13.10.1944
Sameinað þing: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í D-deild Alþingistíðinda. (5980)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

— Á síðasta fundi í Sþ. kastaði hv. 2. þm. S-M. (EystJ) hnútum til mín og allshn. út af afgreiðslu þessa máls. Vil ég ræða þessi atriði nokkuð, ekki vegna þess, að mér sé ekki persónulega sama um hnútukast hv. þm., heldur vegna þess, að þau atriði, sem ég mun minnast á, munu skýra málið nánar en fram hefur komið.

Hv. þm. gat þess fyrst, að það væri mér ósæmandi sem form. allshn. að fullyrða, af hvaða hvötum þessi till. kæmi fram. Hv. þm. N-Ísf. (SB) hefur áður rætt um þessar hvatir hv. flm. Hann benti á, að það væri mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ætti um málið að fjalla, og væri eðlilegt, að sú n. hefði fjallað um málið, og taldi um leiðinlega auglýsingastarfsemi að ræða hjá hv. 2. þm. S-M., framkomna af löngun til þess að fara í kapphlaup við meðþm. sinn í sýslunni. Og ég hef ekki orðið var við, að þau ummæli hafi verið hrakin. Ég leyfi mér að benda á í þessu sambandi, að það er einmitt að tilhlutun mþn. í sjávarútvegsmálum, að ríkisstj. ber fram frv. um reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, og með þessu frv. lætur hún fylgja grg., sem mþn. í sjávarútvegsmálum hafði sent ríkisstj. á sínum tíma. Ef ekki er nægilega tekið þar fram um verksvið skrifstofunnar, hvílir sú vanræksla á hv. 2. þm. S-M., sem bæði hefur samið frv. og grg. Í frv. stendur þessi setning:

„Þarf eigi að eyða að því mörgum orðum, að nauðsynlegt sé, að ríkisstjórnin eigi aðgang að heimildum um rekstrarafkomu sjávarútvegsins.“

Það sýnir, að þá vakti fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum, að þessi skrifstofa ætti að upplýsa allt um rekstur og hag sjávarútvegsins nákvæmlega eins og till. hv. 2. þm. S-M., sem n. vill vísa frá með rökst. dagskrá, vegna þess að henni er ætlað sama hlutverk og reikningaskrifstofu sjávarútvegsins.

Það annað, sem hv. 2. þm. S-M. kvartaði undan, var, hvernig meiri hl. allshn. hefði tekið þessari málaleitun hans, og vil ég skýra frá því nánar, hvers vegna till. var afgreidd þannig. — Eins og sést á till., er ætlazt til þess, að einn fulltrúi sé skipaður í þessa n. að tilhlutun stjórnar Alþýðusambands Íslands. Allshn. hefur ekki sent þessa till. stjórn Alþýðusambandsins til umsagnar, en í n. og meiri hl. hennar eiga sæti tveir þm., sem standa nærri stj. Alþýðusambandsins, þeir hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) og hv. forseti Ed., og ætti þeim að vera kunnugt um, hvernig stjórn Alþýðusambandsins lítur á þetta mál. Þeir voru sammála um það, að engin ástæða væri til þess að skipa n. þannig, að Alþýðusambandið fengi sérstakan fulltrúa, því að hér væri um sama verkefni að ræða og reikningaskrifstofu sjávarútvegsins væri ætlað að hafa með höndum. — Svo er til ætlazt í till., að Fiskifélag Íslands skipi einn mann í n. Stjórn Fiskifélagsins leggur á móti því, að n. sé skipuð þannig, þótt hún eigi sjálf að skipa fulltrúa í hana. — Í öðru lagi á hagstofustjóri að eiga sæti í n. Hann var kallaður á fund um þetta mál og spurður, hvort hann teldi, að hægt væri með þeim gögnum, sem n. ætti völ á, að safna þeim upplýsingum, að unnt væri að ákveða framleiðslukostnað sjávarafurða hliðstætt sex manna n. samkomulaginu. Hann fullyrti, að útilokað væri að ná þeim tilgangi með þessum gögnum, og mælti því eindregið á móti, að þessi n. yrði skipuð samkv. till., og fyrirbauð persónulegar ráðstafanir á sjálfum sér. Allshn. átti því ekki annars völ, ef hún vildi leggja til, að þessi till. yrði samþ., en gera till. um, að hún skyldi skipuð öðruvísi, því að ekkert vit var í að skipa í n. þrjá aðila, sem allir voru á móti því, að n. yrði skipuð þannig. Og það, að minni hl. n. skyldi ekki koma nálægt þessu atriði í grg. sinni, sýnir, að þar eru lögð til grundvallar einhver önnur atriði, eitthvað annað en umhyggja fyrir sjálfum till., að þeir klufu n. Enda sést það á áliti hv. minni hl., að þeir þvo sér nokkurs konar Pílatusarþvott án þess að koma nærri kjarna málsins.

Ég vil láta það koma fram, að þetta er ástæðan fyrir því, að meiri hl. n. vildi vísa till. frá, og ég hygg, að mjög hafi reynt á þolinmæði nm. við að upplýsa þetta mál, því að margir álitu frá upphafi till. þannig, að strax ætti að vísa henni frá, umræðulítið.