02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í D-deild Alþingistíðinda. (6010)

236. mál, húsaleiguvísitala

Frsm. (Gísli Jónsson):

Ég vil mótmæla því, að allshn. hafi gníst tönnum út af þessu atriði, sem hv. 7. þm. Reykv. gat um, og vil taka það fram, að allur þessi misskilningur er sprottinn af því, — eins og hv. 7. þm. Reykv. veit —, að það liggja ekki fyrir neinar sannanir um það, að viðhaldið sé greitt af húseigendum, og út af því getur húsaleiguvísitalan ekki hækkað fyrr en þær liggja fyrir. Skjöl um þetta atriði hafa aldrei verið lögð fram, og vil ég því í þessu sambandi benda hv. þm. á, að í blaði, sem húseigendur gefa út sjálfir, stendur í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessum ástæðum er tilgangslaust að ætlast til þess, að húseigendur geti skilað viðhaldsreikningum til kaupverðlagsnefndar, nema þá í mjög smáum stíl.“

Þarna er viðurkennt af þeim sjálfum, að ekki sé hægt að skylda þá til að hækka leiguna, af því að viðhaldið hafi ekki verið greitt af þeim sjálfum. Þessi viðhaldskostnaður hefur verið settur yfir á herðar leigjenda af herðum húseigenda, og af þessum ástæðum gat allshn. ekki lagt til, að hér væri breytt um eða að ástæða væri til þess að rannsaka þetta, þar sem kauplagsn. hefur með bréfi staðfest, að hún væri reiðubúin til þess að athuga einmitt öll þessi gögn.