim ríkissjóði, sem Hermann fárast nú um, að sé tómur. Meginhlutverk sitt, að framleiða matvöru fyrir þjóðina, hefur hann rækt með þeim hætti, að skortur hefur verið á öllum landbúnaðarafurðum við sjávarsíðuna. Jafnvel kjöt hefur skort, þó að þjóðin hafi orðið að borga gífurlegar upphæðir fyrir að koma þessari vöru úr landi eða í hraungjótur. Mjólkurskortur er algengur í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Garðávexti skortir oft og víða. Egg eru nær ófáanleg, smjör fyrirfinnst ekki nema á svörtum markaði. Osta skortir stundum, og skyr er nær ófáanlegt. Þó strita bændur myrkranna á milli og vinna vel, en eru þó tvöfalt eða þrefalt fleiri við framleiðslustörfin en vera þyrfti til að framleiða allar þær landbúnaðarafurðir, sem þjóðin þarf, ef unnið væri með nútímatækni.

Það er ekki að furða, þótt menn, sem stjórnað hafa landbúnaðinum í því nær sautján ár með þessum árangri, sjái ekkert nema hrun og vandræði, hvert sem þeir líta, og það er ekki á móti vonum, þótt fleiri stjórnmálaleiðtoga Framsóknar biðu sömu örlög sem hv. þm. S.–Þ. (JJ), að verða vofur liðinna tíma á vettvangi stjórnmálanna.

Ég veit, að bændur munu spyrja: Hvað hafið þið sósíalistar þá til mála okkar að leggja? — Ég minni bændur þá á, að ein meginkenning okkar sósíalista varðandi stéttabaráttuna felst í þessum orðum Stephans G. Stephanssonar: Lýður, ,bíð ei lausnarans, leys þig sjálfur. — Málefni bænda verða ekki leyst fyrir þá, og það á ekki að leysa þau fyrir þá. Þeir verða að gera það sjálfir. Þeir verða sjálfir að taka sér stöðu í stéttabaráttunni, með verkalýðssamtökunum eða með vinnuveitendum. Lífsskoðanir og þjóðfélagsafstaða mun ráða, hvorum megin hver einn lendir, en vissulega á meginþorri bænda stéttarlega samstöðu með verkalýðnum. Með samstarfi við þessa stétt og með fulltingi þeirra fulltrúa, sem verkamenn og bændur í sameiningu fela umboð sitt á vettvangi stjórnmálanna, verða þeir að leysa vandamál sín. Í því samkomulagi, sem gert var í sambandi við stjórnarmyndunina, um að láta uppbótafarganið haldast eitt ár enn og Sósfl. féllst á að þola vegna þess, hve mikilvæg voru önnur þau atriði, sem um var samið, felst ekki svo mikið sem vísir að lausn á málefnum bænda. Ekkert bætir það upp þessa fánýtu samninga, að fulltrúar þeirra féllust á að falla frá hækkun á landbúnaðarafurðum, sem þeim bar að lögum, gegn því að fá útflutningsuppbætur, sem þeim bar ekki að fá, enda óskaði Sósfl. ekki eftir þessum samningi.

Sannleikurinn um vandamál ykkar bændanna er ósköp einfaldur. Hann er sá, að það þarf að stórauka afköst hvers manns, sem að landbúnaðarstörfum vinnur, með því að fá honum vinnuvélar í hönd, og jafnframt þarf að beina vinnuafli í stórum stíl til sjávarútvegsins og iðnaðar, sem byggir á sjávarafla. En til þess að þið bændur getið fengið vélaaflið í þjónustu ykkar, verðið þið að færa byggðir ykkar saman. „Flytja saman, byggið bæi“, myndið þéttbýli í stað strjálbýlis. Mennirnir, sem sífellt tala um hrun og kreppu, Hermann, Eysteinn og hvað þeir nú allir heita, þykjast ætla að færa ykkur rafmagn, vélar, síma og vegi heim á hvert heimili hinnar strjálu byggðar, þegar þeir séu búnir að lækka kaupið. Þetta er bláber blekking, ekkert annað en blekking. Með nútímatækni er ekki hægt að veita strjálbýlinu þau þægindi og þau afköst í framleiðslu, sem nútíminn krefst. Strjálbýlið er úrelt fyrirkomulag eins og Framsfl. og eins og tækin, sem notuð hafa verið til að leggja vegi um strjálbýlið, en það er nú upplýst, að það kostar 12 til 15 krónur að vinna sama verk með úreltum Framsóknar-Zoega-aðferðum, sem vinna má fyrir 2 krónur með nútímaaðferðum og þeim þó lélegum. Í náinni framtíð mun það koma í ljós, að sveitabyggðin færist saman og véltæknin verður tekin í þjónustu landbúnaðarins og framleiðslan verður skipulögð með þarfir þjóðarinnar fyrir augum. En þetta getur orðið með tvennu ólíku móti. Annaðhvort vinnið þið bændur verkið sjálfir með samstarfi við stéttarbræður ykkar við sjóinn. Þá mun þetta gerast sem eðlileg þróun, þannig að með sameiginlegu átaki þjóðarheildarinnar verður þéttbýlið reist og landið ræktað eftir fyrir fram gerðri áætlun, en jafnhliða horfið frá þeirri fávíslegu kröfu að útvega strjálbýli norðurstranda rafmagn með sama verði sem þéttbýlinu við Faxaflóa. Með þessu móti er framkvæmanlegt að breyta landbúnaðinum á nokkrum árum í nútímaatvinnuveg, án þess að til vandræða þurfi að koma fyrir þá, sem þennan atvinnuveg stunda. En fái stefna Framsfl. að ráða, verði stefnt til fulls fjandskapar við verkalýðinn, sífellt talað um hrun, öngþveiti og kreppu, eins og Framsóknarliðið gerir nú, mun það vissulega torvelda eðlilega þróun landbúnaðarins í þá átt, sem ég hef lýst. En það mun aðeins tefja hana. Þróunin verður ekki stöðvuð, en hún mun koma yfir bændurna sem hrun, upplausn og vandræði, alveg með sama hætti og varð í Ameríku, þegar tilsvarandi landbúnaðarþróun átti sér stað þar, og eins og hvarvetna verður, þar sem hún fer fram eftir óbundnum lögmálum auðvaldsskipulagsins. Bændanna sjálfra er að velja um leiðirnar. Enginn getur valið fyrir þá.

Höfðingjar Framsfl. hafa gert sér tíðrætt um, að þið bændur hafið fórnað, þegar gert var samkomulagið á búnaðarþinginu í haust. Allir vita, að engin fórn var þar færð, heldur gerðir samningar, sem fulltrúar ykkar töldu hagkvæma. En vel má vera, að rétt væri fyrir bændur að fórna stétt sinni og þjóð nokkru, og þá fæ ég ekki betur séð en flokkur hrunsins og afturhaldsins, flokkur dreifbýlisins og kauplækkunarinnar, Framsfl., væri tilvalin fórn. Með því að fórna honum vinnið þið bændur stétt ykkar og þjóð þarft verk.