21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í D-deild Alþingistíðinda. (6016)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi umrædda till. er á þskj. 42 og var lögð fyrir hæstv. Alþ. fyrir nokkru. Segja má, að aðalefni hennar sé að undirbúa Þingvallafund í vor, og er gert ráð fyrir, að um þetta geti allir orðið sammála. Um viss atriði önnur geta menn ekki orðið sammála, og er það svo jafnan um ný fyrirtæki. Mér er enn í minni, að 1926, þegar verið var að byrja að vinna að undirbúningi hinnar nafntoguðu Þingvallahátíðar, voru menn ekki alveg sammála um það. En n., sem þannig var kosin, starfaði í fjögur ár, og lauk því máli svo, sem kunnugt er, að allir undu vel við.

Nú hefur það verið nokkuð í undirbúningi í vetur að efna til slíks Þingvallafundar í vor. En það er þó af ýmsum ástæðum, að ekki hefur verið lögð fram föst ráðagerð um þetta fyrr en á áðurnefndu þskj. Ég lít þannig á, að þessi samkoma sé í rauninni áframhald af hinum gömlu og góðu Þingvallafundum, sem bæði voru haldnir á 19. öldinni og oft og einatt á 20. öldinni í sambandi við sjálfstæðismál Íslendinga. Þingvallafundirnir voru vakningasamkomur þjóðarinnar í höfuðmáli hennar, frelsismálinu, og það mun von flestra, að sá fundur, sem halda á í vor, verði með vissum hætti eins konar lokasteinn í þeirri byggingu, sem hinir fyrri fundir voru. — Ég hef orðið var við, að menn hafa talið vafasamt, að hægt sé á svo skömmum tíma að undirbúa þetta, þetta ætti að vera ákaflega fjölbreytt samkoma. En ég held, að þar komi mest til greina minningin frá 1930 og fyrir hv. þm. vaki að bera þann þjóðfund, sem hér verður haldinn, saman við þá fundi, sem fyrr voru haldnir.

Þessi till. gerir ráð fyrir fimm manna n., og gæti svo farið, að fulltrúi frá ríkisstj. og einn frá hverjum þingflokki ætti sæti í henni, en þó er ekki um þetta samið enn þá. Þó mundi sennilega fara bezt á því. Og vegna þeirra, sem halda því fram, að samkoman á Þingvöllum 17. júní gæti ekki verið nægilega undirbúin, þá get ég skýrt frá því, að íþróttamenn hafa skrifað okkur í Þingvallanefndinni og tjáð okkur, að þeir ætluðu einmitt að hafa mikla hátíð fyrir sig í vor um þetta leyti á Þingvöllum, og mundi hún þá hverfa inn í þessa hátíð. Á sama hátt er kunnugt um það, að kórar landsins mundu einnig vilja koma þar saman til þess að taka þátt í þjóðarsamkomunni. Þó er kannske ekki rétt að fara út í það á þessu stigi málsins. Þó fyndist mér sennilegt, að það yrði svipað og 1874, að það mundu verða samkomur í ýmsum héruðum í landshlutum fyrir austan, norðan og vestan, en Þingvallasamkoma fyrir alla landsmenn, en þó fyrst og fremst fyrir það fólk, sem býr hér sunnan og vestan lands.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, vegna þess að það verða um þessa till. tvær umr. og sennilega nefndarvinna, þannig að þá koma fram fleiri hliðar á málinu.