25.10.1944
Sameinað þing: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (5965)

176. mál, vantraust á núverandi ríkisstjórn

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Ég get nú beðið betri tíma um að fræða hæstv. forsrh. um ýmislegt, sem hann nú á þessu stigi sennilega vill heldur láta hjá líða að tala um. En ég ætla þó að benda á það, að hann getur náttúrlega haldið því fram hér í kvöld, að ekki komi neinum öðrum við stefna hans og hans flokks, sú sem hann hefur lýst. En ég held, samt sem áður, að hún geri það. Og ég vil aðeins endurtaka það, að hann, sem er vitanlega mjög vaskur ræðumaður, mundi áreiðanlega hafa reynt frammi fyrir Alþ. að nota fyrsta tækifærið, sem gafst, til þess að skýra afstöðu sína, sem er svo nýstárleg, ef honum hefði þótt það auðvelt verk. — Ég hef þess vegna náð því, sem ég ætlaði mér með þessari þáltill., að fá ljósa mynd af afstöðu hans og hans flokks. Ég hef bent á þær mörgu veilur, sem eru í stuðningi flokkanna og einstakra manna á þingi við þessa nýjung, að nokkrir hv. þm. úr úrvalsliði hæstv. forsrh. geta ekki fylgt honum í þessu máli. Og einmitt þetta er bending til þjóðarinnar um, að hér er að gerast eitthvað annað en það, að hér er að koma ný ríkisstj. Það er líka að skapast nýtt viðhorf í raun og veru í landinu, það er að mótast ný stefna, sem hæstv. ríkisstj. hallast að.

Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., að ég hafi nokkra löngun til þess að hafa í þessu efni nokkra sérstaka aðstöðu hjá útvarpinu, vegna þess að ég óska yfirleitt ekki annars en þess, sem hér verður, að ég hef rökrætt alvarlegt og stórt mál. En það virðist ekki henta ýmsum góðum mönnum að rökræða það verulega. Og það skil ég vel, þótt ég segi ekki neitt harðyrði um það, hvernig á því stendur. En mér hefur ekki komið í hug, að útvarpið komi mínu máli til framdráttar, — það er útilokað, því til þess þekki ég of vel afstöðu útvarpsins. Því að það hefur tvisvar meinað Búnaðarfélagi Suðurlands að fá birtar till. sínar óbjagaðar. Og þessir 5 flokksmenn hæstv. forsrh. hafa ekki fengið að gefa út í útvarpinu yfirlýsingu um, að þeir styddu ekki ríkisstj. Ofbeldið og ranglætið hjá þeirri stofnun er á því stigi, sem þessir 5 hv. þm. hafa orðið fyrir. Þess vegna er ég allt of kunnugur því, hvernig útvarpið er nú brúkað, til þess að ég geri mér nokkra von um það, að það vilji sýna góðu og réttu máli hlutleysi.

Hæstv. forsrh. taldi það vera sönnun fyrir sínu máli um hin stóru þjóðnýtingarplön, að Framsfl. — tveir menn úr honum — hefðu borið fram till. um vissar ráðstafanir á erlendum innstæðum landsmanna. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þeir þm. Framsfl. eru algerlega í andstöðu við ráðagerðirnar í hans ræðu. Það hefði verið óhugsandi að fá Framsfl. til þess að styðja harðvítugar framkvæmdir eftir stefnuskrá þeirri, sem hæstv. ráðh. kom hér með. Hvað sem einstakir hv. þm. kunna að gera till. um gagnvart meðferð á þessu fé, þá væri það óhugsandi eftir stefnuskrá, sem er álíka útfærð og hjá kommúnistum. — Hæstv. forsrh. reynir að komast of auðveldlega fyrir sjálfan sig frá þeim hluta sinnar stefnuskrár, sem ég hef vikið að. Og hann mun eiga við þá mótstöðu að glíma miklu víðar og kröftuglegar en ég hef haft aðstöðu eða löngun til að láta koma fram á þessu kvöldi.

En hitt, að hann hafi einhvern tíma gert bandalag — sem hafi lánazt mjög vel — við einhvern tiltölulega hættulegan mann, og þó bjargazt vel úr því bandalagi áður fyrr, sannar ekki, að svo fari nú. Þá átti hann við Íslending, en nú á hann við fimmtu herdeild Rússa á Íslandi. Enginn lýðræðismaður í nokkru landi hefur fram að þessu komizt ómeiddur úr samneyti við bolsévika. Hæstv. ráðh. getur athugað sundför kafarans í kvæði Schillers, ef hann vill rannsaka heljarstökk í heimi bókmenntanna.

Út af ræðu hv. 2. þm. Skagf. vil ég segja, að það er ánægjulegt að vita, að hann snýst í þetta einmitt á sama hátt og hann gerir. Hann lýsir yfir vantrausti á stj. fyrir sína menn, þó að hann segist ekki þurfa að taka þátt í afgreiðslu till., af því að það sé alkunnugt, hver afstaða hans og þeirra fimm sjálfstæðismannanna sé til ríkisstj. — Og sama segir hv. 2. þm. S-M. — En ég hef samt sem áður grun um, að þjóðinni muni finnast undarlegt, að einmitt þegar þessi stórfellda stefnubreyt. kemur fram, þá skuli Framsfl. ekki sjá ástæðu til þess að snúast til varnar móti aðsteðjandi hættu fyrir borgaralegt líf í landinu. Grunar mig, að þar komi til greina nokkur skapgerðarveila, sem stafar af því, að núverandi leiðtogar Framsóknar hafa síðan 1942 leynt og ljóst sótt á að mega stýra landinu með kommúnistum. Hefur hv. 2. þm. S-M. orðið að gína yfir höddunni af blótreyk byltingarliðsins og er orðinn helzt til mikið andlega skyldur því af löngu samneyti. Þessum hv. þm. þykir sem ég muni nokkuð liðfár á þessu málaþingi. En ég er vanur að fylgja réttum málum án þess að spyrja um liðsmannatölu, og hefur það jafnan gefizt vel. Hefur einnig á þeim vettvangi orðið gæfumunur milli hans og mín. Vil ég nefna eitt dæmi um, að sá hefur oft beztan hlut, sem þorir að standa einn. Sumarið 1939 kom Stauning hingað til lands og dvaldi alllengi í því skyni að rannsaka, hvort Íslendingar mundu ætla að skilja við Dani eftir 1941. Lagði Stauning mikla stund á að kynnast skoðun áhrifamanna í þingflokkunum, en hafði einna mest samneyti við núverandi formenn Framsfl. Þegar Stauning kom til Danmerkur, sagði hann við blaðamenn í landi sínu, að Íslendingar vildu ekki skilja við Dani. Það væri ég einn, sem vildi, að þjóðin fengi fullt frelsi. Nú hefur hjól gæfunnar snúizt mér í vil. Þeir, sem sögðu forsætisráðherra Dana, að þjóðin kærði sig ekki um fullt frelsi, hafa orðið að snúa af sínum óhappavegi og samþykkja frelsið. Svo mun fara í þetta sinn. Ef ég verð einn til að mótmæla opinberlega þátttöku fimmtu herdeildar manna í ríkisstj. á Íslandi, þá þarf ég ekki að kvíða dómi framtíðarinnar, heldur þeir, sem standa að þessu ógiftusamlega samkomulagi og vita, að rangt er stefnt, en hafa ekki til að bera þann karlmennskukjark að beitast fyrir réttum málstað.