21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (6027)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Það er aðeins örstutt aths.

Út af röksemdum þeim, sem hæstv. forsrh. bar hér fram gegn því, sem ég sagði, að ríkisstj. væri hér að færa sig upp á skaftið með því að vilja draga í sínar hendur þá þáltill., sem ætlunin var hjá flm., að Alþ. gengi formlega frá, vildi ég bara segja það, að þarna er náttúrlega alveg ólíku saman að jafna, þessari þáltill. annars vegar og hins vegar þeim tveim málum, sem hæstv. forsrh. nefndi til samanburðar. Hæstv. ríkisstj. hefur borið fram skilnaðarmálið og frv. til lýðveldisstjskr. í því skyni, að Alþ. gengi frá þessum málum báðum. En í þessu tilfelli er ríkisstj. að fara fram á, að vísað verði til hennar till., sem er liður í þessu sjálfstæðismáli í heild, en að vísu flutt af öðrum aðilum í þinginu. — Þetta stangast svo gersamlega, að ég er alveg hissa, að hæstv. forsrh. skuli grípa til þessara röksemda gegn því, sem hefur verið sagt um till. hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

Hv. þm. G-K. talaði um, að stj. hefði velvilja í þessu máli og ætlaði að framkvæma það á sama hátt og Alþ. Ég sé ekki annað en sjálfsagt sé, að Alþ. hafi á þessu þá tilhögun, sem til var ætlazt. Alþ. hefur einhvern tíma séð það svartara en að ganga frá þessari till., ef það er ekkert annað en formið. Þó að ríkisstj. sé fullfær um það, þá er Alþ. það vissulega engu síður.

Ég skal svo að lokum benda á það, að ég hef setið á 35 þingum og man ekki eftir því, að ríkisstj. hafi nokkurn tíma farið fram á að hrifsa til sín mál með slíkum hætti, sem hér er stefnt að. Hitt hefur oft borið við, að einstakar n. og einstakir þm. hafi gert um það till. að vísa máli til ríkisstj., og hefur það þá langoftast verið gert til að draga afgreiðslu þeirra á langinn, ef ekki að eyða því. Þegar máli hefur verið vísað til ríkisstj., er það vanaviðkvæðið „að láta það í drekkingarhylinn“.