11.10.1944
Sameinað þing: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (5986)

157. mál, öryggi umferðar yfir Ölfusárbrúna

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. — Vegna till. hv. 2. þm. Árn. um það, að það væri eðlilegt, að við þessa till. væri bætt fyrirmælum um það, hvaða öryggisráðstöfunum skuli fylgt við eftirlit á Ölfusárbrúnni, vildi ég aðeins taka það fram, að ég tel það ekki eðlilegt, að vegamálastjórninni sé fyrirskipað í þál. eða með l., hvaða varúðarreglur hún hafi til þess að framfylgja vörzlu við brúna. Mér finnst það hljóti að vera, að hæstv. Alþ. beri fullkomið traust til vegamálastjórnarinnar um það að setja reglur um umferð um brúna og þá jafnframt um að framfylgja þeim. Því að vitanlega hefur vegamálastjóri það í hendi sinni að hafa verði við brúna, og nú þegar eru verðir við báða enda brúarinnar. Og mér er sagt, að vegamálastjóri hafi aðrar ráðstafanir á takteinum, m. a. vigtir við báða enda brúarinnar. Virðist mér það vera eingöngu verk vegamálastjórnarinnar að setja slíkar reglur.

Ég vildi þess vegna mælast til þess, að slík ákvæði, sem hv. 2. þm. Árn. var að tala um, verði ekki sett í þáltill., sem vitanlega væri líka ótímabært að gera án þess að vita, hve sterk brúin væri. Slík ákvæði mundu enn fremur tefja fyrir þessari þáltill., sem ég veit, að er ekki tilgangur hv. 2. þm. Árn. Vil ég mælast til þess, að hann komi ekki með brtt. við þessa þáltill., a. m. k. er ekki nauðsyn á því í þessu sambandi, og er hægt á annan veg að ráða þessu vel til lykta, nefnilega af vegamálastjóra sjálfum. Vildi ég stuðla að því, að þessi þáltill. mæti engri óþarfa töf við afgreiðslu hér á hæstv. Alþ.