11.10.1944
Sameinað þing: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (5985)

157. mál, öryggi umferðar yfir Ölfusárbrúna

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Það er að engu leyti til þess að mótmæla þessari þáltill., sem hér er um að ræða, að ég kveð mér hljóðs, heldur öllu fremur vildi ég fyrir mitt leyti mælast til þess, að till. í þessa átt nái framgangi, því að hún miðar að eðlilegum varúðarráðstöfunum. En það, sem fyrir mér vakir, er einungis það, að úr því að hér er um tvær umr. að ræða um till. og þá sennilega, að till. verði vísað til n., sem mér heyrðist hv. flm. þáltill. ekkert vera á móti, þá vil ég skjóta því til hv. allshn., sem mundi fá þáltill. til athugunar, hvort ekki væri ástæða til þess að auka till. aðeins frá því sem hún er flutt. Mér hefur í því sambandi sérstaklega dottið í hug, að jafnframt því, sem Alþ. afgreiði till. um öryggisráðstafanir vegna Ölfusárbrúarinnar, hvort ekki væri ástæða til þess, að sú till. fæli í sér ekki einungis, hvað séu forsvaranleg þyngsli til flutninga yfir brúna hverju sinni, heldur og, hvernig eigi að framfylgja því á eftir, að þeim reglum, sem settar kynnu að verða í þeim efnum, yrði hlýtt. Það eru nú, síðan brúin var sett upp aftur og farið er að fara um hana, hafðir brúarverðir, eins og sjálfsagt er, en á þetta skorti áður en brúin fór niður, og því hefur farið sem fór. Og ef á að taka til hámarksþunga, sem megi vera á brúnni í einu, þá hygg ég, að það þurfi að setja skorður um leið um það, hvernig þessa sé trúlega gætt. Og virðist mér þá eðlilegt að fella inn í till. ákvæði um brúargæzlu, til þess að þetta verði meira en orðin tóm. Í sumar var auglýst af vegamálastjóra og það með áherzluorðum, að menn skyldu gæta varúðar við akstur yfir brúna. En lengra náði það ekki. Og þó að margir hafi vitanlega farið eftir þessu, þá vita allir, hvernig fer, ef á að treysta því, að allir séu löghlýðnir. Ég vil því skjóta því til n., sem um málið fjallar, hvort ekki sé ástæða til að setja öryggisráðstafanir í þáltill. einnig að þessu leyti, þannig að verðir séu hafðir við brúna, svo að ákvæðin um álag á brúna verði meira en nafnið eitt.