21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í D-deild Alþingistíðinda. (6031)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Skúli Guðmundsson:

Hv. 2. þm. Reykv. sagði í þessum umr., að ef samþ. yrði að vísa þessari till. til ríkisstj., væri með því rofið samkomulag, sem gert hefði verið um þetta mál milli þriggja flokka, og væri Framsfl. einn af þeim. Ég mótmæli þessu, því að þetta hlýtur að vera byggt á misskilningi hjá hv. þm. Ég veit ekki, hvað talað hefur verið um þetta í stjskrn. eða lýðveldisn., því að þar er ég ekki. En það skiptir ekki máli. Um samkomulag milli flokka um þessi mál hefur ekki verið að ræða, því að mér er kunnugt um, að þessi till. hefur aldrei verið lögð fyrir okkur framsóknarmenn og engin ályktun verið gerð í þeim flokki um þá till., sem hér liggur fyrir. Ég er ekki ánægður með hana eins og hún er orðuð, og ég tel mig ekki hafa gengið í neitt bandalag um einhverja ákveðna afgreiðslu á þessari till. Ég get tekið það fram, að ég get vel fallizt á, að till. verði vísað til hæstv. ríkisstj., og ég er ekki sammála hv. 7. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv. um það, að þetta sé mjög óvirðuleg meðferð á þessu máli.

Hæstv. forsrh. hefur lýst yfir því, að ríkisstj. muni taka að sér forgöngu í málinu. Ég treysti hæstv. ríkisstj. til þess að fara með þetta mál á hinn bezta hátt og tel heppilegast, að við samþ. að vísa því til hennar.