05.10.1944
Sameinað þing: 52. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í D-deild Alþingistíðinda. (6043)

151. mál, póstsamband milli Íslands og Ameríku

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég er sömu skoðunar og hv. flm., að ástand það, sem ríkt hefur í póstsamgöngum milli Íslands og Ameríku, sé með öllu óviðunandi. Póststjórnin og ríkisstjórnin hafa haft fullan skilning á þessu, og fyrir alllöngu var gerð tilraun til þess að fá úr þessu bætt, en það reyndist ókleift, og þótt stjórn Bandaríkjanna tæki málinu með skilningi og vinsemd, þá varð svarið það, að ekki væri hægt eins og þá stóð að verða við þeim tilmælum að flytja póst loftleiðis hér á milli. Málið var svo enn tekið upp fyrir nokkrum mánuðum, þar eð auðsýnt þótti, að aðstæður væru breyttar, og þegar ég var í Washington fyrir rúmum mánuði, þá fylgdi ég þessu máli eftir með þeim árangri, að telja má víst, að innan skamms verði farið að flytja bréfapóst loftleiðis hér á milli. Að þetta er ekki þegar komið í framkvæmd, stafar af því, að koma þarf vissum formsatriðum í lag þar vestra, sem búizt er við, að taki nokkrar vikur, m. a. vegna þess að þetta þarf að ganga um hendur fleiri rn. í Washington, en það er því tryggt, að innan mjög skamms tíma munu því hefjast hér á milli þeir póstflutningar, sem till. fer fram á.