21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (6022)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Pétur Ottesen:

Mér þykir mjög eðlilegt, að till. sem þessi komi fram undir þeim kringumstæðum, sem nú eru hér á landi, og í sambandi við þá atburði, sem eiga að ske á þessu ári. Þess vegna hef ég ekkert frá því sjónarmiði við till. að athuga og skal ekki heldur ræða kostnaðarliði í sambandi við þetta mál. Ég býst við, að kostnaðurinn verði að mestu leyti frjáls framlög þeirra manna, sem áhuga hafa á því, að land og þjóð sæki þennan fund á Þingvöllum, og ég veit, að það stendur ekkert á því hjá Íslendingum að leggja í þann kostnað. Ég ætla sem sagt ekki að fara að ræða um það mál og tel miður, að umr. skyldu hafa farið inn á þá braut hér á þingi.

En ég vildi minnast á það, að mér finnst ríkisstj. vera farin að færa sig upp á skaftið nú að síðustu, þar sem hún ætlast til, að Alþ. fari að vísa til hennar till., sem borin er fram af fulltrúum þriggja flokka á þ. í þeim tilgangi, að till. fái þá afgreiðslu, sem stefnt er að: að Alþ. kjósi þessa menn, svo sem segir í till. Ég skal þó viðurkenna, að mér virðist það vanta í þessa till., að stefnt sé til frekara samstarfs við ríkisstj. T. d. hefði ég talið vel til fallið, að forsrh. yrði fimmti eða sjötti maður í þessari n. og yrði þar sjálfkjörinn og til fullkomins samstarfs stefnt af hálfu Alþ.

Ég vil benda á það, sem hv. 1. flm. þessarar till. gat um, að undir svipuðum kringumstæðum, fyrir, að ég ætla, 17 árum, var kosin n. hér á þ. til að undirbúa Alþingishátíðina, sem haldin var 1930. Þá var það síður en svo, að þeirri ríkisstj., sem þá sat, dytti í hug að fara að seilast til yfirráða um það, með hvaða hætti og hvernig með þetta yrði farið og frá þessu gengið. Þessi n. var skipuð hér á Alþ. Og síðar við athugun málsins var það samþ., sem talið var undir öllum kringumstæðum sjálfsagt og eðlilegt, að forsrh. tæki sæti í n. til samstarfs við þá menn, sem þar voru fyrir. — Alþingishátíðin var vel og myndarlega undirbúin, eins og við væntum, að nú geti orðið, þó að í smærri stíl sé en þá var. A. m. k. er ekki hægt að gera ráð fyrir, að jafnmikil þátttaka erlendra ríkja geti orðið. Þetta skapa þær kringumstæður, sem nú ríkja í heiminum. Þetta var vel og myndarlega undirbúið, og hæstv. Alþ. ákvað sjálft, hvaða menn skyldu vera í þessari n. Ég fyrir mitt leyti vil þess vegna vænta þess, að hér verði fylgt sama dæmi og þá var um það, að Alþ. kjósi þessa n., eins og till. hljóðar um.

Ég mun svo, ef aðrir verða ekki til þess, á síðara stigi þessa máls bera fram brtt. um að bæta einum manni við í n. eða breyta tölu nm. þannig, að forsrh. verði sjálfkjörinn í n., og tel ég þá þeim málum vel skipað. En hitt verð ég að telja mjög einkennilega afgreiðslu þessa máls, ef fara á að vísa þessari till. til ríkisstj., og því undarlegra finnst mér það, að ríkisstj. sjálf fari fram á það við Alþ., að þetta skuli gert. Ég er fullur undrunar yfir þessu tiltæki ríkisstj. og get því fremur sagt þetta sem ég hef ekki verið lakari stuðningsmaður þessarar ríkisstj. en ýmsir aðrir hv. þm. Mér kemur það því undarlega fyrir, ef þeir menn, sem staðið hafa að þessari þáltill., geta goldið því jákvæði, að þessi utanþingsstjórn seilist svo inn á umráðasvið hæstv. Alþ. að hrifsa til sín með slíkum hætti þáltill., sem flutt hefur verið í því skyni, að Alþ. sjálft geri út um það mál án íhlutunar ríkisstj. Ég á eftir að sjá, að slík breyt. sé á orðin hugsunarhætti þm., að þeir taki slíkt fyrir góða og gilda vöru.

Auk þess er annað atriði í þessari þáltill., sem ég legg mikið upp úr. Það er, að hér stendur skýrum stöfum, að þessi hátíð eigi að vera 17. júní í sambandi við gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar á þeim degi. Það er allt annað, að Alþ. slái því föstu með slíkri samþykkt, en þótt ríkisstj. segi eitthvað um það, að hún ætlist til þess, að þetta verði framkvæmt þannig. Hæstv. forsrh. var ekki heldur að tala um að framkvæma þetta samkv. því, sem í þáltill. stendur, heldur var hann hér að vitna eitthvað til vilja meiri hl. Alþ. Á hann þá sjálfsagt við það, að í stjskrfrv., sem hér liggur fyrir þinginu, stendur, í samræmi við þetta, sem stendur í þáltill., að gildistaka lýðveldisstjskr. skuli fara fram 17. júní.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. á móti því, að þessari þáltill. verði vísað til stj., en standa að því, að hún fái þá afgreiðslu Alþ., sem hv. flm. ætluðust til. Ég er sem áður reiðubúinn að styðja ríkisstj. til allra góðra og þarfra verka. En allri undansláttarpólitík í hennar fari sem annarra og hálfvelguhrærigraut snýst ég öndverður gegn.