05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

143. mál, fjárlög 1945

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Aldrei mun ríkisstj. á Íslandi hafa setzt að völdum með meira yfirlæti en sú, er hér settist í ráðh.-stólana 21. okt. s.l. Aldrei munu valdamenn hér á landi hafa hrúgað saman meiri gyllingum um áform sín og væntanleg afrek og gefið þjóðinni eins ákveðin loforð um að gefa henni allt, sem hún girntist, ef hún vildi falla fram og tilbiðja þá. — (Hundruð skipa, véla, verksmiðja, hús, hvers konar tæki og peningar, eins og menn færu sjálfir fram á.) Og aldrei mun heldur nein ríkisstj. hér á landi hafa verið jafnveil, sjálfri sér jafnsundurþykk og með öllu ófær til raunhæfra, góðra verka og þessi sama stj. Ég hygg, að aldrei hafi verið gerð stórfelldari tilraun í íslenzkum stjórnmálum til að blekkja þjóðina og leyna hana raunveruleikanum í atvinnu- og fjármálum sínum heldur en sá grundvöllur, sem núv. ríkisstj. á Íslandi er á reist. — Að þessum orðum mínum skal ég nú leitast við að færa nokkur rök með fáum orðum.

Allir þekkja stefnuskrárræðu hæstv. forsrh., sem almennt gengur nú orðið undir nafninu „platan“. Hæstv. ráðh. var ekki nóg að flytja hana á þingi, eins og venja er til áður, heldur varð hann svo hrifinn af henni, að hann talaði hana tvisvar eða þrisvar inn á plötu, svo að hann og aðrir landsmenn gætu sem oftast glaðzt við þann fagnaðarboðskap, sem hún hafði að geyma. Skrumið og yfirlætið er þar mjög áberandi.

Þá held ég, að óhætt sé að segja, að flestu því er lofað, sem menn hafa óskað, að komast mætti í framkvæmd hér á landi hin síðustu ár. Og framför og nýsköpun síðustu 17 ára er harla léttvæg fundin í samanburði við það. Öllu er hrúgað saman í eina allsherjarupptalningu, sem menn hafa rætt og látið sér til hugar koma, að framkvæma þyrfti, og menn fýsti að fá fram. Í raun og veru er stefnuskrárræða þessi ekki annað en upptugga á ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl), sem hann hélt hér í útvarpið í þingsölunum í haust, þar sem hann var að úthluta milljónunum, sem til væru í erlendum innstæðum og almennt var þá hlegið að og eitt stjórnarblaðið núverandi kallaði þá þær „rósrauðustu skýjaborgir“ og mestu glópsku, sem heyrzt hefði af raunhæfum stjórnmálamanni. Þetta raus og yfirlæti voru svo stjórnarliðar með hæstv. forsrh. í fararbroddi að endurtaka hér í umr. í gærkvöld. En meinilla var þeim við það, að rætt væri, hvaða grundvöllur og aðstæður væru fyrir hendi um að koma þessum dýrðlegu áformum og loforðum í framkvæmd. Og við, sem erum að benda á þessi skilyrði, sem skapa verði, til þess að svo megi verða, við erum kallaðir afturhaldssamir, fjandsamlegir þessum góðu áformum — og helzt líklegir til að hindra þær. Einhvers staðar stendur þó í merkum fræðum, að góður húsameistari reikni húsið fyrst út, áður en hann tekur að reisa það, og að það hús, sem ekki sé sæmilega grundvallað, sé dæmt til að hrynja harla fljótt. Og svo hygg ég því miður, að verði afdrif þessara skýjaborga, sem hér hefur verið hrófað upp. Þjóðin sjálf, sem vissulega kann enn að líta raunhæft á hlutina, getur sannfært sig um það, ef hún athugar þann grundvöll, sem á er reist. Hv. þm. Str. (HermJ) lýsti hér skilmerkilega í gærkvöld þeim fjárhagsgrundvelli, sem fyrir hendi er. Ríkið vantar stórfé, 30–40 millj. kr., til að standast venjuleg rekstrarútgjöld á þessum mestu veltutímum, sem yfir þjóðina hafa komið. Og ekki er vitað um eða fram komið, að hæstv. ríkisstj. sé búin að afla fjár til þessa, eins og lofað var, — hvað þá, að hún sé með fullar hendur fjár til nýsköpunarinnar, eins og hún lætur í veðri vaka. Greiddir eru nú tugir millj. kr. til að halda rekstrarkostnaði niðri innan lands, svo að ýmsar starfsgreinar stöðvist ekki. Í sjávarútveginum, þar sem aðalnýsköpunin á fram að fara, eftir því sem hæstv. atvmrh. sagði hér í gærkvöld, virðist miklu meiri áhugi á því að losa sig við og selja skip og tæki en kaupa þau, og svo virðist jafnvel vera um hæstv. forsrh. sjálfan, eins og kunnugt er. Allur tilkostnaður innan lands er orðinn tvö- til þrefaldur á við það, sem er hjá nágrannaþjóðum vorum, sem við eigum nú bráðum að fara að keppa við á mörkuðum og vissulega munu ekki hafa verri tæki í höndum en við, þegar til kemur.

Þá er vitað, að út á við hefur þjóðin undanfarin ár hvergi nærri getað fengið þær vélar og tæki, sem hún hefur óskað eftir og talið sig þurfa á að halda, og sennilega batnar það ekki, þegar styrjöldinni lýkur og allar þjóðir þurfa að fara að nota í stórum stíl þau sömu tæki til að byggja upp hjá sér eftir hina ægilegu eyðileggingu styrjaldarinnar. Sjálf er svo ríkisstj. mynduð af hinum ósamstæðustu öflum þjóðfélagsins, sem fátt eiga sameiginlegt í stjórnmálum nema ábyrgðarleysið og kapphlaupið hver við annan um skrumið og loforðin. Fyrir þessu öllu sem æðsti maður og fyrsti stendur svo hæstv. núv. forsrh., sem mun vera einna líklegastur allra íslenzkra stjórnmálamanna til þess, — a.m.k. að því er við framsóknarmenn þekkjum til, — að geta með jafnmiklu jafnaðargeði gengið frá loforðum sínum og heitum og honum er létt um að gefa þau. Það mun því mega fullyrða, að sú stj., sem þannig er mynduð, sem á slíkum fjárhagsgrundvelli er reist og samið hefur um að reyna að viðhalda honum svo lengi sem unnt er, — auka dýrtíðina, auka útgjöldin um tugmilljónir og telja þjóðinni trú um, að allt sé þar í bezta lagi, og hindra þannig nauðsynlegar aðgerðir til umbóta, — slík stj. er stærsta hindrun, sem nokkurn tíma hefur verið lögð í veg nýsköpunar í atvinnulífi á Íslandi.

Það er þá líka þegar að koma í ljós, að nýsköpunarstefnuskráin, sem hæstv. forsrh. líkti hér í gærkvöld við „nýju fötin keisarans“, sem sjálfsagt fer næst sannleikanum af öllu, sem hann sagði, — hún er meira gerð til að fá fylgi fólksins, til að standa að valdabrölti og flokkshagsmunum þessara manna, en af áhuga á að verða fólkinu að liði og koma fram umbótum og nýsköpun í lífi þess. — Hæstv. atvmrh. lét lesa hér upp fyrir sig í gærkvöld hótun til bændastéttarinnar um það, að hún skyldi engrar nýsköpunar verða aðnjótandi, nema hún yrði þæg ög auðsveipin og veldi sér forystumenn, sem þægir og auðsveipir væru þessum nýju valdhöfum. Það er talið ráðlegt að byrja á að brjóta loforðin, því að ekki veit ég betur en í stefnuskránni sé ákveðið a.m.k. 50 millj. kr. í gjaldeyri til nýsköpunarinnar í landbúnaðinum, áburðarverksmiðju, efni til rafvirkjunar og annað slíkt. Og hér er ekki látið sitja við orðin ein. Fyrsta mál nýsköpunarinnar, áburðarverksmiðjan, var nýlega til meðferðar á þingi, og stjórnarliðið sameinaðist um að slá því máli á frest, og er það þó vissulega langbezt undirbúna málið, sem i nýsköpuninni er áformað, og sennilega eitt af þeim fáu fyrirtækjum, sem talið er þó sennilegt, að geti borið sig fjárhagslega, jafnvel í núverandi ástandi í landinu. En sennilega má ég nú ekki minnast á, að hlutir eigi að bera sig, til að hneyksla ekki hæstv. forsrh. Honum virðist vera orðið meinilla við það orðatiltæki. Þessari hótun hæstv. atvmrh. er beint til bændanna, um leið og þeir eru víttir fyrir, að þeir séu langsamlega aftastir í allri tækni og framförum, — og þá sennilega meðfram vegna þess, að þeir eru sennilega eina stéttin, sem er reiðubúin að taka þátt í raunhæfri nýsköpun og vinna, jafnvel undir núverandi fjárhagsástæðum í landinu. Það er vitað, að þeir hafa pantað vélar og biðja um vélar — og það í svo stórum stíl, að það mun ekki vera nema 1/3 af óskum þeirra, sem hægt hefur verið að fullnægja síðustu árin.

Annars held ég, að þeir kjósendur í bændastétt, sem eiga þm. í stuðningsliði stj., ættu að fara að endurskoða afstöðu sína, þegar þeir heyra, hversu sú stj. er þeim vinveitt, sem þm. þeirra styðja til valda. Það er bersýnilegt, að lítið mark eða tillit er tekið til slíkra fulltrúa í núv. ríkisstj. Þeir eiga að þjóna, en ekki að drottna, og mun það satt vera hjá hæstv. atvmrh. En trúlegt þætti mér, að enn væri sá metnaður íslenzkra bænda við lýði, að þeir þakki vinsamlegast fyrir sig um að eiga fulltrúa, sem í einu og öllu selja sig bæjarvaldinu í hendur — og þá svo frýnilegt sem það er nú undir forystu stríðsgróðamanna og Moskvamanna.

Hæstv. atvmrh. (ÁkJ) lét enn fremur skila áliti sínu á íslenzkum landbúnaði, og endurtók hv. 8. þm. Reykv. allt það sama hér í kvöld, að því viðbættu þó, að landbúnaðurinn hefði fengið yfir 100 millj. kr. í styrki nú á stríðsárunum og væri þannig eini atvinnurekstur í landinu, sem ekki hefði borið sig. (Hæstv. dómsmrh. taldi hins vegar, að þetta væri alls um 57 millj. kr.) — Á hann þar víst við þær upphæðir, sem greiddar hafa verið til að greiða niður dýrtíðina. En hverjum hefur það verið í hag? Sannarlega ekki bændunum. Það er gert vegna þess, að hv. þm. o.fl. hans líkar hafa magnað svo dýrtíðina, að margir aðrir atvinnuvegir geta ekki borið sig, nema þessi niðurgreiðsla fari fram. — Hann sagði, að landbúnaðurinn væri orðinn úreltur og aftur úr, dreifbýlið yrði að leggja niður, — og eru þá víst æði margar sveitir á Íslandi, sem leggja á í auðn. Og það er varla að efa það, að svo verður brátt, ef slíkt stjórnarfar, sem nú er og hefur slíkan skilning á íslenzkum landbúnaði, á lengi að ríkja hér í landi.

Hæstv. ráðh. sagði, að landbúnaðarafurðir væru allt of dýrar og til að framleiða ódýrar yrði að færa byggðina saman og nota eingöngu vélar til allra starfa. Og víst er um það, að engir hafa sótt fastar að auka vélakost sinn og nýskapa land sitt en bændurnir. En eitt er þó við þessa kenningu hæstv. ráðh., sem vert er, að gaumur sé gefinn, áður en stjórnar- eða valdboð er út gefið um að leggja dreifbýlið niður og færa allt til stóryrkju byggðrar á véltækni einni, og það eru nokkur bú í nánd við bæina og rekin af þeim, sem þannig eru úr garði gerð eins og hæstv. ráðh. vill hafa þau, — m.a. eitt í kjördæmi hans á Siglufirði, annað á Ísafirði og ríkisbú hér í grennd við Reykjavík. Og þau eru öll rekin með tapi þrátt fyrir hið háa afurðaverð, meðan kommúnistar segja a.m.k., að bændur í dreifbýlinu séu að stórgræða. Og hér í grennd við Reykjavík keypti bærinn nýverið mikla jörð og vel hýsta og ræktaða, Korpúlfsstaði, þar sem hægt er að heyja mörg þúsund hesta á véltæku, ræktuðu landi og nýverið var framfleytt um 300 kúm. Aðalstuðningslið hæstv. ríkisstj. hefur þetta bú og rekur nú. En hvernig? Þar eru 20 kýr, að mér er sagt, slægjur leigðar á túninu og geðveikissjúklingar hafðir í húsunum. Reykjavík vantar mjólkurafurðir oft og tíðum, og borgarbúar kvarta undan því. En vill ekki hæstv. ráðh. spyrja stuðningsmenn sína og flokksmenn, hvers vegna þeir reki þetta bú á þennan hátt, hvort það sé til að verða af stórgróða fyrir bæinn og til að auka skort bæjarbúa á mjólkurvörum? — Allt væri þetta hollt til íhugunar þeirri ríkisstj., sem lét atvmrh. sinn flytja bændum þennan boðskap sinn hér í gærkvöld.

Hæstv. forsrh. lýsti því með mörgum orðum, að hann hefði ekki ætlað sér í ríkisstj., sem mynduð væri með Framsfl. Fyrst hæstv. forsrh. fór að gera þetta að umtalsefni, er rétt, að það komi fram, að hann gerði ráðstafanir til að grennslast eftir því, hvernig því mundi verða tekið af Framsfl., að hann yrði forsrh. í slíkri ríkisstj. Og hann fékk ákveðið að vita, að Framsfl. mundi aldrei samþ. slíkt eftir þá reynslu, sem af honum fékkst í samstarfi við hann áður. Eftir það fór hann að gefa út yfirlýsingar sínar, þar sem hann talaði um, að hann vildi þetta ekki. Og eftir að hæstv. ráðh. fékk þessa vitneskju, gekk hann skilyrðislaust að öllum kostum kommúnista. Hitt vita allir þm. Framsfl., að HermJ lýsti yfir því, að hann vildi alls ekki verða ráðh., þótt Framsfl. tæki þátt í ríkisstj.

Það má segja, að verk ríkisstj. séu fá enn, sem dómur verður á lagður. En stefna hennar er augljós: að reyna í lengstu lög að leyna þjóðina, hversu ástatt er um fjármál hennar og atvinnulíf, þegar horfast á í augu við komandi verkefni og vandamál eftirstríðsáranna næstu.

Það á ekki að vara við hættum og því síður að gera neitt til að forðast þær, — hættum þeim, sem sjúkt fjármála- og atvinnulíf þjóðarinnar er í eftir fellibylji styrjaldarinnar. Gleiðgosaháttur, gorgeir og skrum á að vera smyrsl við öllu slíku. En eitthvað er það ólíkt leiðtoga Breta, Churchill, sem allir dá og nú er að leiða þjóð sína til sigurs gegnum brotsjói stærstu styrjaldar veraldarinnar. Hann taldi sig þurfa að segja þjóð sinni allan sannleikann til að geta búið hana til sigurs.

Vér erum að vísu ekki í slíkum sporum, sem betur fer, en vér erum þó í vissum skilningi að leggja til orustu, að heyja baráttuna, að vinna friðinn, sem kallað er, tryggja frelsi vort í framtíðinni, menningu vora, mannréttindi, atvinnulíf og allan þjóðarhag.

Til þess að það stríð vinnist, þarf þjóðin örugga forystu, sem þorir að segja sannleikann eins og hann er og horfast í augu við raunhæf vandamál, hvort sem einum líkar betur eða verr.

Og háskalegust alls er nú sú falskenning, að krónufjöldinn eða hæð tölunnar séu þau raunverulegu verðmæti, hvort sem það er í launagreiðslum verkamannsins, afurðaverði bóndans eða innstæðum gróðamannsins. Sú trú leiðir af sér gengislækkun, eyðing verðmætanna, sem fengin eru, og fjárhagslegt hrun, fyrr en varir.

Kaupmáttur gjaldmiðilsins er eitt, sem máli skiptir, og það, að sá kaupmáttur rýrni hjá engum, hvorki verkamanni, bónda né gróðamanni, þótt tölurnar séu færðar niður og helzt til samræmis því, sem þjóðirnar, sem við eigum að keppa við, hafa nú hjá sér. Það er eina vonin til þess, að hægt sé að viðhalda lífskjörum almennings í landinu, að á þessu sé ráðin bót nægilega fljótt. annars hljótum við að tapa, bæði því, sem við höfum eignazt, og líka baráttu okkar um að vinna friðinn og tryggja frelsi okkar í framtíðinni. Á þessu hefur íslenzk bændastétt fullan skilning, og þess vegna mun hún einhuga spyrna gegn þeim óheillaöflum, sem nú eru ríkjandi í fjármálum og atvinnulífi þjóðarinnar og verið er að reyna að telja þjóðinni trú um, að muni leiða hana inn í einhver rósrauð hillingalönd.

Því miður hefur meiri hl. þings enn þá einu sinni gefizt upp við að ráðast gegn dýrtíðinni og ráða bót á meinsemdum hennar og í þess stað myndað stj. eins og 1942 til að láta berast með straumnum og fljóta enn þá nær feigðarósi. Þar eiga aðalvandamálin að hvíla sig enn sem fyrr, en verzla á um fé og fríðindi eins og 1942 og halda gulldansinum áfram.

Það verður samt að vona það, að fleiri og fleiri vitkist með þjóðinni í þessum efnum, eftir því sem dómgreindin skýrist, eftir gullvímuna, og að því mun Framsfl. vinna, eftir því sem tök eru á, í fullri vitund þess, að barátta hans í þeim efnum er barátta fyrir fjárhagslegu og þá um leið fullkomnu frelsi þjóðarinnar allrar.