21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (6026)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál, tel ekki heldur tilefni til þess, en þessar umr. undra mig nokkuð.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú ein, að ég vil ekki láta því ómótmælt, sem hér hefur verið borið fram, að hér hafi átt sér stað brigðmælgi eða svik í garð Sósfl. af þeim flokkum tveimur, sem með honum hafa starfað að þessu máli. Ég skal ekki fara út í að rekja þetta nú. Það er hægt í sambandi við umr. um till. um niðurfellingu sambandslagasamningsins og frv. um lýðveldisstjskr. og verður þá gert hér í sölum Alþ., ef tilefni þykir til þess. Að öðru leyti virðast mér þessar umr. sanna, að menn séu að leita sér að ágreiningsefnum, eins og raunar allt of mikið hefur borið á í þessu máli.

Ég vil svo, út af því, sem hv. þm. Borgf. og hv. 7. þm. Reykv. (SK) sögðu, aðeins segja það, að það er náttúrlega engan veginn á rökum byggt, að slíkri till. sem þessari sé vísað frá, ef henni er nú vísað til ríkisstj., sem lýsir yfir, um leið og hún óskar, að málinu sé vísað til hennar, að hún sé efnislega samþykk till. og muni framkvæma hana á þann hátt, sem þingvilji er fyrir. Þessir báðir hv. þm., sem ég nefndi, hafa og lýst yfir því, að þeim þyki nokkuð skorta á um form á till. eins og hún liggur fyrir. Ég hef aldrei heyrt það í þau ár, sem ég hef verið á þingi, að það sé að eyða máli að vísa því til ríkisstj., sem lýsir yfir, að hún sé efnislega samþykk því sama máli og muni tafarlaust framkvæma það, eins og hæstv. forsrh. lýsti, að ríkisstj. mundi nú gera. Ég er ekki flm. að þessari þáltill., en ég get ómögulega barizt gegn till. hæstv. ríkisstj., þó að hún komi frá ríkisstj., — till., sem er sanngjörn og byggð á heilbrigðri skynsemi. Mér er þess vegna ánægja að geta tekið undir ósk hæstv. forsrh. um þessa meðferð málsins, sem hann stingur upp á.