10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í D-deild Alþingistíðinda. (5970)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að sinni að ræða efni till., heldur það, á hvaða grundvelli hún er réttlætt og hvernig hún og fyrsta dagskrármálið (6. mál, Sþ.) eru borin hér fram. Flm. þessarar og 1. flm. þeirrar till. eru ásamt fleirum í mþn. í sjávarútvegsmálum til að vinna einmitt svo að segja alveg sama verkið, sem nú á að setja nýja n. eða nefndir til að vinna. Þetta er svo fáheyrð aðferð þar, sem skynsamleg vinnubrögð eiga að ráða, að tortryggni hlýtur að vakna og verður ekki látið óátalið. Ég hélt, að flestum þm. þætti nú þegar nóg komið af n., þótt ekki væri þarna hlaðið ofan á. Því fer fjarri, að ekki geti oft verið ástæða til að skipa n. N. eru starfandi í ýmsum vandamálum atvinnuvega, menntamálum, launamálum o. s. frv.

En fyrri till., frá hv. 6. landsk. (6. mál), er um rannsókn þess, hvernig tryggja megi hlutarráðningasjómönnum og smáútvegsmönnum öruggari afkomu og sambærileg launakjör við aðrar stéttir, og þessi till., frá hv. 2. þm. S-M., er um rannsókn þess, hvernig tryggja megi þessum aðilum lífvænlega afkomu og ekki lakari en öðrum stéttum, og athugun þess, hver áhrif sveiflur stríðsáranna og viðhorf næstu ára hafi á þá afkomu. Það, sem þessir hv. þm. leggja til, sinn í hvoru lagi, að nýjar n. fjalli um, er einmitt hlutverk mþn., sem þeir sitja í. Flutningur slíkra tillagna er hreinn skrípaleikur.

Mþn. var skipuð á síðasta þingi samkv. þáltill., er hv. 2. þm. S-M. var meðflm. að og gaf henni vítt verksvið. Hann verður að skýra, hvað rekur hann til að flytja nú þessa till. í slíkri mótsögn við þál., sem hann fékk samþ. í fyrra, — annars verður þetta ekkert kallað nema skrípaleikur. — Ef það á að vera tízka í Alþ. að setja n. yfir nefnd endalaust, þar sem engin þjóðfélagsnauðsyn krefst, og eyða til þess ærnu fé, er kominn tími til að spyrna við fótum. Ég er því sammála, að rannsóknirnar þurfi að gera, en það er mþn., sem á að láta gera þær.