24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í D-deild Alþingistíðinda. (5993)

157. mál, öryggi umferðar yfir Ölfusárbrúna

Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki vera margorður um afgr. þessa máls. Það er þegar búið að vera til afgreiðslu lengi í þál., þar sem farið var fram á, að rannsókn væri hafin á burðarþoli brúarinnar. En þótt till. hafi gengið seint, sé ég, að ýmislegt, sem farið er fram á í henni, hefur þegar verið famkvæmt að miklu leyti af vegamálastjóra, eftir að till. kom fram. Og verð ég að segja fyrir mitt leyti, að ég ætlaðist til, að till. ýtti á rannsókn, sem vegamálastjóri hefur þegar hafizt handa um, þar sem athugað hefur verið burðarþol brúarinnar og hversu auðveldast væri að styrkja hana til þess að geta fullnægt að nokkru þeirri flutningaþörf á þessu svæði þar til ný brú kæmi.

Þar sem ég ætlaðist til með till. minni að rannsókn færi fram, þá sé ég ekki ástæðu til, að hún sé samþ. á annan veg en rökst. dagskráin gerir ráð fyrir, nema ef n. hefði tekið nokkuð tillit til þess, sem vegamálastjóri lagði til í bréfi sínu, eins og ég hefði þó talið eðlilegast. Vil ég leyfa mér að lesa niðurlag bréfs hans, með leyfi hæstv. forseta: „Leyfi ég mér að leggja það til, að rökstuddu dagskránni verði breytt þannig, að ríkisstjórninni verði falið að styrkja brúna á þann hátt, sem lagt er til í áliti verkfræðinganna.“ Þetta hefur n, ekki gert. Mér virtist sú skoðun koma fram í ræðu hv. frsm., að þetta væri orðið það dýrt, að mörgum mundi þykja fullmikið nú þegar, þar sem aðrir eiga líka við samgönguörðugleika að búa. En þess ber að gæta, að þetta er brú, sem á hvílir langmest umferðarmagn og snertir meir og minna afkomu meir en helmings landsmanna. Þess vegna er það alveg óumflýjanlegt, að hún sé í hæfu umferðarástandi. Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði, að eftir upplýsingum vegamálastjóra væru aðeins tvær til þrjár bifreiðar skrásettar fyrir austan Ölfusárbrú, sem færu fram úr 6,5 smál. þunga fullhlaðnar, þá er þess að geta, að auk þeirra, sem eru skrásettar þannig, hefur æðimörgum bifreiðum austan brúarinnar verið umbreytt þannig, að þær bera miklu meira en þegar þær voru keyptar inn. Burðarmagni þeirra hefur verið breytt, án þess það væri talið nokkuð athugavert, með því að setja tvöföld hjól á þær og styrkja grindina. Þannig er það algengt, að bifreiðar, sem keyptar eru inn og ætlaðar fyrir 2½ tonna þunga, flytja nú orðið miklu meira. Þess vegna er það til mikils trafala, ef ekki er hægt að styrkja brúna svo, að hún þoli meira burðarmagn en hún gerir nú. En ef víst er, að brúin verði byggð að ári liðnu, eins og vegamálastjóri gefur í skyn ásamt verkfræðingunum, þá sé ég ekki annað en við þetta verði að una.

Eitt vil ég þó benda á í þessu sambandi varðandi öryggi brúarinnar. Það er óumflýjanlegt, að haft verði betra eftirlit en nú er á því, að ekki fari þyngri bifreiðar yfir brúna en 6 smál., svo framarlega sem víst er, að burðarmagn hennar er ekki meira. Ég horfði á það fyrir nokkrum dögum, að erlend bifreið, sem áreiðanlega var 8–10 tonn, fór yfir brúna án þess að vera bannað það. Ég tel það með öllu óviðunandi, ef bifreiðum, sem annast vöruflutninga fyrir landsmenn, er bannað að fara yfir brúna með þetta burðarmagn, þá sé útlendingum leyft það, ekki sízt þar sem þeir eiga e. t. v. mesta sök á því, að brúin fór niður, vegna of þungra flutninga og mikillar umferðar. Ég vil benda á, að þótt eftirlit sé með innlendum mönnum, er það engan veginn nóg, ef útlendingum leyfist að fara með miklu meiri þunga yfir brúna, því að þá getur leitt til hins sama aftur, hvenær sem er. Ríkisstj. þarf því að aðvara vegamálastjóra um, að þess sé gætt, að útlendingar hlýði sömu ákvæðum varðandi brúna og innlendir menn, sem annast nauðsynlega flutninga fyrir þjóðina.

Ég mun ekki fara um þetta fleiri orðum, en tel vel farið, að rannsókn hafi farið fram og sjálfsagt að halda áfram að styrkja brúna, eftir því sem verkfræðingarnir hafa lagt til. Og lít ég svo á, að það muni verða gert, ef rökstudda dagskráin verður samþykkt, eins og n. leggur til.