11.10.1944
Sameinað þing: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (5976)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Mál þetta hefur legið fyrir n. alllangan tíma. Hefur hún haldið um málið fimm fundi. Fyrst var það rætt í þingbyrjun, í febrúar, og þá sent Fiskifélagi Íslands til umsagnar, sem 4. marz sendi umsögn sína til n., og er hún birt sem fskj. með nál. meiri hl. Á þeim tíma kom einnig fram önnur till. til n. á þskj. 6, sem þá var einnig send Fiskifélaginu til umsagnar, og lagði n. til á þeim tíma, að þeirri till. yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og lagði sömuleiðis til, að þessari till. yrði vísað frá, vegna þess að ekki væri ástæða til að skipa þá n., sem till. fer fram á. Á þessum tíma var borið undir hv. flm., hvort hann óskaði heldur, að till. yrði vísað frá, en hann óskaði ekki eftir því, heldur lét í ljós, að hann færi betur með sjálfan sig, ef till. væri látin fá hægt andlát, enda var aldrei til hennar stofnað af neinu öðru en samkeppni við hv. samþm. hans úr Suður-Múlasýslu. Af þessari ástæðu var till. ekki afgr. þá. En þegar þing byrjaði nú, var um það rætt af hv. 2. þm. S-M., hvort ekki ætti að afgr. þetta mál. Kom þá upp, að hv. flm. óskaði eftir, að málið fengi eðlilega afgreiðslu á þingi, og þess vegna hefur það aftur verið tekið til meðferðar. Var það þá sent á ný Fiskifélaginu til umsagnar, og lýsti það yfir í bréfi til n., að það hefði eftir nýja endurskoðun málsins ekki fallið frá fyrri skoðun sinni um, að engin þörf væri á að skipa þá n., sem hér ræðir um, því að það verkefni sé þegar ákveðið með starfsemi reikningaskrifstofu sjávarútvegsins.

Ég hef viljað gera þessa grein fyrir gangi málsins, vegna þess að mér er ekki alveg sama, að sú ásökun liggi á allshn., að hún hafi að ástæðulausu haldið þessu máli svo lengi hjá sér án afgreiðslu.

Ég sé, að minni hl. n., sem gat ekki orðið sammála meiri hl., leggur til, að till. verði samþ. með lítils háttar breyt., og tekur fram í nál. sínu, að brýn nauðsyn sé á, að nú fari fram sú athugun á afkomu sjávarútvegsins, sem till. gerir ráð fyrir. En það er einmitt þessi athugun, sem nú hefur farið fram, með því að stofnað hefur verið til reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, og það er aðallega verkefni hennar að rannsaka þetta mál, sem hér er ætlazt til, að sérstök n. rannsaki.

Það kemur einkennilega fyrir sjónir, að hv. 2. þm. N-M. skuli hafa þetta sem aðalrök fyrir að kljúfa n., þar sem hann hefur nýlega borið fram till. um að vísa þessu máli til stj. með þeim rökum, að búið sé að rannsaka málið, þó að hann viti fyrir sinni samvizku, hversu góð sem hún er, að ekki er farið að rannsaka málið. Hann segir, að þetta sé svo vandasamt, að kveðja þurfi aðra til, svo að niðurstöðurnar verði ekki rengdar. Ég vil biðja hv. minni hl. að horfa um öxl og athuga, hvort niðurstöður sex manna n., sem afhent var líkt hlutverk, hafa ekki verið rengdar. Ég segi það ekki til að rengja þær niðurstöður, heldur til að sýna, að rök minni hl. eru engin rök, hvernig sem á er litið.

Ég vænti því, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. hina rökst. dagskrá á þskj. 403, því að það er nú þegar búið að rannsaka þetta atriði og því engin þörf að skipa sérstaka n. til að grípa þar inn í.