10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (5969)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Eins og nægilega er kunnugt, fór svo hér í landi, að verðbólgan fékk að flæða yfir landið nokkurn veginn óhindrað um langan tíma, og varð það til þess, að verðlag hækkaði mjög mikið og er nú orðið margfalt við það, sem það var fyrir stríð. Allur framleiðslukostnaður hefur líka hækkað jöfnum höndum og kaupgjaldið. Kapphlaupið að ná sem mestu af þeim peningum, sem um landið hafa flotið, hefur orðið til þess, að kaupgjald og verðlag er orðið margfalt við það, sem áður var. Nú er það líka kunnugt, að margir landsmenn eiga afkomu sína undir sölu úr landi og geta því ekki tekið þátt í þessu kapphlaupi innan lands, sem er um verðlag og kaup. Hér eiga þeir hlut að máli, sem reka sjávarútveg og stunda sjó og taka fyrir vinnu sína hlut í afla, og líka bændastéttin að því leyti, sem hún selur vörur á erlendan markað.

Framan af styrjöldinni var mjög góð afkoma fyrir þá, sem stunda fiskveiðar og seldu fisk úr landi. Meðan verðlagið hafði ekki hækkað mjög í landinu, var afkoma þeirra mjög góð. En eftir því, sem verðbólgan óx, hefur aðstaðan auðvitað versnað hjá þeim, sem þurfa að byggja á erlendu verðlagi á fiski. Raunar hafði fiskverðið verið hækkað með samningum, t. d. síðast þegar um það fékkst til þokazt, þá var það hækkað úr 35 aurum upp í 45 aura, en síðan þessi hækkun átti sér stað, hefur verðbólgan í landinu vaxið svo mjög, að menn voru miklu verr settir en þeir höfðu áður verið með lægra verðinu. Síðan hefur ekkert fengizt um þokazt í þessum efnum þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir.

Hvað sem afkomu einstakra útgerðarfyrirtækja líður, þá er það víst, að afkoman í heild hefur versnað mjög frá því, sem var um tíma, og það er víst, að tekjur margra fiskimanna, sem taka hlut í afla, eru ekki orðnar í samræmi við kaupgjald í landinu og tekjur manna af atvinnurekstri. Þó að menn viti ofur vel, að þessu er þannig varið, verður að játa, að það liggja ekki fyrir um þetta glöggar skýrslur, en það finnst mér mikill skaði, því að öll þau atriði hljóta mjög að dragast inn í málið, þegar um það er rætt, hvernig ráða skuli fram úr þeim vandkvæðum, sem þjóðin hefur ratað í. Mér finnst því mjög nauðsynlegt, að nú fari fram athugun á því, hversu nú er háttað um þessi mál, um afkomu sjávarútvegsins og þeirra, sem sjó stunda. Enn fremur þarf að rannsaka, hvernig lækkun dýrtíðar í landinu mundi verka á verðþarfir sjávarútvegsins og atvinnu þeirra, er hann stunda. Ég sé ekki eins og nú horfir, að það megi dragast að hefja þessa rannsókn. Árangur þessarar hlutlausu athugunar þarf að liggja fyrir, þegar að því kemur, að ómögulegt verður að draga að gera ráðstafanir til að koma atvinnuveginum aftur á fastari grundvöll en nú. Án hennar verður enginn grundvöllur fundinn, þegar fast þarf á þeim málum að taka.

Nú má ýmislegt um það segja, hvernig heppilegast sé að velja menn í n. til slíkrar rannsóknar. Ég sting upp á fjórum mönnum, sé ekki þörf á oddamanni. Fyrst og fremst á þar að vera hagstofustjóri til þess að tryggja vísindalega vinnuaðferð ásamt hlutlausri athugun. Í öðru lagi er fulltrúi samkv. tilnefningu Fiskifélags Íslands, og má gera ráð fyrir, að hann hafi ýmiss konar sérþekkingu á sjávarútvegi, en í þriðja lagi fulltrúi Alþýðusambands Íslands, og má ætla, að hann hefði nokkra kunnleika á viðhorfi fiskimanna. Loks yrði einn skipaður af ríkisstj. án tilnefningar og mundi hafa hina sömu hlutlausu afstöðu til málanna og hagstofustjóri. Um þessa tilhögun mætti deila, en mér virðist því þannig vera allvel fyrir komið.

Ég óska, að till. verði að lokinni umr. vísað til allshn.